Gott að vita hvað Geir vill.

Var að hugsa í morgun þegar ég fletti  Morgunblaðinu,að sennilega væri ég haldinn einhverri þráhyggju hvað varðar umræðuna um hugsanlegar aðildarviðræður við ESB. Ég virðist bara ekki geta skilið þau rök sem liggja að baki því að ekki sé tímabært að taka upp umræðu um þetta mál, sem þó er á flestra vörum.

Þeir félagar Bjarni Bendiktsson og Illugi Gunnarsson   virðast vera sammála í sínu mati skv. Grein í mbl í morgun að „ Ef ekki liggur fyrir meirihluti á Alþingi, þar sem þingmenn eru bundnir eigin sannfæringu þá sé ótímabært að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari  fram.

Hefur farið þar fram einhver alvöru umræða um hugsanlegar aðildarviðræður, þar sem komið hefur í ljós að slíkur meirihluti sé ekki fyrir hendi datt mér í hug, og mundi að minnsta kosti ekki eftir þeirri umræðu í svipinn.  

Annað sem mér fannst athyglisvert við þessa grein var að báðir virtust þeir vera sammála um að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að vera leiðandi í slíkri umræðu, og þar er ég reyndar alveg sammála þeim. En til þess að svo geti orðið þurfa stofnanir flokksins náttúrulega að taka málið upp og komast að einhverri  niðurstöðu hver stefna flokksins er í þessu máli.

Þorgerður Katrín  varaformaður flokksins virðist að minnsta kosti ekki vera alveg sammála formanninum um hver þessi stefna flokkins ætti að vera í þessu máli, og er meira að segja svo lýðræðislega þenkjandi að þjóðaratkvæðagreiðsla um hugsanlegar aðildarviðræður væri ekki slæmur kostur, á meðan meginnþorri alþingismannanna flokksins  forðast að ræða málið og vísa til að það sé ekki  tímabært, án þess þó að færa einhver frekari  rök fyrir því hvers vegna það sé ekki tímabært.

Geir H Haarde sagði skv  netfréttum Mbl í dag að hann vildi ekki að að Íslendingar gengju í Evrópusambandið, vegna þess að þá hefðu stjórnvöld ekki það svigrúm sem þyrfti til að losa sig úr aðstæðum svipuðum þeim og hér hafa komið upp á síðustu vikum og vísar um leið til breytinga í alþjóðlegu umhverfi.  

Einhverra hluta vegna,  virðast þessi áföll sem dunið hafa yfir fjármálakerfi heimsins ekki hafa komið niður af sama þunga til dæmis í öðrum löndum Evrópu, þrátt fyrir hið litla svigrúm sem þau búa við. Eða að maður hefur hreinlega ekki fylgst nógu vel með hvað það varðar. Og hefðu þessar aðstæður yfirleitt komið upp hefðum við verið svo lánsöm að haga  fjármálum okkar þannig að við ættum yfirleitt möguleika á að komast inn í ESB?

Auðvitað  er það rétt sem andstæðingar aðildarviðræðna halda fram að hugsanlegt sé að eitthvað verði að gefa eftir hvað varðar fullveldi þjóðarinnar í ýmsum málum t.d  fiskveiðimálum . En er eitthvað sem breytist við það. Höfum við t.d  ekki fyrir löngu gefið eftir fullveldisréttin með t.d kvótann á fiskinum . Hefur hann ekki verið afhentur fáum útvöldum fyrir okkar  hönd.

Hitt er annað sem mér dettur í hug, og það er að í hverri einustu viku nánast þurfa Íslendingar að samþykkja ýmsar tilskipanir frá Evrópusambandinu á grundvelli EES samningsins. Allt eru þetta tilskipanir sem við höfum eingin áhrif á. Hefur þar ekki verið afhentur hluti af fullveldisréttinum í ýmsum málum, og það án þess að nokkur  stjórnarskrárbreyting hafi verið gerð hvað það varðar.

