Þarna áttust við maður og dýr.

Nú í nokkur ár hafa vinir og vandamenn gengið mann undir mann fram í því að smita mig af veiðidellunni. Verið dugleg við að bjóða mér að koma með í þeirri veiku von að einhvern tíma kæmi sá dagur að ég veiddi eitthvað.  Frúin sem komin er af sjómönnum langt aftur í ættir hafði meira að segja haldið því fram á mannamótum að hún hefði séð fiska synda beina leið til hafs, þegar ég birtist við ár eða vötn . Magnaðar sögur hafa gengið af fiskileysi mínu og útgerðarmaðurinn vinur minn vildi meina að það yrðu endalok sjávarútvegs á Íslandi, ef hann leyfði mér að fara einn túr með honum . En nú er þetta breytt eins og raunar allt íslenskt samfélag. Í gær veiddi ég Maríulaxinn.

Eyjólfur vinur minn sem lengi hafði séð að þetta fiskleysi var tekið að hafa áhrif á sjálfsmynd mína bauð mér með sér til að sýna mér nú eitt skipti fyrir öll hvernig ætti að gera þetta. En hafði nú ekki meiri trú á veiðimennsku minni en svo  að þegar þessi langþráði fiskur loksins beit á var hann staddur upp í bíl með þriðja veiðifélaganum í kaffi, og ég staddur út í miðri á með ferlíkið á hinum endanum. Fyrir mig var ekkert annað að gera en að halda af krafti í stöngina og vona að þeir yrðu ekki í kaffi fram yfir hádegismat. Þarna áttust við maður og dýr.

Fljótlega mættu þeir þó á svæðið og leiðbeindu mér um hvernig best væri að svona málum staðið og í land kom fiskurinn, kannski ekki alveg eins stór og mér hafði þótt hann vera þegar ég stóð yfirgefinn í miðri á. Allt fór þetta fram samkvæmt einhverjum hefðum sem þeir sögðu að væru og varð ég að bíta  af fiskinum veiðiuggan .  Það borgaði sig því næsti fiskur var mun stærri.

Frúin sýndi varla svipbrigði  þegar ég kom heim  og bað hana hróðugur að rýma til í frystikistunni svo koma mætti afla dagsins fyrir. Hún spurði hvort ekki væri nóg að hreyfa smá til horninu á frystikistunni , en brá við þegar í ljós kom að frystikistan var varla nógu löng, og beygja þurfti fiskinn til að koma honum þar ofaní. Veit þó ekki hvort það segi meir um stærð frystikistunnar eða fisksins.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Bjarnason

Til hamingju með veiðina.  Þetta er vonandi bara byrjunin á veiðferlinum..

Björn Bjarnason, 15.10.2008 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.