Fimmtudagur, 27. janúar 2011
Trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar.
„Umræða um þjóðnýtingu orkufyrirtækja kemur í veg fyrir erlendar fjárfestingar". „Erlendir fjárfestar leita trygginga sökum pólitísks óstöðugleika", virðast vera trúarsetningar sem forstjóra HS Orku er mikið í mun að festist í vitund okkar íslendinga þessa dagana. Hann líkir ástandinu við svonefnd þriðja heims ríki, sem menn eru þó almennt sammála um að hafi ekki komið neitt sérlega vel út úr samskiptum sínum við erlenda fjárfesta eða fyrrum nýlenduherra sína. Kannski leiða ummæli forstjóra HS Orku einmitt augun að því á hvaða leið við gætum verið, veljum við þá leið að láta undan bókstafstrúarmönnum nýfrjálshyggjunnar.
Fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum er ljóst að tilkoma álvers í Helguvík myndi hafa gríðarlega áhrif. Atvinnuleysi á svæðinu yrði sennilega því sem næst útrýmt. En það er jafnljóst af þessari fréttaskýringu mbl. að möguleikarnir virðast ekki miklir miðað við ummæli þeirra forráðmanna verkefnisins. Forsendur upphaflega raforkusamnigsins eru brostnar. Kröfur til nýtingar þess jarðhita sem til þarf hífa kostnaðinn upp, og þann kostnað virðist kaupandi orkunnar ekki tilbúinn til að borga á þessari stundu að minnsta kosti. Verðið virðist of hátt til þess að nægileg arðsemi verði af rekstri slíks álvers.
Norðurál hafa áður sagst tilbúnir til fjárfestinga um leið og semst um orkuverð og afhendingu, en setja ekki fyrirvara um pólitískan óstöðugleika þar að lútandi. Þeir segjast hafa fjármagnað framkvæmdina að því er virðist í hrópandi mótsögn við staðhæfingu forstjóra HS Orku um að sú fjármögnun hafi þurft tryggingu um pólitískan stöðugleika. Engar kröfur hafi verið gerðar um að sú raforka sem nýta ætti þyrftu að koma fra einkafyrirtæki, enda ljóst að eigi álver að verða að veruleika þyrfti hluti orkunnar að koma frá Landsvirkjun, eða OR. Sem sannanlega eru í eigu opinberra aðila og hafa aldrei verið þjóðnýttt. Það skiptir því ekki máli hver á.
Ummæli og athafnir forsvarsmanna fyrirtækjanna tveggja virðast því stangast á. Norðurál hefur fjármagnað framkvæmd sína, sem forstjóri HS Orku segir ekki hægt í núverandi stöðu. Engum vitanlega hafi fjármögnunarsamningur Norðuáls verið kallaður til baka, eða felldur úr gildi sökum pólitísks óstöðugleika . Einhvern veginn virkar þetta ekki sannfærandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Sumir gera allt í leyni.
Uppblásin smámunasemi getur orðið bestu málum að falli. Menn telja að skoðanir þeirra séu mikilvægari en þarfir samfélagsins í kringum sig . Ímynduð gægjuþörf náungans virðist hafa sett stein í götu stjórnlagaþings, ekki hefur verið gengið á hlut eins eða neins og enginn einstaklingur hefur gefið sig fram og talið sig haft skaða af. Eftir situr þjóð sem kallað hafði eftir aðkomu að sínum málum á öðrum vettvangi . Taldi tímabært að breyta stjórnarskránni, og að rödd almennings mætti þar hljóma. En nei og nei , sumir vilja gera allt í leyni og því verður engu breytt.
Nú skal maður ekki gera lítið úr áliti Hæstaréttar, og rétt er að öll þau atriði sem talin eru upp eiga þar fullan rétt á sér. En um leið og maður sér úrskurðinn fer maður óneitanlega umleið að velta fyrir hugsanagangi þeirra sem kærðu. Eða tilganginum með kærunni. Óneitanlega svolítið Heimdellingalegur bragur á þessu öllu saman.
En það þýðir ekki að deila við dómarann, og þá er bara að halda áfram. Boða til nýrra kosninga. Sem nú gætu fjallað um fleiri mál sem undanfarið hafa brunnið á og ýtt undir óstöðugleikann í þjóðfélaginu. Þar mætti spyrja um kvótann, um aðildarviðræður við ESB , og svo margt annað sem máli skiptir nú.
Maður á að líta á áföllin sem tækifæri, læra af þeim og nýta þá stöðu sem upp kemur. Þannig verður lífið svo miklu skemmtilegra. Gæta þess magna ekki upp smáatriði sem engu máli skipta og gerir lífið bara erfiðara.