Það er löngu orðið tímabært að þessi umræða verði tekinn á þeim grundvelli hvað þjóðinni er fyrir bestu til framtíðar, en ekki hvort Geir H Haarde eða einhverjir aðrir vilja eða vilja ekki fara í Evrópusambandið.  Í þeirri umræðu þurfa menn að vega og meta kostina og gallana við slíkar viðræður en ekki bara gefa sér einhverjar fyrirframyndaðar niðurstöður  úr slíkum viðræðum.Tryggja þarf þjóðinni stöðugleika til framtíðar , hvort sem það verður gert með krónu eða evru. Því  ljóst er að það kerfi sem við búum við í dag gerir það ekki.


mbl.is Geir: Ég vil ekki ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein hjá þér. Er þér innilega sammála. Það er skemmtilegt að vita hvað hann Geir og Davíð vilja. En ætli þeir séu ekki nokkuð sama hvað hinn almenni borgari vill. Ótrúlegt hvað nokkrir íhaldsmenn eru veruleikafyrtir og halda að þeir geti haldið krónunni.

Það er talið að við erum þegar komin um 80% í  ESB með samningum frá  EES.  Væri ekki vit í því að athuga hvað þeir eru að bjóða okkur ef við ákveðum svo seinna að ganga í ESB. Það er eins og Sjálfstæðismenn vilji ekki einu sinni vita hvað er á borðinu. Þeim eru greinilega annt um svörtuloft greyin!

Þröstur (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 16:18

2 identicon

Frábær grein.

Eins og rituð væri úr mínu eigin lyklaborði, bara betri...

Þetta er það sem almenningur á Íslandi í dag hugsar, en fær bara ekki að tjá sig um (nema þessir örfáu sem nenna að gera sig að hálfgerðum nöldurskjóðum á bloggsíðum).

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 17:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Að frátöldum félögum mínum í Frjálslynda flokknum og góðvinum mínum í V.G. ber ég nú mest traust til Geirs Hilmars Haarde í pólitískri umræðu um aðild að ESB.

Snautlegasta ályktun sem ég hef heyrt frá stofnun lýðveldis á Íslandi varðar inngöngu í þetta yfirþjóðlega apparat og hljóðar svona:

"Við þurfum að sjá hvað er í boði!"

"Ritningin segir oss að mennirnir eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera. Og nú hefur Jón í Kálfárdal selt Lýsing sinn fyrir spað."

Þau einu orð sem lifa eftir vandræðapiltinn Jón Bergþórsson og upp úr eins manns hljóði þegar hann var að stauta sig í gegnum kverið.

Týndist á hafísjaka sem rak frá landi norður á Skaga.

Mikill fjöldi þessarar þjóðar er reiðubúinn að selja Lýsing sinn fyrir spað.

Árni Gunnarsson, 17.5.2008 kl. 18:55

4 identicon

Ég er ekki sjálfstæðismanneskja, ég er óflokksbundin, en ég tek ofan fyrir Geir. Hlustið þið á það sem hann er að segja, því það er sannleikur. Ég bjó í hjarta evrópu í 30 ár og er ný flutt aftur heim. Ég varð vitni að því þegar evrópa sameinaðist, landamærinn opnuðust og allt breyttist. Svo kom evran og rústaði restinni fyrir meðalmanninum. 11 milljón þjóðverja búa UNDIR fátækramörkum,,, í köldum íbúðum...   4 hvert barn í Berlín líður skort. TIL HAMINGJU EVRÓPA!!!  Flott mál maður! Þetta er svipað í allri evrópu nema Lúxemburg sem er ennþá ríkt land.

 Geir talaði úr mínum munni í kvöld. Við ERUM mjög sérstök þjóð. Viljum við selja okkur fyrir efnishyggju? Halló? Ég ráðlegg hverjum einasta íslending með skoðanir, að lesa ÖLL evrópulögin áður en þeir dæma Geir og hans staðreyndir. Síðan ættu þeir að lesa allt um Jón Sigurðsson heitinn. Nei ég hef ekki lesið öll evrópulögin en ég upplifði tonn af þeim. Rockhard reality!

Ég elska þetta land og dáist að þjóðinni með allann sinn dugnað, og þegar maður upplifir í hnotskurn hvað þetta evrópusamband er, þá þakkar maður fyrir að koma hingað heim og taka þátt í samhentu reddingarþjóðfélagi sem stendur sig eins og stórveldi. Það má margt betur fara hér á landi, en ég vona að ég þurfi aldrei aftur að upplifa að búa undir evrópubákninu. Að ég þurfi aldrei aftur að borða bara útlenskt kjöt eða grænmeti. Íslensk matvara er lostæti!

