Þar sem Forrest fer, fara myndavélarnar líka.

 

Forrest Gump var einn af þessum mönnum sem fyrir tilviljun lenti oft í hringiðu atburðarrásarinnar, og vann vel úr sínu með það vit sem honum var gefið. Betur en margur maðurinn sem vill telja sig betur gefinn. Hann færði gleði og hlýju inn í líf þeirra sem hann kynntist. Og var ávallt ærlegur í sínum málflutningi.

 

Forrestinn okkar íslendinga, sá sem alltaf virðist hafa lag á vera þar staddur sem atburðirnir gerast, virðist hafa góðan vilja, en er ekki alveg ærlegur í alla staði. Hann flytur okkur falsvonir í flestum tilfellum sem engin innistæða hefur hingað til verið fyrir, en hann meinar vel , vonandi.

 

Fyrst fór hann hamförum á skjánum þegar hann boðaði fagnaðarerindið um niðurfærslu lána hjá öllum einn, tveir og þrír, á meðan ekki einu sinni var búið að ganga frá uppgjöri þeirra banka sem niðurkrifa áttu skuldirnar. Vakti vonir sem því miður var ekki innistæða fyrir.

Næst fór hann í gang með að sannfæra þjóðina að hægt væri að ná betri samningum í Icesave málinu, ef farið væri að hans tillögum, og vildi ekki taka þátt í að skapa sátt um tillögur sem raunhæfar voru.

 

Og nú síðast datt hann inn í miðja atburðarrás þegar hann taldi rétt að benda mönnum á enn eina fullhannaða lausn sína er fólst í að Norðmenn myndu lána íslendingum þá peninga er vantaði. Sagðist vera nánast búinn að ganga frá málinu í Noregi og Jóhanna þyfti bara að hringja. Hvernig hann ætlaði svo að kynna málið fyrir þjóðinni veit enginn, en þar sem Forrestinn fer, fara myndavélarnar líka og því komst málið í hámæli.

 

Auðvitað var það svo eins og í öllum hinum málunum að ekkert var á bak við nema digurbarkarlegar yfirlýsingar. Hann eða umboðsmaður hans hafði spjallað við einhvern þingmann sem engar heimildir eða völd hafði til að gera slíka samninga, en sagt einhverra hluta vegna að hannn myndi bara ganga frá málinu "ikke problemmet er to tusind milliarder godt nok", og Forrestinn náttúlega talið sig hafa leyst málið.

 

Forrest Gump labbaði mörgum sinnum á milli stranda á sínum forsendum, og flokkur fólks fylgdi honum í langan tíma, hélt að hann væri spámaður. Þegar hann  hætti að labba var það af því að hann nennti ekki að labba lengur. Dýpra var það nú ekki. Hann var ekki að vekja neinar vonir hjá fylgjendum sínum sem ekki var innistæða fyrir. Kannski Forrestinn okkar ætti að taka hann til fyrirmyndar?

 


Hvað varð um peningana sem Seðlabankinn lánaði Kaupþing og Landsbanka?

 

Það er ótrúlegt þetta gullfiskaminni sem maður hefur, og er fljótur að gleyma hvað það var sem gekk á í bankahruninu. Öll athyglin beinist að Icesave reikningnum sem við viljum ekki borga. Málið búið að taka svo margar beygjur á leiðinni að maður er hættur að átta sig á hvað það eiginlega snérist um. Minnir þó að einn hluti málsins sé að stór hluti þeirrar upphæðar sem okkur er ætlað að greiða, getur ef vel tekst til komið til baka, ef vel tekst til með sölu eigna  Landsbankans. Leiðrétti mig einhver ef það er rangt.

 

Eitt er það sem manni finnst svolítið vanta inn í umræðuna, og það er hvað varð um þá peninga sem í miðju hruni var lánað til bæði Landsbanka og Kaupþings í von um að þeir yrðu til þess að bankarnir héldu velli. Þeir peningar sem Seðlabankinn lánaði til þáverandi einkavina sinna í von um að þeim tækist að bjarga bönkum sínum . Eru líkur á að þeir peningar endurheimtist, eða voru þeir hluti af fengnum sem fluttur var til Tortóla og Cayman eyja.