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
"NO INPUT DETECTED"
Skjávarpar hafa á síðari árum orðið mikilvægir miðlar þegar að ýmsum fundum og ráðstefnum kemur. Þar hafa menn fengið áður óþekkt tækifæri til þess að styðja mál sitt töflum og upplýsingum, máli sínu til stuðnings. Mönnum hefur gengið misjafnlega að tileinka sér þá tækni sem þannig er í boði, hlutirnir vilja verða áróðurkenndir en gefa mönnum um leið tækifæri á að leiða umræðuna inn á stundum furðulegar brautir.
Ég lenti á svona skjávarpafundi í gær hér í Reykjanesbæ, þar sem forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins útskýrðu sinn málstað í komandi kjarasamningum , og sérstaklega þá skoðun sína að ekki væri hægt að ganga til samninga, nema mál sjávarútvegsins yrðu leyst fyrst ,um leið og þeir undirstrikuðu hve mikilvægt það væri fyrir iðnaðinn í landinu að tekinn væri önnur mynt.
Ég hafði áður farið á slíkan fund og þá var það í Garðinum, og vissi svo sem við hverju væri að búast. Á slíkum fundum leyfist mönnum að segja ýmislegt, sem fáum dytti í hug að segja við sjálfa sig í hinum myrku og reykfylltu bakherbergjum sem vonandi fer nú óðum fækkandi. Og ekki brugðust þeir í þetta sinn, fannst til að mynda rétt að viðra þá hugmynd sína að aðilar vinnumarkaðarins ættu að ráða og reka ríkistjórnir. Og beindu orðum sínum til þingmanna Samfylkingar sem í salnum voru um hlutast til að áður en frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið yrði lagt fram fengi SA það til endurskrifunnar. Slíkt geta menn einungis sagt í góðra vina hóp.
En það sem þó dró mig á fund þennan voru áður auglýstar framsögur forystumanna HS Orku og Norðuráls. Taldi að tíðinda væri að vænta þar sem báðir aðilar þess orkusölusamnings sem nauðsynlegur er hugsanlegu álveri tækju til máls á sama fundinum. Strax varð ljóst að enn er ekki komið að því að samningum hafi verið náð, en þeir voru þó sammála um eitt. Allt var þetta ríkistjórninni að kenna, aðallega Vinstri grænum, og svo nokkrum úr röðum Samfylkingar. Og undirstrikuðu svo orð sín með flottum fyrirsögnum á skjávarpa.
Þeir röktu málið allt fram til þess tíma er Norðurál og Hitaveita Suðurnesja sáluga skrifuðu undir viljayfirlýsingu um sölu raforku til álversins. Og hvernig sala á 15% hlut ríkisins það sem á eftir hefur komið hafi hindrað að enn hafi ekki verið skrifað undir orkusölusamning þeirra á milli. Minntust lítið eða ekkert á að fyrra bragði að mál þessara tveggja aðila væru fyrir gerðardómi í Svíþjóð.
Nokkurra vikna gömul hugmynd undirskriftahóps um mögulega þjóðnýtingu, og kröfur Orkustofnunar um hvernig vinnslu skyldi háttað á Reykjanesi væru nú aðalástæður þess að ekki hafi hafi nú verið skrifað undir samninginn. Ekki ágreiningur um verð eða hvort möguleiki væri á að afhenda þá orku sem slík framkvæmd krefðist. Og töldu sig þannig hafa sýnt fram á að allt væri þetta ríkistjórninni að kenna. Umkenningarleiknum er áfram haldið í von um að fundarmenn hefi ekki heyrt frétti r undanfarið ár.
Vissi ekki alveg til hvers var ætlast af ríkistjórninni núna. Á hún að breyta niðurstöðu orkustofnunar? Er það hennar að bera til baka skoðanir undirskriftahópsins um að ekki komi til greina þjóðnýting á Magma. Bæði forsætisráðherra, iðnaðarráðherra , og fjármálaráðherra hafa látið eftir sér hafa látið hafa eftir sér að reynt yrði að ná samkomulagi um hvernig þessu málum skuli háttað til framtíðar. Þar á bæ er ljóst að reyna á samningarleiðina fyrst , og til þrautar áður en til slíks óyndisúrræðis þyrfti að koma.