Ef þið bara vissuð hvað Ísland er mikil paradís. Ég bjó í 88 miljón manna þjóðfélagi og borgaði 6 sinnum meira í rafmagn og hita en ég borga hér á landi. Ég þakka Guði í hvert sinn sem ég drekk ískalt vatn úr krananum, því það er ekki búið að fara 7 sinnum í gegnum mannslíkamann. Mér finnst að þjóðin mætti taka sig aðeins á, og Geir mætti rassskella alla ríkisstjórnina opinberlega á Austurvelli :=)

anna (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 21:07

5 identicon

Það sem mér fannst vanta í þessa sendingu frá Geir var spurningin ,,viljum við hafa hæsta matvæla verð í heiminum, viljum við hafa hæstu vexti í heiminum, viljum við hafa krónu sem sveiflast svo mikið að öryggið varðandi gjaldmiðiðilinn er ekki neitt?" Það er ekki nóg að benda bara á gallana, það verður að benda á kostina líka og vega svo og meta hvort er hinu yfirsterkara. Með því að gera það ekki er Geir að segja að þetta sé betra svona eins og það er fyrir hann.

Það er skrýtið að nefna það að drekka ískalt vatn úr krananum eins og það muni breytast við inngöngu í ESB og að rafmagn muni hækka til jafns við það sem er dýrast einhversstaðar út í heimi. Svo hefur guð ekkert með þetta að gera enda skrifaður með litlum staf en ekki stórum. 

Valsól (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 21:29

6 Smámynd: Hannes Friðriksson

Sæl öllsömul

Það er nákvæmlega þetta sem ég er að tala um þegar ég tala um að opna fyrir umræðuna. Ég sjálfur er skráður í Sjálfstæðisflokkinn, og veit að þar eru margir sem eru sömu skoðunar og ég um að opna þurfi þessa umræðu og fara að tala um hverjir eru kostirnir og hverjir eru gallarnir við hugsanlega aðild. Nú hef hef í kvöld verið að velta aðeins ummælum Geirs frá því í dag fyrir mér, hvað það varðar að svigrúm okkar minnki til að taka á slíkum þrengingum sem við höfum nú ratað í göngum við í Evrópusambandið, og eina ráðið til að taka á slíkum sveiflum verði uppsagnir starfsfólks í landinu.  Skil ekki alveg hver munurinn er að segja upp fólki eða að kæla  hagkerfið svo rækilega sem nú er gert þannig að fólk missi vinnunna vegna verkefnaskorts? Þar finnst mér hann einfalda málið og gefa sér forsendur sem ekki yrðu fyrir hendi (nú geri ég það sama sjálfur)  gengjum við í ESB. Hann virðist ganga út frá að að við þyrftum ekki að breyta neinu hvað varðar fjármálastjórn okkar ef við gengjum þar inn og sama staða gæti komið upp á ný. Einhvern veginn hef ég haft á tilfinninugunni að stór hluti þess vanda sem við erum að ganga í gegnum núna byggist á smæð hagkerfis okkar (leiðréttið mig ef það er rangt) og því viðkvæmara gagnvart slikum áföllum.

Auðvitað á maður að hlusta á rödd eins og Önnu sem búið hefur í Evrópu allan þennan tíma og upplifað þær breytingar sem orðið hafa eftir fall múrsins. Það var mikið og stórt mál sem öll Evrópa hefur þurft að taka á og kannski eins gott að ESB var til staðar til að taka á því. Eftir því sem maður heyrir á fólki sem búið hefur t.d í Danmörku og Ítalíu hefur staða þess fóldks ekki versnað við  inngönguna. Þar bjó ég sjálfur (Danmörku) skömmu eftir inngöngu þeirra og upplifði það ekki að kjör manna versnuðu.

Spurningin í hinn langa enda verður náttúrulega fyrir okkur; bætir þetta lífskjör okkar, og samkeppnistöðu? Lækkar þetta þá vexti sem  bæði heimilin og fyrirtækin í landinu þurfa að borga? Og er það þess virði fyrir þjóðina til framtiðar?  Þegar við höfum svör við þessu og þau fáum við ekki án aðildarviðræðna, þá fyrst getum við myndað okkur skoðun. Og ég held að það sé tímabært að fá  þessi svör fyrr heldur en seinna.

Í mínum huga snýst málið um það að heimsmynd okkar Íslendinga hefur breytst mikið á undanförnum árum; úr því að vera nánast bændasamfélag í það að vera samfélag á meðal þjóðanna með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.  Það þýðir ekki fyrir okkur til framtíðar að mála okkur út í horn vegna misskilds hroka og halda að okkar hagkerfi sem byggist á krónunni geti nokkurn tíma orðið svo sterkt að það geti staðið sterkt gagnvart öðrum sterkum hagkerfum heimsins. Í þessu máli hjálpar enginn okkur nema við sjálfir.  Það er mín skoðun.