 

Sú upphæð er svipuð þeirri og íslenska þjóðin þarf nú  að borga vegna Icesave reikninganna. Spurning hvort ekki hefði verið betra að taka þá frá og nýta í greiðslu Icesave skuldarinnar sem fyrirsjáanleg var. að því er þáverandi seðlabankastjóri vill nú halda fram. Hann segist hafa varað við og vitað hver staðan var, og því væri fróðlegt að heyra skýringar hans núna á þessum lánum.

 

 


Og hvað svo?

 

Maður verður þrátt fyrir eigin skoðanir og álit á hvað rétt sé að gera í sambandi við Icesave málið að taka ofan fyrir Ögmundi, sem stendur á sinni skoðun og sannfæringu. Nú er bara að vona að eitthvað betra komi út úr þessu öllu.

Eitt sem út úr þessu gæti komið er að samningsaðilar okkar taki skilaboð Ögmundar alvarlega og semji út frá þeim fyrirvörum sem fyrir liggja, það kemur fljótt í ljós. Þá hefur Ögundur unnið mikið gagn með afsögn sinni, og gæti þesvegna komið á ný inn í stjórnina sem heilbrigðisráðherra því þar er þörf fyrir mann eins og hann.

Hitt sem einnig gæti komið út úr stöðunni er að þeir gefi sig hvergi , og þá er ljóst að dagar þessarar stjónar verða taldir. Þá kemur það í hlut þeirrra sem öllu þessu ollu að semja upp á nýtt, eða sleppa því að semja með tilheyrandi erfiðleikum fyrir þjóðina. Því verðum við einnig að vera tilbúinn til að taka. En við verðum í það minnsta að reyna að halda áfram hver sem niðurstaðan verður.


Öðruvísi mér áður brá.

 

Öðruvísi mér áður brá, var fyrsta hugsun mín þegar ég las grein Kristjáns Þórs Júlíussonar í Morgunblaðinu og AMX.is í gær þar sem hann leggst af miklum þunga gegn stofnun svonefnds fjárfestingasjóðs, sem ætlað er að styðja við uppbygginu fyrirtækjanna í landinu í kjölfar þess hruns sem einkavinavæðingarstefna flokks hans olli. Hann kallar það áhættufjárfestingu. Og hefur ekki mikið traust til þeirra fyrirtækja sem á þurfa að halda. Sem eru nánast öll fyrirtæki í landinu ef marka má fréttaflutning í þessa dagana.

 

Það er ljóst öllum sem með hafa fylgst, að fyrirtækin í landinu eiga í vanda, og þann vanda verður á einhvern hátt að leysa eigi að vera möguleiki á að hér verði búandi áfram og það takist að viðhalda vinnu fyrir þá er hér búa. Og því miður er það þannig að sú byggðapólitík sem hér hefur verið stunduð undanfarin ár hefur leitt til þess að óþarflega stór hluti þjóðarinnar býr nú á suðvesturhorni landsins, þar sem vandamálin eru mest.

 

Þangað hefur fólk flutt suður sökum lélegs atvinnuástands í mörgum áður stórum sjávarbyggðum landsins. Skyldi það eitthvað tengjast einkavinavæðingu kvótans, og þeirri staðreynd að arðurinn sem úr sjávarútvegnum hefur  komið hefur að miklu leyti verið nýttur í eitthvað allt annað en uppbyggingu samfélaganna á hverjum stað? Afleiðulán og hvað það nú allt saman heitir.

 

Kristjáni Þór hlýtur að vera jafnljóst og okkur hinum að möguleikar okkar eru ekki margir til að afla fjár til uppbyggingar atvinnulífsins. Það eru ekki lengur menn í röðum sem vilja lána okkur fé til uppbyggingar eða nýfjárfestinga.Það hefur verið séð til þess að traust manna á íslensku atvinnulífi er stórkostlega skaðað.  Nú verðum við að bjarga okkur sjálf, og getum það ef vilji er til.