Vilji menn vera í umkenningarleik verða menn þó að gæta sanngirni. Til þess að álver í Helguvík verði að veruleika þarf nú að minnsta kosti þrennt til. Virkjanaleyfi , orkuverð , og vissa um eignarhald. Ekkert af þessu nema eitt var á hreinu þegar af stað var farið. Eignarhaldið, og varla er það sök núverandi ríkistjórnar hvernig komið er þar. Það eru lítt boðleg rök nú þegar virðist vera að fjara undan verkefninu sökum þess að hagsmunir HS Orku og Norðuráls fara ekki saman, sökum þess kostnaðar sem fara þar í við öflun orkunnar, að allt sé þetta nú öðrum að kenna. Það höfum við heyrt of lengi, og sama hvað gert hefur verið. Lokatexti skjávarpans á fundinum í gærkvöldi var „ NO INPUT DETECTED", og ég held að flestir þeir sem þar voru geti verið sammála því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. janúar 2011
Allt hangir þetta saman.
Á undanförnum árum hafa verið harðar deilur um hvernig framtíðarnýtingu á orkulindum þjóðarinnar skuli vera háttað. Hvort opinberir aðilar skuli vera eigendur auðlindarinnar, og hvernig arðgreiðslum af henni skuli vera háttað. Flestir virðast nú vera orðnir sammála um að þau skref sem tekin voru á tímum einkvæðingarinnar hafi verið röng. Og jafnframt er ljóst að þau hafa ekki skilað þeim árangri sem vera átti fylgifiskur einkavæðingarinnar. Orkuverð hefur ekki lækkað, heldur þvert á móti.
Þeir sem hæst láta og reyna enn að réttlæta aðkomu einkaðaila að rekstri orkufyrirtækjanna tala um svonefnda áhættufjárfestingu. Að mikil áhætta sé því samfara að ráðast í byggingu orkuvera. Maður veltir því þá fyrir sér hvernig málum hefur verið háttað hingað til. Hafa verið byggðar einhverjar þær virkjanir eða orkuver undanfarna áratugi þar sem sú orka sem sköpuð hefur verið hefur ekki verið seld fyrirfram? Enginn sem mér kemur í hug.
Áhættan sem vitnað er til virðist að mestu bundin í þeim samningum sem á undan hafa farið . Binding raforkuverðs við til að mynda hugsanlegt heimsverð á áli. Þar sem hinni raunverulegu áhættu hefur verið velt yfir á seljanda orkunnar, með von um álverð fari stöðugt hækkandi . Arðsemi fjárfestingar seljandans , hefur verið háð árangri kaupandans og ýmsum ytri aðstæðum . Slíkir samningar heyra nú sem betur fer sögunni til. Segja má að það hluti þess árangurs sem gagnrýnin hugsun á framtíðarfyrirkomulagið hefur náð.
Mikið hefur verið gert út á í umræðunni af hálfu ýmissa hagsmunaaðila að umræða um hugsanlegar lausnir hvað varðar yfirráð opinberra aðila yfir auðlindinni kæmi veg og stöðvaði frekari erlendar fjárfestingar. Að markaðurinn myndi ekki sætta sig við þau sjónarmið sem uppi væru , sem flest önnur ríki í kringum okkur teldu eðlilegan hlut. Á sama tíma er þó ljóst að aðgangur að orku verður stöðugt verðmætari auðlind. Ljóst er að sú umræða sem nú á sér stað fjallar um nýtingu fyrirtækja á því sem við viljum kalla auðlindir þjóðarinnar, en ekki þau fyrirtæki sem almennan iðnað stunda og nýta þá orku sem til fellur.
Ef marka má þær fréttir sem þessa dagana berast af áhuga erlendra aðila á nýtingu íslenskrar orku virðist því ekki nein bráðaþörf á því að örvænta. Landsvirkjun virðist vel á veg komin með að safna hugsanlegum hóp fyrirtækja til nýtingar orku á Norðausturlandi, um leið og séð er að áhugi er fyrir nýtingu á þeirri orku sem til gæti fallið á Suðvesturhorni landsins.
Enn annar árangur sem umræðan hefur haft er sú staðreynd að menn átta sig stöðugt betur á mikilvægi þess að dreifa eggjunum í fleiri körfur. Og að mikilvægt sé að laða að fjölbreyttari fyrirtæki, sem skilji eftir fleiri störf og hærra raforkuverð. Gott dæmi um það er til að mynda hugsanleg Kísilverksmiðja í Reykjanesbæ. Þar gætu leynst þær fréttir sem við höfum svo mikla þörf fyrir nú . Vonum að það verði fyrr heldur en seinna.
Allt hangir þetta saman
Miðvikudagur, 19. janúar 2011
Áttu, seldu, keyptu til baka, og vilja nú selja.