Hannes Friðriksson , 17.5.2008 kl. 23:33

7 Smámynd: Jón V Viðarsson

Góðar greinar. En eitt sem vantar, það búa núna um 10.000 Íslendingar í Danmörk en árið 2000 bjuggu þar um 3000 manns. Mikið af þessu fólki langar að koma heim aftur en það getur það ekki vegna óreglunnar hérna. Þessu fólki líður eins og flóttafólki vegna allra þessa hörmunga sem hér geysa. Er það ekki hörmulegt að geta ekki komið aftur í landið sitt. Geir og Dabbi eru eins og einræðisherrar í ríki sínu.Mér persónulega líður illa að hafa þessa menn svo volduga. Hvað höfum við fengið í staðin fyrir okkar fólk, jú Pólverja og fleirri austantjaldþjóðir. Svo koma Rúmenar og Búlgarar rænandi og ruplandi fljótlega. Ég þekki tvo útlendinga sem eru að vinna hér, Þeir segjast ætla að fara burt héðan ef Ísland gengur í ESB.  Þeir eru frá Póllandi og Portúgal. Þeir segjast vera svo ánægðir að búa hér vegna þess að Ísland er ekki í ESB. Þetta hlýtur að segja okkur eitthvað. Heyra þarf meira frá fólki sem býr í þessum löndum áður en við förum að ákveða eitthvað. Mér finnst Íslendingar ekki nógu duglegir að aðstoða sitt nánasta fólk sem er kanski á einhverjum lúsa lífeyri. Sleppa kanski einni utanlansferð og styrkja frekar fólkið sitt. Þetta er gert í mörgum löndum. Fólk frá Asíu sem er að vinna hér sendir pening til foreldra sinna til þess að borga til baka það sem foreldrarnir kostuðu fyrir skólagöngu. Svona gengur þetta mann af manni. Þurfum að vera meira gefandi en þyggjandi.

Jón V Viðarsson, 18.5.2008 kl. 03:03

8 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Geir H. vill ekki ganga í ESB, þá vitum við það. En hann er smeykur við að ræða málin og reynir að stýra flokki sínum frá vitrænni umræðu um málið. Það þykir mér merkilegt, stærsti flokkurinn þorir ekki að taka á einu stærsta málinu. Hvað öfl eru það í flokknum sem eru svona stygg?

Geir nefnir sem dæmi um kosti þess að vera utan ESB að þá hefðum við ekki getað brugðist við þeim vanda sem nú er mestur í efnahagsmálum. En eins og ýmsir hafa bent á þá er það vandi sem við búum til sjálf, og væri sjálfsagt ekki til ef að við hefðum lagað okkar hagkerfi m.a. með því að kasta krónunni.

EES samningurinn og aðlögun okkar að Evrópu hefur skilað bótum í réttarkerfinu, bætt íslenska stjórnsýslu og komið umhverfislöggjöf okkar í betra horf.

Enginn pólitíkus hefur opinberað þá skoðun að við ættum að losa okkur frá EES samningnum. Nú tökum við upp margvíslegar tilskipanir og breytum lögum hér vegna aðildarinnar að EES. En við eigum enga möguleika á að hafa bein áhrif þær umræður og atkvæðagreiðslur þar sem þessar tilskipanir verða til. Það er mjög sérkennileg staða hjá þjóð sem segist vera svo stolt og sjálfstæð.

Mér sýnist það blasa við að rökrétt skref í dag er að hefja aðildarviðræður við ESB og sjá hvernig kaupin gerast á Eyrinni. Ef það kemur í ljós að þjóðin telur skilmálana óaðgengilega þá er málið komið á nýtt stig. En að þora ekki að ræða málin og að hefja viðræður – ég get ekki skilið þá afstöðu. A.m.k. hefur enginn umræða átt sér stað sem hefur getað sannfært mig um að afstaða Geirs H. og Ragnar Arnalds sé í lagi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 18.5.2008 kl. 13:10