 

Nú veit ég ekki hvort rétt sé hjá Kristjáni að lofað hafi verið 25% ávöxtun á ári, en tel eins og hann að ef svo sé þá séu menn heldur betur að sigla hér með himinskautum hvað varðar væntingar til fjárfestinga sinna, og tek reyndar undir að þá gætu hér verið um áhættufjárfestingu af verstu sort að ræða. Líklega  hefur hann nú sett þessa tölu þarna inn til að hafa eitthvað sem honum þótti sennilegt  að skrifa út frá , en fullkomlega  í anda þeirrar græðgi sem einkennir stefnu þess flokks er hann stendur fyrir. Tel að forsvarsmenn Lífeyrissjóðanna láti nú ekki plata sig þannig í ljósi reynslunnar og stöðunnar, og væntingar þeirra séu raunhæfari. Ætli menn sætti sig ekki við svipaða ávöxtun og þekkist í löndundum í kringum okkur? Nú ráði skyndigróðamiðin ekki lengur för.

 

Burtséð frá vöxtum og fjárfestingarvæntingum þá er það ljóst að þörf er á aðgerðum, og samstöðu um hvernig unnt verður að vinna sig út þeim vanda er við blasir. Lífeyrisjóðir án iðgjalda er nefnilega næsta mál á dagskrá verði ekkert að gert. Það er atvinna fólksins sem er í veði, og svo virðist sem betur fer, að margir lífeyrisjóðir séu tilbúnir til að taka þátt í þeim björgunaraðgerðum sem þarf til svo hægt sé að tryggja atvinnu fólks, sama hvar á landinu sem er, andstætt Kristjáni Þór Júlíussyni og þeim flokk er hann stendur fyrir. "Stétt með stétt" er nefnilega slagorð sem enn er í gildi innan lífeyrisjóða og verkalýðsfélaga, þótt einhverjir  virðist hafa  gleymt því um hvað sú hugsjón snérist.


Vindmylla verður risaraforkuver

 

Ég hef nú undanfarið reynt eins og mögulegt er að setja mig í spor þeirra félaganna Bjarna Ben, og Sigmundar Davíðs, sem tala fyrir því að ekki skuli lengra farið í málefnum Icesave. Nú skuli staðið fast á sínu og umheiminum gert ljóst að Ísland greiði ekki meira en kveður á í fyrirvörum alþingis, sem þó gera ráð fyrir að allt verði þetta greitt að lokum nema hér verði allt í kaldakolum til langframa. Vonum að svo verði þó ekki.

 

Ég hef reynt að setja mig inn í þá hugsun að örugglega hafi þeir eitthvað til síns máls. Að það sé gefið að ef gengið verði að samningaborði að nýju komi út úr því mun betri samningar um greiðslu skuldarinnar sem báðir eru sammála að sé fyrir hendi. Tvær tilraunir hafa verið gerðar til að ná samningum, sem báðar hafa gert ráð fyrir að peningurinn sem þegar hefur verið lánaður yrði greiddur til baka. Og sá seinni er betri en hinn fyrri hvað varðar bæði lánstíma og vexti.

 

Bjarna Benediktssyni þykir Jóhanna Sigurðardóttir vera að gefast  upp í hagsmunabaráttu sinni fyrir fyrir Ísland, og segir jafnframt að það megi ekki gerast. Vel vitandi að ekki eru aðrir  sem þá baráttu gætu háð betur. En velur þó að lita ekki sömu augum hverjir hagsmunirnir eru. Fyrir þetta er honum virðist  þetta einungiss pólitískur leikur án ábyrgðar.

 

Í mínum huga felast hagsmunir Íslands, bæði langtíma og skammtíma í því að halda áfram, og berjast ekki við hverja þá vindmyllu sem verða kann á veginum, og magna hana í hvert sinn upp í stórt raforkuver. Sá samningur sem fyrir liggur virðist fyrir flesta þá sem á horfa það besta í stöðunni. Og gerður út frá þeim forsendum að hér eigi hagur eftir að batna í komandi framtíð.En ekki gengið út frá að hann versni eins og félagarnir helst virðast óska sér.