Maður fær einhvern veginn óþægilega á tilfinninguna að einhver panik sé í gangi í bæjarstjórninni í Reykjanesbæ þessa dagana. Að nú sé allt að verða eins og áður. Tími bráðalausna og viðskiptafléttna í anda 2007 sé runnin upp á ný. Fátt virðist lengur til varnar.
Tillaga framsóknarmannsisns Kristins Jakobssonar um sölu þeirrar jarðhitaauðlindar sem Reykjanesbær átti áður, seldi og keypti síðan til baka af HS Orku er gott dæmi um það. Og óhætt að segja að viðbrögð meirhlutans sem átti, seldi, og keypti siðan á ný komi manni nokkuð á óvart. Virkar svolítið eins ferðamaður með áttavita án segulnálar og vita vart hvort þeir eru að koma eða fara.
Sami meirihluti og á sínum tíma var varaður afleiðingum gjörða sinna við með undirskriftum rúmlega helmings kjósenda á Suðurnesjum, skákar nú í því skjólinu að ekki verði hjá því komist að hlusta á undirskriftir tæplega 50.000 íslendinga um að auðlindin skuli vera í eigu þjóðarinnar. Og vilja því fara í enn eina vegferðina með þá eigu sem þeir áttu, seldu, keyptu til baka, og vilja nú selja á nýjan leik. ‚i þetta sinn með hagsmuni þjóðarinnar í huga að því er þeir segja. Þetta eru sömu menn og létu sig lítið varða hverjir voru hagsmunir kjósenda sinna á sínum tíma.
Hugmynd Kristins er hugmynd sem fæðist í þröngri stöðu. Skuldir bæjarins yfirgengilegar og nauðsynlegt að leita lausna á þeim fjárhagsvanda er við blasir. Þar þýðir lítið annað en að horfast í augu við raunveruleikann og semja um þau lán sem umsemjanleg eru jafnframt sem greiða þarf niður þær skuldir sem fyrir hendi eru eins hratt og mögulegt er til þess að ná tökum á stöðunni á nýjan leik. Úr þeirri stöðu þurfum við að vinna sameinuð, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og leita allrar þeirrar hjálpar sem í boði er.
Kannski er réttara að tala þarna um skuldajöfnun í stað sölu, vitandi að Reykjanesbær skuldar enn ríkissjóði fjármagnstekjuskattinn af sölunni á HS Orku. Og kannski er þarna tækifæri fyrir ríkissjóð að slá tvær flugur í einu höggi með tilliti til framtíðar. Ná inn skuld bæjarins við ríkið um leið og þeir fá yfirráð yfir auðlindinni og þeim samningum sem gerðir hafa verið. Ætti að auðvelda málið í frekara samningaferli .
Mánudagur, 20. desember 2010
framundan er fimbulkuldi.
Sú fjárhagsáætlun sem foystumenn meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur nú lagt fram fyrir árið 2011 er þungur áfellisdómur yfir þeirra eigin störfum og stefnu. Þar er boðaður mikill niðurskurður , auk þess sem ekki er tekið tillit til fjölda óvissuþátta sem fyririsjáanlegir eru.
Fjárhagsáætlun þessi er í hróplegu ósamræmi við þær skýringar og loforð sem forystumenn sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hafa gefið undanfarin ár. Og staðfestir í raun það sem áður hefur verið sagt. Hér stendur ekki steinn yfir steini, og fjárhagsstaða Reykjanesbæjar með þeim hætti að ekki verður lengur við unað.
Meginstef fjárhagsáætlunarinnar er sparnaður, sem á næsta ári mun koma fram í nær allri þjónustu bæjarins. Þannig er ljóst að nú í fyrsta sinn veður lögbundin þjónusta undir viðmiðunarmökum , og sú lögbundna fjárhagsaðstoð til þeirra er illa standa mun verða með því lægsta á landinu öllu. Segja má að ekki sé mikill sómi falin í því.
Framlög til menningarmála og íþóttastarfs verða skert stórlega, og það þrátt fyrir að á undanförnum árum hafi verið lagt til hliðar 1 milljarður króna í Manngildissjóð sem ætlað var til að sinna þeim málum. Þeim sjóð var eytt í hítina. Til greiðslu annarra skulda en til var ætlað. Og án þess að slíkt hafi nokkru sinni verið sjáanlega samþykkt í bæjarrráði eins og reglur sjóðsins mæltu þó fyrir um.