9 identicon

Fyrirgefðu Micha, ég ætlaði ekki að særa þig, en já, ég veit sko hvað ég er að tala um,og þú skildir greinilega ekki alveg hvað ég var að fara. Ég ól upp 5 börn í evrópu, síðustu 10 árin vorum við í þýskalandi. Börnin mín og barnabörn búa enn í þýskalandi en ég VARÐ að flytja heim því ég var orðin allt of gömul til að fá vinnu þar, og gat ekki framfleitt mér. Ich weis nicht wo in Deutschland sie wohnen, aber bestimmt nicht im Ruhrgebiet, norden oder Rheinland Pfalz. Ég horfði á heimildarmynd í þýska sjónvarpinu í fyrra um ástandið í landinu og var mjög hissa að sjá tölurnar yfir fátækramörkin, og t.d. það að milljónir manna þurfa að treysta á matarmiða "Die Tafel". Allir mínir vinir í þýskalandi sem eru ekki með háskólagráðu og öruggt vel launað starf, eru á sultarlaunum og hafa varla efni á að halda hýbílum sínum heitum. Börnin mín eru ýmist í námi eða með fjölskildur og þau hafa varla efni á að hita hýbíli sín.

Í Þýskalandi borgaði ég 270 evrur á mánuði í hita og rafmagn (Stadtwerke) þó að ég sparaði og passaði mig, en borga hér á íslandi 60 evrur og spara alls ekki. Þetta með íslenska vatnið var nú bara með til að vekja samlanda mína til umhugsunar á þeirri staðreynd hvað það er margt hér sem fólk gleymir kannski að hugsa út í og þakka fyrir. Sorry 88 millj var prentvilla, átti að vera 86, mér skilst að það búi 82 millj "skráðir" í landinu en u.þ.b. 4millj "laumufarþegar", óskráðir, og það hef ég líka úr þýska sjónvarpinu. Auðvitað eru kostir og gallar allsstaðar og ég er ekki með áróður, heldur var ég að tjá mig. Ég bý með þýskum manni, á þýskann tengdason og hálfþýsk barnabörn, og mér líkar almennt mjög vel við þjóðverja og ég á árás þína og "einstellung" ekki skilið. Leb wohl Micha.

anna (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 21:26

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Hannes og þið hin!

Frábær umræða. Á þessari umræðu þurfum við að halda og síðan eigum við að dýpka hana aðeins meira. Meiri rök og minni tilfinningar.

Kær kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.5.2008 kl. 23:00

11 Smámynd: Hannes Friðriksson

Sæl og blessuð öll.

Sé að hér eru hafnar rökræður um ástandið í þýskalandi, og sú umræða er af hinu góða. Maður fræðist þá kannski í leiðinni um hvað þar er að gerast, því ekki er ég nú vel inni í málum þar.

Hjálmtýr ég er innilega sammála því sem þú segir hvað varðar það að stærsti stjórnmálaflokkur landsins virðist ekki hafa dug í sér til að ræða þetta á málefnalegan hátt.

Sá í morgun viðtal við Sigurð Kára þar sem hann var að leggja út af umræðunni undanfarna daga, og komst að þeirri niðurstöðu að öll þessi umræða væri ekki sprottin af ósk eða þrá að til að ganga í ESB, heldur grundvallaðist hún frekar af stöðu efnahagsmálanna. Ég veit ekki hvort ég á heldur að hlæja eða gráta þegar maður sér svona röksemdarfærslu. Ég veit ekki hvað maðurinn er að meina. Er ekki rökrétt að þegar séð er að það kerfi sem við búum við í dag er ekki að virka, að leitað sé leiða til að koma hér á heilbrigðu efnahagskerfi. Og þetta hefur í raun ekkert með óskir eða þrár manna að gera. Heldur er þetta bara ein af leiðunum sem þarfa að ræða.

En Sigurður Kári telur sig nokkuð öruggan með útkomu slíkrar umræðu á landsþingi Sjálfstæðisflokksins, og stefnu flokksins varðand ESB verði ekki breytt í nánustu framtíð. Heldur hann virkilega að allir sjálfstæðismenn séu steinrunnir?

Auðvitað mun þessi umræða fara fram, og af meiri krafti en áður. það verður þá bara að vera án Sjálfstæðisflokksins, þar til þeir telja loksins tímabært að taka þátt í þeirri umræðu. 

                                            Með bestu kveðjum

                                            Hannes Friðriksson

Hannes Friðriksson , 18.5.2008 kl. 23:17

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Algjörlega sammála þér Hannes. Það sem menn þurfa líka að skoða er hvað sjálfstæðismenn, sem skoða vilja aðildarviðræður á næstu árum, eiga að gera. Eigum við þá bara að taka því að flokksforustan vill ekki ræða málin við félaga sína? Sennilega er ekkert annað að gera, en að bera harm sinn í hljóði?