 

Forsenda uppbyggingar á Ísalndi er að þessu máli verði lent, og það fyrr heldur en síðar. Annars blasir við vá sem enginn óskar sér að verði að veruleika. Nú hlýtur það að vera verkefni stjórnainnar sem eftir mikla yfirlegu yfir vandamálinu að vega hverjir eru hagsmunirnir, og leysa málið samkvæmt því. Þar skipta ekki skammtíma hagsmunir þeirra félaga nokkru einasta máli, heldur framtíðarhagsmunir þjóðarinnar. Nú skiptir máli að stjórnarflokkarnir taki af skarið og standi saman í máli sem sundrað hefur þjóðinni alltof lengi. Nú er tími samstöðu.


Hádegismóri herðir völdin.

 

Þeir vita vel hvernig lýðræðið virkar, og hvað skiptir máli þegar að því kemur að öðlast völdin sem gengið hafa í skóla harðlínukjarnans hjá Hádegismóra. Þá skiptir litlu hverjir það eru sem lagt hafa á sig vinnuna svo vel megi ganga. Og maður skilur vel ungu konuna sem lagt hafði á sig vinnu og fyrirhöfn til að kynna markmið sín og leiðir, að hún skuli döpur yfir niðurstöðunni í formannakjöri SUS. Það held ég að flestir eigi að vera hvar í flokki sem þeir annars standa.

 

Það er dapurt að sjá nú eftir hrun samfélagsins að enn séu til menn sem átta sig ekki á gildi lýðræðisins í landinu, og enn dapurra að sjá þau meðul sem þeir nota. Ungt fólk sem sem í krafti peninga kaupir sér völdin. Og leigja flugvélar til að ná sínum markmiðum fram. Hádegismóri sendir æskulýðsfylkingu sína til að sýna hver það er sem nú hefur völdin.

 

Það er ljóst að þrátt fyrir endurreisnarskýrslur og boðun á breyttu viðhorfi í þeim flokk er hér um ræðir hefur ekkert breyst, Aðferðirnar bara orðnar harðsvíraðri, og vantar bara að settir verði borðar á handleggi ungliðanna svo ljóst sé hverjum þeir tilheyra.

 

Það held ég að öllum sé full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því unga fólki þarna fer fram á þennan hátt, og að möguleiki skuli vera á þetta verði það unga fólk sem erfa skuli landið.


Nýr tónn?

 

Fyrir ekki svo löngu síðan birtist góð og gagnrýnin umræða um ESB á síðum Morgunblaðsins, þar sem kostir og gallar hugsanlegrar aðildar voru reifuð á sanngjarnan hátt.

Það vakti marga til umhugsunar um málið, og hverjum og einum var gert kleift að mynda sér skoðun byggða á þeim gögnum sem fyrir lágu og vitnað var til í greinum þeim er skrifaðar voru um málið. Ritstjóri sá sem svo vel að verki stóð var rekinn, og annar settur í staðinn á meðan fundnir voru nýir menn sem valdið gætu hlutverkinu.

 

Sá sem í millitíðinni stýrði blaðinu, sem sá hæfasti meðal hæfra ritar í dag litla grein í Mbl. og dregur þar athyglina að svonefndu Indectverkefni á vegum Evrópusambandsins. Verkefni  sem fyrir venjulegan mann lausan við fordóma og forræðishyggju virðist vera verkefni til að tryggja hagsmuni borgaranna í lýðræðislega stjórnuðum samfélögum. En blaðamaðurinn velur einhverra hluta að líkja þessu við eftirlitskerfis í anda Orvells, eða jafnvel flokks þeirra er nú stjórna blaðinu.

 

Öll getum við sennilega verið sammála um að heimurinn hefur ekki orðið öruggari með árunum, til eru komnir öfgahópar og glæpamenn allskonar sem ekki voru hér áður. Og það hljóti að vera eitt af viðfangsefnum þjóðfélagsins að finna leiðir til að geta brugðist við. Það þýðir ekki lengur að elta menn úr fjarlægð til að koma í veg fyrir ýmis þau óhæfuverk sem í heiminum hafa verið unnin undanfarin ár. Það að stjórnvöld ríkja Evrópusambandsins skuli nú vinna að kerfi til að hafa eftirlit með og uppræta slík öfl hefur í mínum huga lítið eða ekkert með framtíðarríki Orvells að gera.