Afleiðingar fjármálastjórnar forystumanna meirihluta sjálfstæðismanna undanfarin ár eru nú að koma í ljós. Framundan er fimbulkuldi. Sem skellur á íbúum Reykjanesbæjar af fullum þunga á næsta ári. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Skuldir bæjarsjóðs hafa fimmfaldast frá árinu 2002, úr 5 milljörðum króna í 29 milljarða króna á árinu 2010 . Án þess að séð verði að eitthvað það standi eftir ,sem sannanlega bæti hag bæjarbúa.Eftir standa skuldir sem nema um það bil 400% af tekjum bæjarins. Á bak við leiktjöldin stendur bær í rústum.
Skuldir hafnarinnar sem árið 2002 voru 1,2 milljarðar eru nú tæplega 6 milljarðar króna. Án þess að fyrirséð sé að höfnin komi til með að standa undir þeirri skuld að óbreyttu og til framtíðar litið.. Lánadrottnar hafnarinnar standa í röðum til þess að fá úrlausn sinna mála, og óvíst um afdrif þeirra mála.
Öllum er okkur ljóst að óskabarn forystumanna meirihlutans Fasteign er komin að fótum fram og bærinn hefur ekki lengur efni á að greiða þá leigu sem krafist er, um leið og Fasteign hefur ekki tök á að bjóða lægri leigu sem bærinn stendur undir í ljósi fjárhagstöðu sinnar . Leitað er að lausnum en ljóst að þar verður erfitt um vik sökum sameiginlegrar ábyrgðar eigendanna á skuldum fyrirtækisins. Þar vega skuldir vegna bygginga Háskólans í Reykjavík þungt, og jafnvel möguleiki á að þær gætu lent á íbúum Reykjanesbæjar í takt við eignarhluta bæjarins í Fasteign. Það er undir vilja lánadrottnanna komið.
Fasteignir Reykjanesbæjar eiga við rekstrarvanda að etja, um leið og Vikingaheimar og Kalka eru komin í greiðslufall. Ljóst er sá rekstur stendur ekki undir þeim skuldum sem til hefur verið stofnað, og bæjarsjóður mun ekki geta hjálpað til.
Öllum og sérstaklega meirihlutanum ætti að vera orðið ljóst að ekki verður hægt að hagræða eða skera meira niður en nú er gert ráð fyrir. Eftir standa gríðarlegar skuldir sem ljóst er af fjárhagsáætluninni að bærinn ræður ekki við. Það er ljóst að þær óraunhæfu hugmyndir forustumanna meirihlutans um 100 milljón króna hagnað af rekstri bæjarsjóðs standa hvorki undir greiðslu skuldanna eins og þær liggja nú fyrir, né því óvænta og ófyrirséða. Hvað ætla forystumenn meirihluta sjálfstæðismanna að gera við því ? Það kemur ekki fram í fjárhagsáætluninni.
Mánudagur, 13. desember 2010
Og sjá við boðum yður mikinn fögnuð. Hagnaður bæjarsjóðs 100 milljónir á næsta ári
Rekstur sveitarfélaga er flókið mál og mörg eru lögin og reglugerðirnar sem að þeim snúa er ákvarðanir taka. Þannig er það einnig með fjárhagsáætlun bæjarins. „Afgreiðsla sveitarstjórnar á fjárhagsáætlun þýðir að með henni er tekin formleg ákvörðun um ráðstöfun fjárheimilda á árinu". segir á heimasíðu Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.... þar segir einnig "ef auka skal útgjöld miðað við samþykkta fjárhagsáætlun þá skal liggja ljóst fyrir fyrir hvernig þau verða fjármögnuð".
Það er þannig augljóst að ábyrgð sveitarstjórnarmanna er mikil þegar kemur að framlagningu fjárhagsáætlana. Þar er ekki um óútfylltan getraunaseðil að ræða þar sem leikmannaval og ástand leikvallar getur ráðið úrslitum. Fjárhagsáætlunin verður að taka mið að þeim raunveruleika sem við blasir.
Fjárhagsáætlun meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er nú komin fram. Og sjá þeir boða oss mikinn fögnuð ...hagnaður bæjarins á næsta ári er áætlaður rúmlega 100 milljónir króna. Einkenni fjárhagsáætlana meirihluta sjálfstæðismanna undanfarin ár hefur aðeins verið eitt. Þær hafa aldrei staðist. Og lítil ástæða til þess að álykta að sú sem nú er komin fram standist eitthvað frekar. Til þess eru of mörg mál ófrágengin og óljós. Í henni er ekki gert ráð fyrir hvorki því óvænta , né fyrirséða.