Eins og allir vita eru þrjú ár í næstu kosningar núna og 1/4 liðinn af stjórnarsamstarfinu - ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða!

Ég hefði haldð að það væri snjallræði að taka þessa Evrópuumræðu næsta vetur, þar sem þá eru enn tvö ár í kosningar og hægt að sætta sjónarmið fyrir landsfundinn haustið 2009 eða hreinlega skipta um skoðun í ESB málum ef að meirihluti sjálfstæðismanna er þeirrar skoðunar. 

Hvað ætla þessir stjórnmálamenn að segja í næsta prófkjöri, ef þeir eru ekki einu sinni til í að ræða málin núna eða næsta vetur. Ætla þeir þá að koma fram sem Evrópusinnar rétt fyrir landsfund 2009 eða rétt fyrir kosningar 2011, án þess að hafa undirbúið jarðveginn nokkuð. Hversu trúverðugt er það? Eiga þessir menn ekki að leiða pólitíska umræðu í flokknum - ég bara spyr. Átta þeir sig ekki á því, hvað tíminn er fljótur að líða? Átta þeir sig ekki á því, hvað fólk er fljótt að skipta um skoðun?

Hvað ef einhverjir alvörumenn - og þá er ég ekki að tala um Íslandshreyfinguna, heldur alvöru klofning á borð við Frjálslynda flokkinn - byrja að undirbúa klofningsframboð með peninga frá fyrirtækjum, sem vilja ESB aðild og þau eru víst ófá? Þetta er mjög hættulegt, þar sem svona mál geta klofið flokka í herðar niður og þá ekki síst ef efnahagslífið tekur ekki kipp fljótlega á næsta ári!

Kveðja, Guðbjörn

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.5.2008 kl. 22:45

13 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn

Var að velta fyrir mér einum fleti í víðbót, sem er kannski ekki svo galinn ef maður hugsar um það. Gæti verið að ein ástæðan fyrir þögninni sé að ljóst er að mikilvægt er að það þarf að vera sterk ríkisstjórn sem situr út þetta tímabil. Málin eru mörg  og erfið sem þarf að taka á. Gæti verið að menn forðuðust að setja þetta mál í umræðuna af ótta við að stjórnin klofnaði og við sjálfstæðismenn gengjum til liðs við Vinstri Græna og jafnvel Frjálslynda flokkinn, sem er einmitt það sem t.d  þeir Morgunblaðsmenn vilja. Eru eitthvað að óttast að Samfylkingin sé að hafa of mikið út úr þessu samstarfi.

Það má vel vera að að það sé skynsamlegt út frá þessum hugsunum að halda aftur af málinu, en þá er þetta líka spurningin um hvort stjórnmálin eigi að vera í því fari að gera allt til að halda völdunum í stað þess að hafa kjark til að setja skoðanir sínar fram, og standa þá með þeim. Það tel ég vera heilbrigðara fyrir lýðræðið. Það þjónar engum tilgangi í mínum huga að halda svona umræðu niðri, eingöngu vegna þess að brotsjór geti riðið yfir. Betra að beita upp í ölduna og reyna að sigla í gegnum hana. 

Það er alveg ljóst að þetta verður eitt aðalmálanna í næstu kosningum og ekki til neins að vera ekki tilbúnir í þá umræðu þegar þar að kemur. Flokkurinn og þá er ég að tala um grasrótina verður að hafa farið í gegnum umræðuna þá, þannig að skoðun flokksins sýni sem réttasta mynd af vilja fólksins í flokknum. Ég sé enga ástæðu til þess að bera harm minn í hljóði hvað þetta varðar. Því í mínum huga er þetta umræða sem flokkurinn á að taka með gleðibros á vör, hver svo sem niðurstaðan verður. Til þess á flokkurinn að vera nógu sterkur.

Hannes Friðriksson , 20.5.2008 kl. 08:57

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Góð pæling hjá þér með ríkisstjórnarsamstarfið. Hins vegar finnst mér Samfylkingin ekki hafa legið á skoðun sinni og það hafa framsóknarmenn ekki heldur gert, eða sjálfstæðismenn á borð við Þorstein Pálsson og forsvarsmenn SA og SI. Þessir menn eru hvorki VG eða samfylkingarfólk, því máttu trúa!¨

Kveðja, Guðbjörn

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.5.2008 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.