 

Menn hafa undanfarna daga beint athyglinni að hugsanlegri breyttri ritstjórn Mbl og hvernig til að mynda málflutningurinn þar yrði í til að mynda málefnum ESB. Sá tónn hefur nú verið sleginn, og verður greinilega í  anda hræðsluáróðursins. Að ESB sé ríkjabandalag kúgaðra þjóða sem séu undir hæl illa spilltra valdhafa sem telji það skyldu sína að hafa eftirlit með hverjum þeim borgara sem hreyfi sig. Þar held ég að íbúar Evrópu eigi erfitt að samsama sig með upplifun Morgunblaðsins. En það væri náttúrulega freistandi að spyrja sjálfan sig hvernig blaðamanni Morgunblaðsins datt í hug þessi nálgun á málefninu nú þegar nýir ritstjórar hafa sest við stjórnvölinn.?


Tjáningarfrelsinu er ekki úthlutað eftir skoðunum?

 
morgundavi

Útgefandi Morgunblaðsins segir tjáningarfrelsinu ekki úthlutað eftir skoðunum, og það er rétt. Hér á landi hefur sem betur fer hver maður færi á að tjá skoðanir sínar, og jafnvel fá þær birtar hjá þeim dagblöðum sem gefin eru hér út. Hlutverk fjölmiðla er og á að vera, að miðla þeim skoðunum og fréttum sem helst eru uppi hverju sinni, óháð eigendum sínum, og sennilega er að þar sem skóinn kreppir. Og kemur í veg fyrir það að skoðanamyndun okkar byggist á því rétt er og satt.

 

Það höfum við fengið að reyna, til að mynda í aðdraganda hruns, þar sem blöðin öll sendu út fréttir, sem betur komu sér fyrir eigendur blaðanna, frekar en að þær hefðu eitthvað sannleiksgildi. Blöðunum var bæði grímu og mismunarlaust stýrt af eigendum sínum sem á þessum tíma voru að mestu sömu menn og réðu þeim bönkum er hér störfuðu. Nei, þá var ljóst að tjáningarfrelsinu var ekki úthlutað eftir skoðunum, heldur voru það peningaöflin sem útdeildu hver skoðun skyldi rétt vera. Og þeir sem mölduðu í móinn, voru ýmist úthrópaðir svartsýnismenn eða niðurrifsmenn.

 

Nú hefur útgefandi Morgunblaðsins tekið sína ákvörðun, nú skuli unnið grímulaust og blaðinu beitt í þágu  eiginhagsmunaseggja og flokksvélar þeirrar sem blaðinu ræður. Í stað þess að vera það frjálslynda og hlutlæga blað sem það var á leið til að verða. Á tímum þegar fátt er mikilvægara en  að skapa traust og samstöðu  meðal þjóðarinnar velur útgefandinn að setja í stól ritstjóra sjálfan höfund bankahrunsins, og segir hann ávallt hafa náð athygli þjóðarinnar.Og það muni nú koma Morgunblaðinu til góða.

 

Það virðist því miður vera ljóst að fátt hefur breyst hvað réttlætiskennd útgefandans varðar,  þrátt fyrir hrun og óáran þá er yfir þjóðina hefur gengið. Tjáningarfrelsinu á Morgunblaðinu hefur nú verið úthlutað til ritstjóra eftir skoðunum, ritstjóra sem hingað til hefur sýnt hvar sem hann hefur starfað að aðrar skoðanir en hans eru óæskilegar, ritstjóra sem telur sína skoðun þá einu réttu hverju sinni hvað sem líður tjáningarfrelsi eða ekki. Bubbi kóngur er mættur í öllu sínu veldi.

 


Þreföld áskrift.

 

Markaðurinn hefur sínar hliðar. Hliðar sem manni hafði reyndar ekki dottið í hug áður að gætu sýnt sig. Svipað og með bankanna sem alltaf kjöftuðu upp verðmætið í sjálfum sér.Þetta hugsaði ég áðan þegar vinur minn  hringdi til mín og hafði áhyggjur, hvað yrði nú um blaðið sitt þegar blaðmönnunum hafði verið sagt upp, svo hægt yrði að ráða nýja ritstjóra. Með alvöru skoðanir.