Skuldir hafnarinnar eru á borði lánadrottnanna, óljóst er um niðurstöðu í málefnum Fasteignar , ekkert hefur heyrst frá þýska bankanum sem á gjaldfallna skuld upp á rúma tvo milljarða, Fasteignir Reykjanesbæjar eiga við rekstarvanda að glíma,Kalka og þannig mætti lengi áfram telja. Með allt þetta vofandi yfir sér velja „Vitringar" meirihlutans að bjóða bæjarbúum upp á enn eina flugferðina fullir bjartsýniskasts um að menn gleymi raunveruleikanum um stund. Og afgreiði fjárhagsáætlun þeirra í sönnum jólaanda. Án umræðu . Stemmningunni má ekki raska.
Ljóst má vera að sú fjárhagsáætlun sem „Vitringarnir" hafa nú lagt fram gerir ráð fyrir gríðarlegum niðurskurði á nánast allri þjónustu bæjarins sem ekki er lögboðin. Sá niðurskurður er jólagjöf meirihluta sjálfstæðismanna til bæjarbúa í ár. Ábyrgðin er þeirra. Sú staða sem nú er uppi er tilkomin sökum þess að ekki hefur mátt hlusta á varnaraðarrorð minnihlutans undanfarin ár. Minnihluta sem stöðugt hefur sagt að hér væri of bratt farið.
Því miður og þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð á sú fjárhagsáætlun sem nú hefur verið lögð fram lítið skylt við þann raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir. Hún er eingöngu tilraun meirihlutans til þess að komast hjá því tímabundið að leita eftir þeirri hjálp sem nauðsynleg er. Við skulum vona að þeir átti sig fyrr heldur en síðar. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, við getum ekki tekið einn túr til. Til þess er heilsan orðin of slæm.
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Þeir sem nú eiga minna skulu nú borga meira !!
Ég veit ekki alveg hvort rétt sé að hlæja eða gráta þegar maður lítur á bókun meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hvað varðar hækkun fasteignaskatta fyrir næsta ár. Lesi ég hana rétt þá er rökstuðningurinn sá að þar sem fasteignamat hafi lækkað, og þar með eign manna minnkað sé rétt að krefjast hærri fasteignaskatta. Þeir sem nú eiga minna skulu því borga meira. En það er eins og maður segir það er svo margt sem erfitt er að skilja þegar kemur að fjármálastjórn meirihlutans í bænum . Manngildissjóðurinn er til að mynda eitt dæmið.
Við sölu eigna Reykjanesbæjar til Fasteignar árið 2003 var ákveðið að stofna sjóð er veita skyldi styrki og viðurkenningar til verkefna er í þágu mannræktar og aukins manngildis í Reykjanesbæ. Stofnframlag Reykjanesbæjar voru 500 milljónir króna. Það framlag var svo hækkað snemma árs 2008 í 1.milljarð króna. Allt er þetta bókað í fundargerðurm bæjarins. Til á að vera sjóður á vegum Reykjanesbæjar með 1000. milljón króna höfuðstól .
Út frá því taldi ég að ég mætti ganga þegar ég í fyrradag lagði til að nýta mætti þann sjóð til að brúa sárasta bilið í niðurskurðinum í æskulýðs og félagsmálum í bænum. En klikkaði náttúrulega á því að hrósa meirihlutanum fyrir þá framsýni sem með stofnun sjóðsins hafði verið sýnd. Það líkaði ekki öllum, og kjölfarið fékk ég hringingar frá nokkrum aðilum sem sögðu að nú hafði ég aldeilis hlaupið á mig. Sjóðurinn væri nú tómur, hafði verið eytt til greiðslu skulda bæjarsjóðs.
Það gat ég ekki séð í bókum bæjarins, en reyndi að fá staðfestingu fjármálastjóra bæjarins á hvað væri rétt og hvað væri rangt í þessu máli. Náði ekki í hana, hún var á fundi. Við svo búið dró ég úr hrifningu minn með grein í Víkurféttum, og taldi að þar með væri þessu máli lokið.
En auðvitað fékk ég svar frá bæjarstjóranum , sem aðallega gekk út á að svara einhverjum „ef" fullyrðingum sem hann setti fram. Helst mátti þó lesa út úr svarinu að það sem við höfðum haldið í takt við fyrri umfjöllun um sjóðinn að þarna væri að sjálfstæðan sjóð með starfsmann og undir forræði bæjarráðs skv reglunum um hann, þá væri hann eingöngu hluti bæjarsjóðs, og hægt væri að nýta hann að eigin vild. Þrátt fyrir þær reglur og skilyrði sem stofnskjal sjóðsins segði til um. Þetta væri eiginlega allt í plati.
Burtséð frá því hvort sjóðurinn sé eiginlega bara til í plati, hefur þó enn ekki komið fram hjá honum hvort peningur sé til í sjóðnum, sem unnt sé að nýta. En það kemur fram að á næsta ári verði útlutað í nafni sjóðsins úr bæjarsjóði helmingi lægri fjárhæð en hingað til hefur verið. Er nokkur furða að maður átti sig ekki á hvort réttara sé að hlæja eða gráta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
Sumum verður allt að gulli
Hjá sumum verður allt að gulli. Bara spurning um hvar það lendir. Þessa dagana horfum við upp á hrun áður þokkalega stöndugs bæjarfélags þar sem hugmyndafræði meirihluta sjálfstæðismanna hefur tekist á undraskömmum tíma að rústa því sem rústað verður. Hjálparlaust
Reykjanesbær sem áður var þokkalega stöndugur bær leitar nú ásjár lánadrottna sinna til þess að freista þess að ná tökum á skuldavanda sínum. Skuldavanda sem ef skynsamlega hefði verið staðið að málum ætti ekki að vera fyrir hendi. Án þess að nokkur þörf hafi verið á, hefur bærinn selt flest það sem hann áður átti. Það var gert í nafni hugmyndafræði græðginnar og vilja meirihluta sjálfstæðismanna til að reisa sér ævarandi minnisvarða. Íbúar Reykjanesbæjar þurfa nú að þola háð og spott hvarvetna er þeir koma, sökum gjörða meirihlutans. Eftir stendur minnisvarði háðungar.
Það er sárara en tárum taki að fylgjast nú með afdrifum þeirra eigna sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur látið frá sér. Á bæjarstjórnarfundi í gær kom fram hjá bæjarstjóra að fram væru komnar hugmyndir um að sveitarfélögin leystu til sín þær eignir sem á sínum tíma voru settar inn í Fasteign. Þær hugmyndir byggðu á áliti ráðgjafa Capacent. Sama fyrirtækis og forystumenn sjálfstæðisflokksins fullyrtu í kosningabaráttu sinni að hefðu staðfest ágæti veru Reykjanesbæjar í Fasteign? Ljóst er að sú afstaða sem tekin verður til niðurstöðu þessa máls mun hafa mikil áhrif á rekstrarstöðu bæjarins til langrar framtíðar. Og kannski vissara í ljósi reynslunnar að þar komi fleiri að málum en forystumenn sjálfstæðisflokksins einir. Það á reynslan að hafa kennt okkur.
Enn sárara er að horfa upp á afdrif Hitaveitu Suðurnesja. Mjólkurkúin hefur sannanlega verið seld í burtu og mjólkar nú sem aldrei fyrr nýja eigendur sína í Kanada. Á tveimur árum hefur HS Orka sýnt hagnað upp á tæplega 4.milljarða. Og það án þess að rekstur þess félags hafi nokkuð breyst eða að hafnar hafi verið neinar nyjar fjárfestingar sem nú skila þessum arði. Þessi afkoma var fyrirsjáanleg þegar til einkavinavæðingarinnar var stofnað. Og kannski einmitt þess vegna var einkavætt?
En við íbúar Reykjanesbæjar fengum þó að halda eftir mjaltakerfinu sem á sama tíma og HS Orka hefur skilað tæplega 4. milljarða hagnaði hafa HS Veitur skilað bæjarbúum hagnaði upp á rétt rúmar 250 milljónir. Já sumum verður allt að gulli.
Maður veit ekki alveg hvort unnt sé að segja að spennandi tímar séu framundan, þegar litið er til þeirra frétta að vænta megi niðurstöðu lánadrottna hafnarinnar. Sú skuld er nú vel á 6.milljarð króna og ljóst að bæjarsjóður mun ekki hafa efni á að standa við þær skuldbindingar sem stofnað hefur verið til. Að óbreyttu. Þannig mun ákvörðun lánadrottnanna hafa mikil áhrif á hvernig fjárhagsáætlun meirihlutans mun líta út fyrir næstu ár. Þar verðum við að biðja og vona.
Minnihlutar bæði Framsóknarflokks og Samfylkingar hafa í áranna rás gagnrýnt þau atriði sem að framan eru talin. En jafnan fengið þau hrokafullu svör meirihlutans að um vitleysu væri að ræða og menn skildu ekki málið rétt. Neikvæðni minnihlutans fremur en gagnrýn sýn og hugsun réði þar ferðinni. Formaður bæjarráðs vill ennþá meina að minnihlutinn fyrr og nú viti ekkert um hvað verið er að tala, ef marka má furðulega ræðu hans á síðasta bæjarstjórnarfundi. Staðan nú talar sínu máli.
Tímarnir eru breyttir og tímabært að nýír siðir verði teknir upp í hinni stjórnmálegu umræðu í bænum okkar . Siðir þar sem bæði minni og meirihluta auðnast í sameiningu að takast á við þau vandamál er við blasa. Til þess þarf algera hugarfarsbreytingu aðalleikara meirihlutans sem þessa dagana setja eitt og eitt mál á dagskrá, og hyggjast st reyna að leysa stórkostlegan vanda stjórnarsetu sinnar með bútasaum. Hér þarf að opna hverja skúffu og fá öll vandaræðamálin upp á borðið. Og leysa þau sameiginlega. Eingöngu þannig gæti margt það sem nú líkist skarni orðið að gulli. Er ekki margt sem segir okkur að til þess sé vinnandi.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
Föstudagur, 8. október 2010
"Grasið er grænna hjá Guðmundi".
"Grasið er grænna hjá Guðmundi", sagði vinur minn við mig í sumar þegar hann hallaði sér upp að girðingunni og ég sá vonleysið færast yfir andlit hans. Ég benti honum á að hann gæti auðveldlega bætt úr því með sinna eigin blett betur með því að gefa því næringu og vökva það. Það gerði hann og grasið hjá honum hefur sjaldan verið fallegra. Hélt því að málinu væri lokið. Og það hélt vinur minn líka.
Vinur minn hringdi í mig í gær og sagði að nú væri allt að verða vitlaust. Guðmundur sem er rækturnarmaður af ástríðu og nýtir hátækni og dýrustu efni til að ná grasinu sem grænustu hafði haft samband við sig. Guðmundur hafði séð hver árangur vinar míns hafði verið, og tekið eftir að hægt var að rækta grænt gras án notkunar dýrustu efna eða hátækni. Hann bauð vini mínum að koma og búa í hundakofanum hjá sér , og sjá um ræktun flatarinnar. Og gera kálgarð úr garði vinar míns. Ef hann tæki ekki boðinu skyldi hann í krafti kunningjatengsla og fjármagns sjá til þess að vinur minn skyldi flæmdur í burtu.
Landsbyggðin logar, sökum hugmynda heilbrigðisráðuneytisins um hvernig unnt sé að ná sparnaði í heilbrigðismálum landsmanna. Og nú skal lögð niður sú þjónusta sem heilbrigiðstarfsmenn á landsbyggðinni hafa sannanlega byggt upp á hagkvæman og kotnaðarminnstan hátt. Og skal flutt inn á stofnanir sem sannanlega veita sömu þjónustu fyrir miklu meiri pening. Sparnaðurinn er enginn. Og skynsemina vantar.
Í þeim sparnaðaraðgerðum sem á undan hafa gengið er ljóst að landsbyggðarsjúkrahúsin hafa farið í fararbroddi, og náð fram þeim sparnaði sem til var ætlast. Jafnvel þó skorið væri inn að holdi. Í gegn hefur hinsvegar skinið að áherslur ráðuneytisins hafa legið í að styrkja stöðu Landspitala háskólasjúkrahúss, sem stærsta einstaka vinnustaðarins í Reykjavík. Tillögur þeirra nú ganga enn lengra en áður. Nú skal landið lagt í eyði , til að uppfylla óskir og kröfur stjórnenda Landspítalans um að allir þeir sem veikir séu skuli lagðir inn á hátæknisjúkrhús með tilheyrandi kostnaði. Öðru vísi er ekki hægt að skilja tillögur heilbrigðisráðuneytisins nú.
Það nú undir þingmönnum komið að taka afstöðu til tillagna heilbrigisráðuneytisins. Og það er hlutverk íbúa landsbyggðarinnar að koma þingmönnum sínum í skilning um að ávinningur af tillögum heilbrigiðráðuneytisins er enginn, sé tekið tillit til hagsmuna íbúa landsbyggðarinnar. Líf þeirra er lagt undir.
Grasið var grænna hjá Guðmundi fyrri hluta sumars, og hann gæti með breyttum áherslum í ræktun sinni náð að gera það fallegt aftur. Grasið hans verður ekki grænna þó hann flytji grasrót annarra í garðinn sinn. Hann verður að athuga hvort hann hafi ekki veikt hjá sér grasvörðinn með notkun vitlausra efna. Að vandamál hans felist í eigin gjörðum en ekki nágranna sinna sem ræktað hafa garðinn sinn af alúð. Kannski að svarið liggi í því að tala við nágranna sína í stað þess að ásælast vel ræktaðan garðinn þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)