 

Ég verð nú að segja að ég náði einhvern veginn ekki að deila áhyggjum mínum með honum, þótt mér væri svo sem ljóst að senn væru þeir dagar taldir að maður gæti sest niður  með rjúkandi heitan kaffibollann og rúnstykki  og lesa fréttaskýringarnar sem nú í nokkurn tíma hafa verið frekar almenns eðlis og lausar við áherslur eigenda blaðsins eða flokksins sem þeir tilheyra. Já það voru góðir morgnar og maður hugsaði óneitanlega með hlýhug til þeirra sem þannig hafði tekist að skipa málum, á meðan maður horfði út í garðinn á hunangsfluguna suða um fegurð lífsins.

 

Þær ljúfu stundir virðast nú í þann veginn að hverfa, og búandi hér í Reykjanesbæ þar sem reglur hafa verið settar um að ekki megi  megi nálgast Fréttablaðið nema á bensínstöðvum eða búðum sem ekki opna fyrr en klukkan tíu, verður maður víst að búa sig undir nú í vetrarbyrjun að þurfa að vakna fyrir allar aldir til að nálgast pappírsblað til að fletta. Jafnvel í haugarigningu eð snjóstormi.

 

Nema maður geri eins og vinur lagði til og sagði að nú hefðu þau boð verið látinn út ganga að ef hægt ætti að vera að halda blaðinu  úti til að boðskapurinn heyrðist yrðu allir flokkshollir menn umsvifalaust að taka í það minnsta þrefalda áskrift. Ég held ég vakni frekar fyrr.


Beina brautin breiða.

 

Undanfarna mánuði hafa menn hamrað á að forsenda þess að að komast inn á beinu brautina breíðu sé að gengið sé frá svonendu Icesave máli. Máli sem koma hefði mátt í veg fyrir hefði stjórnsýsla okkar hér verið eðlileg. Að þjóðarhagur byggðist ekki á persónulegum skoðunum seðlabankastjóra til ýmissa þeirra aðila sem saman með honum áttu að tryggja að hér færi ekki allt á annan endann.

 

Nýr seðlabankastjóri ásamt peningastefnunefnd Seðlabankans hafa nú tekið ákvörðun um stýrivexti, ákvörðun byggða á þeim gögnum sem fyrir liggja, og segja ýmis jákvæð teikn á lofti, en telja ekki skynsamlegt nú að lækka stýrivexti sökum þess að enn séu lausir endar. Seðlabankinn hefur tekið þá afstöðu að hafa stjórn á peningamálunum út frá staðreyndum en ekki óskhyggju eða persónulegum skoðunum. Betra að svo hefði verið fyrr.

 

Vilhjálmur Egilsson segir að Seðlabankinn viðhaldi hér kreppunni með aðgerðaleysi sínu, og að ekkert hafi breyst hér frá undirskrift stöðugleikasáttmálans nema að Icesave samkomulagið hafi ekki verið samþykkt. Samkomulag sem þó er forsenda fyrir að ríkið geti fylgt hér eftir langtímaáætlun í ríkisfjármálum, og að fjölþjóðafjármögnun verði  tryggð.

 

Það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni að hér hefur ekkert breyst, sem gefið gæti tilefni til lækkunar stýrivaxtanna. En sú sök liggur þó ekki hjá Seðlabankanum, né heldur ríkisstjórn. Sú sök liggur fyrst og fremst hjá þeim aðilum sem ekki hafa séð eða viðurkennt mikilvægi þess að gengið verði frá Icesave samkomulaginu. Og maður tekur eftir að nú viku eftir upphlaup stjórnarandstöðunnar í sambandi við lausn þess máls þegja þeir. Þeir eru að átta sig á ábyrgð sinni.

 

Vonandi er að nú sjái menn framan í alvöru málsins og gangist maður undir manns hönd að ganga frá því máli svo áfram verði haldið. Málið hefur nú þegar tafist nóg sökum þrjósku og óbilgirni þeirra sem helst ekki vilja að málin séu leyst. Sökum pólitískra hugsjóna sinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband