Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að hugsa með heilanum.

Ross Beaty sagði í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að hann vildi ekki vinna á stað þar sem andstaða væri við áform hans, og skv viðtali í Mbl í morgun segist hann líklega leita annað með fjárfestingar sínar verði ekki látið eftir hvað varðar hugmyndir hans. Sama sögðu þeir Baugsfeðgar fyrir fáum árum. Bara að svo hefði orðið.  

 

Við íslendingar horfum nú fram á erfiðustu tíma í sögu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, Tíma sem ekki hefðu þurft að koma, hefðu menn farið eftir þeim leikreglum sem settar höfðu verið, og eftirlitið verið í lagi. Það klikkaði allt sem klikkað gat  og við stöndum nú frammi fyrir samningum sem enginn er hrifinn af, en nauðsynlegir til að geta reist þjóðfélag okkar við eftir sjálftekt þeirra sem afhent voru verðmætin. Einkavinavæðinginn er að taka sinn toll, og heimilin líða.   

 

Við vorum aðvöruð, og þær aðvaranir komu úr mörgum áttum, en svör ráðamanna þess tíma voru flest á sam veg. Hér er allt í góðu lagi og þeir sem halda öðru fram þurfa á endurmenntun að halda. Við skyldum  hugsa með heilanum, en ekki láta tilfinningaleg rök ráða. Málefni HS Orku er einmitt þessu marki brennd. Forráðamenn  þeirrar einkavinavæðingar sem þá fór fram benda nú mjög á að við skulum hugsa með heilanum, og alls ekki hjartanu. Nú sé þörf fyrir erlenda fjárfestingu, til þess að koma okkur úr þeim skafli sem þeir sjálfir og hugmyndafræði þeirra festi okkur í. Við skulum halda áfram hugsunarlaust, og jafnvel lána mönnum með kúlulánum fyrir kaupverði eigna okkar. Þeir telja að við höfum ekkert lært.  

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar er einn þeirra þingmanna sem vill að stigið verði á bremsuna. Að menn staldri við og athugi á hvaða vegferð við erum hvað varðar framtíðarnotkun á auðlindum þjóðarinnar. Að settar verði reglur um aðkomu, nýtingu arðsemi og jafnvel siðfræði þeirra nýtingar. Að þær reglur komi fyrst og fremst til með að þjóna almannahagsmunum til framtíðar fram yfir stundarhagsmuni fjármagnseigenda.Að við lítum til frænda okkar Norðmanna hvað varðar regluverk í kringum auðlindinna,  

 

Það er ekki of seint að stíga á bremsuna, og taka öll þessi mál endurskoðunar. En til þess þarf kjark. Kjark sem fyrir hrunið var ekki til staðar.   Ljóst er að allt frá ákvörðun einkavinavæðingarnefnarinnar  í desember 2006 þar sem tekinn var ákvörðun um einkavinavæðingu Hitaveitu Suðurnesja hefur það verið lítil deild í fyrrum Glitni banka sem ráðið hefur för hvað varðar stefnu og ákvörðunum um framtíðarnýtingu auðlinda á Reykjanesi. Og einhverra hluta vegna hafa menn ekki haft þann kjark sem til hefur þurft til að stoppa þá augljósu vitleysu sem þar hefur átt sér stað. Sagt að þar hafi ríkið ekki aðkomu , og skilanefndir þær sem með málefni bankans borið fyrir sig bankaleynd. Geysir Green Energy afsprengi útrásarvíkinganna Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs hefur gert að sem þeir hafa viljað.   

 

Öll sáum við hvernig bankarnir voru yfirteknir, og það voru hagsmunir þjóðarinnar sem því réðu að það var nauðsynslegt. Það var því miður gert of seint, ætlum við að láta slíkt henda okkur á ný. Er ekki komin tími til að ríkið sem nú ræður Íslandsbanka yfirtaki það fyrirtæki sem málið allt snýst um Geysir Green Energy, og móti sér í framhaldi af því auðlindastefnu í átt við þá er Oddný G Harðardóttir ræddi um á fundinum í Saltfisksetrinu í Grindavík í gærkvöldi. Svo getur Ross Beaty ákveðið hvort hann komi eða fari

Verður orkuauðlind Reykjaness afhent til 1300 ára?

Það virðist vera mikið að gera á hinum ýmsu heimasíðum þessa dagana að ýmist gera aðfinnslur við fréttaflutning, nú eða reyna á allan mögulegan hátt að koma leiðréttingum að á því sem þeir hafa sagt, eða ekki verið annað hægt en að skilja sem meiningu viððkomandi manna.Þannig má sjá skemmtilegar færslur á heimasíðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, og skrif hans til hinna ýmsu aðila um hve mikilvægt hann telur að hans sjónarmið komi fram í umræðuna.   

Forstjóri HS Orku virðist lítið annað hafa að gera þessa dagana en að setja inn á vef HS Orku nöldurslegar athugasemdir sínar um hvernig hinar og þessar fréttir hefðu átt að hljóma ef þær væru skv hans skilningi á hvernig málin standa. Og síðasta athugasemd hans hvað varðar skilning hans á umræðunni um varanlegt afsal er náttúrulega bara snilld séð í ljósi þess samnings sem hann vitnar til þegar hann Í samningi HS Orku hf og Reykjanesbæjar er leigutími og endurskoðunarréttur byggður á þessari lagagrein. Hvernig úr þessu verður framsal til 130 ára er erfitt að skilja, eins hefði mátt setja 1.300 ár með nógu mörgum framlengingum” Við þessi venjulegu höfum nú ekki verið jafnframsýn og forstjórinn, eða látið okkur hingað til detta í hug þetta væri skilningur þeirra sem samning þennan gerðu. Enda finnst manni að hér sú menn komnir að jaðri ósvífninnar hvað varðar umsýslu með opinberar eignir.

 

Þetta er nefnilega rétt hjá forstjóranum, þarna hefði alveg eins verið hægt að bæta nokkrum núllum við í ljósi þess samstarfssamnings sem Geysir Green Energy og Reykjanesbær gerðu sín á milli til þess að samningur sá er hann vitnar til gæti orðið að veruleika. Því í þeim samning skuldbindur Reykjanesbær sig til að ganga allra erinda GGE, eða aðila sem þeir benda á til að tryggja hagsmuni GGE innan HS Orku.

 

Það er gott að nú er þó komin fram skilningur forráðamannanna þeirra  sem þessa samninga gerðu, og öll rök þeirra um að hér sé ekki verið afhenda auðlindina varanlega eru nú hjóm eitt. Því það verður ekki bara til  130 ára eins og skilningur flestra var, heldur til allrar framtíðar, fái skilningur þessara manna að ráða. Það verður að koma í veg fyrir með öllum hugsanlegum ráðum.

  

Viljum við verða nýlenduþjóð á ný?

 

Þrátt fyrir kreppu og óáran  er mér það nú ljósara nú en fyrr að framtíð þessarar þjóðar á að geta verið björt, já og mér liggur við að segja bjartari en mig hafði órað fyrir í gær. En til þess að svo geti orðið verðum við nú að láta af þeim útnárahugsunarhætti sem virðist hafa einkennt notkun okkar á þeim auðlindum sem við ráðum yfir. Ég er kominn í spor bæjarstjórans míns bjartsýna, en með öfugum formerkjum. Ég vil að við nýtum orkuna okkur til hagsbóta og bjargar, í stað þess að selja afnotaréttinn til erlendra auðhringja eða einkaaðila sem vita að eftir miklu er að slægjast.

 

Í morgun fékk ég birta  grein í Morgunblaðinu, sem var svar mitt við leiðara blaðsins frá síðastliðnum laugardegi, og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Þar hafa menn úr öllum flokkum og atvinnugreinum haft samband við mig og þakkað fyrir greinina. Einn var það þó sem miklar þakkir á skildar, og opnaði augu mín betur fyrir alvarleika málsins, og nýjar víddir á þeim afglöpum sem við hugsanlega stöndum fyrir verði það raunveruleikinn að við afhendum erlendu aðilum auðlindir á Reykjanesi til framtíðar. Sá er virtur verkfræðingur sem ekki lætur draga sig í flokk heldur hugsar um hverjir eru hagsmunir þjóðarinnar fyrst og fremst. Honum líst ekki á hvað er framundan verði sú niðurstaðan sem einkavæðingarsinnanir stefna nú að.

 

Ljóst er að við íslendingar erum framarlega hvað varðar virkjanir jarðvarmaorku okkar, en ekki jafn framarlega hvað varðar skynsmlega nýtingu hennar. Þar hegðum við okkur helst eins og það sé helsta takmark okkar að verða nýlenduþjóð á ný. Að láta allt það frá okkur sem helst gæti orðið okkur til bjargar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við þjóðinni. Og afhenda björgina á kúluláni til þeirra sem þó vita hvað hægt er að nota hana í. Og það er ekki lítið.

 

Öllum sem um þessi mál hafa hugsað eða fjallað er ljóst að sú orka sem nú er notanleg er til rafmagnsframleiðslu er einungis lítið brot af þeirri orku sem nú er dælt úr jörðu. Þrátt fyrir það hefur það alltaf verið helsta keppikefli okkar að framleiða og selja raforkuna, en gefið minni gaum af því hvernig hægt er að nota þau rúmlega sjötíu prósent orkunnar sem ekki eru nýtt nú þegar, og látinn renna framhjá.

 

Það er þessi umframorka sem verið er að sækjast eftir núna, orka sem hægt væri að nýta til að mynda til efnaiðnaðar, landbúnaðar, og eflaust margra annara hluta sem myndu skapa áður óþekktan arð til viðbótar þess arðs sem hægt er að fá af raforkusölu og heitavatnssölu. Þennan arð eru menn tilbúnir til að láta nú af hendi fyrir skammtímasjónarmið. Ég held að skynsamlegra væri nú að þreyja Þorran og huga í alvöru að hvaða möguleika við höfum þarna á sviði allskonar nýsköpunnar til dæmis í efnaiðnaði. Ég held að við eigum nú að kalla saman hringborð sérfræðinga, sem fyrst og fremst huga að skynsamri nýtingu frekar en skammtíma gróðasjónarmiðum einstakra fjárfesta. Þá fyrst held ég að við getum öll sýnt svipbrigði bæjarstjórans síbrosandi sem afhenda vill auðlindina til erlendra auðhringa í stað þess að nýta hana okkur til hagsbóta.

 

 Greinin í Morgunblaðinu

 

Notum orkuna í eigin þágu.Svar við leiðara Morgunblaðsins Leiðari Morgunblaðsins í dag, 22 ágúst  vakti óneitanlega athygli mína. Blaðið sem áður stóð fast á að nýta auðlindir þjóðarinnar í  þágu þjóðarinnar, vill nú nýta þær í eitthvað annað, en tilgreinir ekki hvað. Og höfundur velur að skrifa leiðara sem er tekinn gæti verið nánast beint af heimasíðu Geysis Green Energy. Öðruvísi mér áður brá.  

Höfundur segir í fyrstu röksemd sinni að ekki sé hér verið að afhenda orkulindana, og undirstrikar að HS Orka vinni eigöngu að uppbyggingu og rekstri virkjana. Hvernig sú starfsemi á að fara fram án þess að aðgangur sé að auðlindinni er mér hulin ráðgáta. Og í tilfelli HS Orku er auðlindin afhent þeim nú til 65 ára með framlengingarrétti til annara 65 ára. Sé rúmlega einn og hálfur mannsaldur ekki nánast varanlegt framsal, væri gaman að fá útskýringu höfundar á hvað hann telji eðlilegt í því máli.  

Höfundur segir ráðherrana vinna gegn eigin markmiðum um endurreisn trausts á íslensku atvinnulífi, og  verði af  þeim gjörningi sem nú er hætta  á að verði að veruleika,  komi það eingöngu til með að fæla frá erlenda fjárfesta. Getur verið að traust og ábyrgð fari saman í mati sumra fjárfesta sem í framtíðinni munu líta á Ísland sem vænlegan fjárfestingarkost?  Að þeir muni meta það meira að Íslendingar séu ekki tilbúnir í hvað sem er til að vernda hagsmuni þjóðarinnar?  Og er ekki einmitt sú umræða sem nú á sér stað á Alþingi gott dæmi um það?  Að traustið og virðingin vaxi frekar en hitt, þegar ljóst er að menn er tilbúnir til að verja hagsmuni sína. En ég er sammála höfundi að fyrir löngu hefði átt að vera búið að grípa inn í þetta mál.  

Þegar kemur að fjármögnunarmöguleikum HS Orku, og í ljósi þess eignarhalds sem nú er, held ég að menn verði að stíga varlega til jarðar, þegar þeir segja að slíkur gjörningur sem sem endurþjóðnýting kynni að hafa á þá möguleika.  Ljóst er að  Geysir Green Energy,  sem er nú er  meirihlutaeigandi HS Orku  er fyrirtæki á brauðfótum, og ríkið raunar með skuldir þess upp á rúmlega 20 milljarða í fanginu. Er líklegt að erlendir bankar, nú eða innlendir séu sérstaklega tilbúnir til að lána fyrirtæki þar nánast allir helstu eigendur þess fyrirtækis eru í í greiðslustöðvun, eða á leið í hana?.  

Hvað varðar fjórða lið röksemda í greininni vil ég vísa til þriðja liðs athugasemda minna, og spyr höfund hvort ekki sé nú skynsamlegra að ríkið sem er með skuldir núverandi eiganda í fanginu reyni ekki frekar að gera það besta úr stöðunni, yfirtaki skuldirnar og tryggi um leið yfiráða- og nýtingarrétt íslensku þjóðarinnar yfir þessum hluta auðlindarinnar til framtíðar, í stað þess að hugsanlega afskrifa þær skuldir? 

Maður spyr sig óneitanlega þeirrar spurningar þegar talað er um hugsanlega niðurstöðu Samkeppnistofnunnar  hvað varðar eignahlut ríkisins, hvaða sanngirni  er í því að einkafyritækið Geysir Green Energy  má í dag eiga  66% prósent hlut í fyrirtækinu, til að tryggja hagsmuni fárra hluthafa, en ríkið sem reynir að tryggja hagsmuni almennings má ekki eiga nema  10%  af samkeppnissjónarmiðum. Er ekki eitthvað skrýtið þarna á ferðinni? 

Það er rétt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins að það var hinn frómi þáverandi ráðherra iðnaðarmála Össur Skarphéðinsson sem beitti sér fyrir setningu þessarar lagabreytinga. Og það á lika að vera ljóst jafnvel tengdum manni og leiðarahöfundur Morgunblaðsins er, að í fyrri frumvarpsdrögum var gert ráð fyrir að 2/3 hlutar eignahaldsins á öllum orkufyrirtækjum  landsmanna yrðu í opinberri eigu. Fyrir harðfylgi Sjálfstæðismanna í ríkisstjórn á þeim tima náðist sá liður ekki í gegn. 

 

Eftir lestur þessa leiðara og í ljósi núverandi eignarhalds á blaðinu hefði verið fróðlegt að sjá hvernig samsvarandi leiðari blaðsins hefði hljómað ef fjallað hefði verið um aðrar auðlindir þjóðarinnar, til dæmis fiskveiðiauðlindina ? Hannes Friðriksson innanhússarkitekt

 


Aðferðarfræði útrásarvíkinga.

 

Málefni Hitaveitu Suðurnesja, er flókið mál. Fyrst og fremst flókið sökum þess flækjustigs og fjálmálagerninga sem þeir einkavinavæðingarmenn hafa komið því í. Sem jafnframt virðist vera hluti af aferðafræði þeirra.   Sama var með bankana, og fjármálalífið hér í landinu. Fæstir skyldu málið, en alltaf vorum við sannfærð um að hér væri allt í lagi. Þetta væri íslenska útrásin og þeir sem skyldu ekki snilldina þyrftu á endumenntun að halda. Við trúðum, eða vildum ekki opinbera fávisku okkar, og því fór sem fór.

 

Sgirún Elsa Smáradóttir fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er ekki sátt víð þann samning sem Magma Energy hefur gert við Orkuveitu Reykjavíkur, og telur að hætta sé á að í þeim samning  sé mikil áhætta tekin. Og segir jafnframt að Reykjanesbær hafi samið af sér hvað varðar sölu á sínum hlut til Geysis Green Energy, sem skv. fjölmiðlum undanfarið, virðist vera fyrirtæki komið að fótum fram. Eitthvað virðist það fara illa fyrir brjóstið á bæjarráðsformannininum Böðvari Jónssyni, sem í þessu viðtali á vefmiðli Vísis í gær beitir kunnri aðferðafræði útrásarvíkinganna og segir hana ekki hafa næga þekkingu á málinu. Og málið er þar með útrædd, eftir  skýringar hans á tryggingum og öðru er slíkum samningum fylgja.

 

Það væri óðs manns æði að fara að reyna að setja sig inn í þennan samning, og er sennilega einnig trúnaðarmál þannig að erfitt  gæti verið að nálgast hann, og ekki ætla ég mér að fara út í að skapa mér óvild Böðvars með því að fjalla um samninginn á opinberum vettvangi. Mál Hitaveitu Suðurnesja snýst nefnilega ekki um fjármálagerninga meirihlutans sem nú þegar hefur misst tök á fjármálum þess sveitarfélags sem þeir voru  valdir til að gæta. Heldur snýst málefni Hitaveitu Suðurnesja um prinsipp, og skynsemi. Og þar virðist maður koma að tómum kofanum hjá formanni bæjarrárðs Reykjanesbæjar.

 

Málið snýst um hvort eðlilegt og rétt sé að nýtingarréttur þeirrar auðlindar sem nú er ætlað að bjarga okkur út úr þeim vandamálum sem við nú erum í, verði afhentur til erlendra aðila. Að það verði erlendir aðilar sem njóti ávaxta þeirrar uppbyggingar sem almenningur á Suðurnesjum  hefur byggt upp. Málið snýst um hvort ekki sé kominn tími til fyrir okkur að hugsa fyrst um hver er okkar hagur, og síðan um hver er hagur þeirra sem vilja nýta okuna sem við höfum hér til sölu. Að það verði íslenskur almenningur og þjóð sem að lokum njóti þeirra gæða sem landið hefur gefið okkur. Einfaldara getur það nú ekki verið.

 

Nú er kominn tími til að hugsa út fyrir þann kassa sem frjálshyggjuguttarnir vilja að við hugsum innan, og athugum hvort  ekki sé eitthvað meira þarna úti en þeir vilja að við sjáum. Hvort við sem sameinuð þjóð getum komið okkur sjálf út úr þeim vanda sem við nú stöndum frammi fyrir, notið þess arðs sem landið gefur okkur án aðstoðar þeirra sem nú halda að hér sé brunaútsala á eigum þjóðarinnar.  Það er þess virði.

 

 

 


Stjórnmálamenn halda að þeir séu bestir!!

 

Stjórnmálamenn halda að þeir séu bestir segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ í þessari grein á pressunni, og höfðar þar til að því er virðist til þeirra stjórnmálmanna sem sökum einkavæðingarstefnu hans eigin flokks hafa nú fengið aukin völd. Og velur að líta fram hjá sjálfum sér sem þó hefur farið með öll völd í þeim farsa verið hefur í kringum Hitaveitu Suðurnesja frá því að hann sem stjórnmálamaður tók þar við stjórnarformennsku.

 

Nýlega kom út skáldsaga um lítið samfélag á Suðurnesjum, Grjótaþorp eftir Sigurjón Vikarsson þar sem fjallað er um félaganna Hástein, Hornstein , og félaga sem stjórna því samfélagi í anda Jörundar Hundadagakonungs. Og margir hafa við lestur bókarinnar óneitanlega getað fundið sterka samsvörun við stjórnunarhætti í í Reykjanesbæ. Í þessu viðtali verður sá grunur manns eingöngu sterkari, þó að sökum uppbyggingar  og atburðarrásar hafi maður gengið út frá að hér væri eingöngu um skáldskap að ræða.

 

Hásteinn (bæjarstjórinn) hefur í bókinni sérstakt lag á að gangi mál ekki eftir eins og  hann hafi fyrirskipað að lát sem svo að hann hafi hvergi komið nærri. Það gerir bæjarstjóri Reykjanesbæjar einnig í þessu viðtali, og gefur stjórnmálamönnum (sem hann væntanlega telst ekki til) þá sök sem fyrir er að finna í þessu máli, og þá helst Guðbrandi Einarssyni oddvita minnihlutans sem barist hefur á móti þessum gjörningi sökina. Kannski er Grjótaþorp ekki skáldsaga, heldur raunsönn samtímalýsing á rekstri Reykjanesbæjar undir stjórn bæjarstjórans? Það skyldi þó aldrei vera?

 

Hásteinn, nei fyrirgefið, bæjarstjórinn heldur áfram í viðtalinu og rekur hvernig nú þegar er búið að gera framtíðarsamninga við, kísilver, álver, og gagnaver, og jafnframt að gott sé að hafa nú losað bæinn út þeirri feykilegu áhættu sem í þeim samningum felast. Maður fær óneitanlega á tilfinninguna eftir lestur viðtalsins að þeir samningar sem gerðir hafa verið séu í meira lagi lélegir út frá rekstarsjónarmiðum HS Orku, og lítið annað að gera en hlaupa í burtu eins hratt og hægt er svo þeir samningar fari ekki alveg með bæjarfélagið. En tekur þó ekki fram í viðtalinu að áfram ber þó Reykjanesbær í gegnum hlut sinn í HS Veitum ábyrgð á skuldum HS Orku.  

Í enda viðtalsins fer þó Hásteinn alveg fram úr sér, nei fyrirgefið aftur ég meina bæjarstjórinn.

Þar fer talsmaður einkavinavæðingarinnar á flug og flýgur nú sem aldrei fyrr með himinskautum. Og það gerir hann í ljósi sögunnar, ekki skáldsögunnar sem ég vitnaði til hér fyrr, heldur blákalds raunveruleikans.

 

Hann segir það hollt að einkaaðilar stuðli sjálfir að uppbyggingu sinna atvinnutækifæra, þá sennilega löngu búinn að gleyma öllu um hvernig uppbygging eikavinafyrirtækisins Geysir Green Energy kom til. Það er gott að hafa valminni í viðtali sem þessu. Vitandi að það var hann sjálfur og meirihluti hans sem kom hér einn fagran vordag fyrir tveimur árum undir lúðrablæstri og blöðrusleppingum með útrásarfyrirtæki þeirra Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs, kynntu það sem heppilegasta samtarfsaðila Reykjanesbæjar og seldu þeim síðan allan hlut bæjarins í HS. Hlut sem á þeim tíma gaf bænum um 180 milljónir í arð á hverju ári. Og finnst nú vera góður díll að taka á móti hluta af 50 milljón króna framlagi þessara aðila vegna nýtingarréttar á auðlindinni. Og halda svo að þeir séu bestir.

 

 


Mér er örlítið misboðið núna.

 

Í dag birtist þessi  frétt í Fréttablaðinu um að ráðuneytin búa  sig nú undir blóðugan niðurskurð á ríkisfjárlögum fyrir næsta ár. Sá niðurskurður nemu 56 milljörðum króna. Í dag birtist líka þessi frétt sú var um afskriftir eins af svonefndum bestu sonum Íslands, útgerðarmannsins og þyrilvængjuflugmannsinns Magnúsar Kristinssonar sem virðist samkvæmt fréttinni hafa fengið afskrifaðar skuldir sínar við Landsbankann upp á 50 milljarða króna.

 

Það er ekkert skrýtið þegar maður sér slíkar fréttir birtast nánast hlið við hlið að manni misbjóði, í það að minnsta kosti örlítið. Flestir höfðu haldið að hlutverk skilanefnda bankanna væri fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni bankanna sem ríkið reyndar á núna, og jafnframt að standa vörð um hagsmuni þeirra lándrottna sem lánuðu bönkunum. Að reyna að sækja það fé sem unnt væri til að endanleg útkoma yrði sem allra best fyrir eigendur bankanna, sem í tilfelli Landsbankans er þjóðin  

 

Nú veit maður ekki hvers virði útgerð Magnúsar er, né heldur hve mikil sú kvótaeign er sem honum var úthlutuð er, En þessir hlutir virðast þó einhvers virði, og það er hlutverk skilanefndanna að sækja þau verðmæti séu þau til staðar.

 

Það virðist ljóst að útgerðarmaður þessi virðist hafa átt greiðan aðgang í fjárhirslur bankanna, og einhverra hluta vegna fengið ný  og ný tækifæri til að koma undir sig fótunum að nýju, ýmist á kostnað lándrottna sinna nú eða á kostnað ríkisins eins og ljóst virðist vera af þessum síðustu fréttum. Manni liggur við að segja að ég vildi að ég væri þessi maður. En þó ekki .

 

Það er hlutverk stjórnvalda sem nú eru eigendur að nánast allri bankastarfsemi í landinu að jafnræðis, og réttlætis verði gætt þegar kemur að störfum skilanefndanna. Hér virðist þess ekki hafa verið gætt. Miðað við þá aðferðafræði sem skilanefnd Landsbankans virðist það vera hennar helsta kappsmál að grafa undan þeim möguleika að hér geti skapast nauðsynlegt traust á fjármálastofnum. Og ljóst að formaður skilanefndarinnar er vanur í áróðurstríði af því taginu, skólaður á bestu stöðum hvað þann þátt varðar.

 

 

Það er ekki hlutverk núverandi stjórnar að láta sem svo að þessi mál komi henni ekki við. Það er hennar hlutverk að grípa inn í hvar þar sem henni finnst brögðum beitt, og jafnræðis ekki gætt. Kjörfylgi þessarar stjórnar byggist á að hér geti risið samfélag  byggt á jafnræði og réttlæti. Hennar hlutverk nú reynist þessar fréttir réttar á að vera að víkja frá formanni þessarar skilnefndar umsvifalaust, Það traust sem hann hugsanlega hafði, er því miður horfið og áfram verður ekki haldið undir hans forystu.


Erum við á réttri leið?

Þessa dagana er farið hratt yfir, reynt er að bjarga þvi sem bjargað verður og uppbygging þess samfélags sem hér fór á hausinn er forgangsmál. Svo virðist sem stóra bylgjan sé að fjara út án teljandi skemmda, í bili að minnsta kosti. Fundinn hefur verið flötur á ICESAVE deilunni sem flestir flokkar virðast geta sætt sig við, og jafnvel viðsemjendurnir líka. Það á eftir að koma í ljós. 

Um leið og við nú horfum á þessa stóru bylgju sem til varð vegna einkavæðingarstefnu fyrrum stjórnvalda fjara út í flæðarmálið, sjáum við aðra myndast út við sjóndeildarhringinn, báru sem var fyrirsjáanleg og nægur var tíminn til að undirbúa komu hennar svo að skemmdir hlytust ekki af, einkavæðing á afnotum auðlindarinnar sem tryggja á okkur leið út úr ógöngunum fer nú fram með stuðningi stjórnvalda sem viljað hafa láta svo líta út að slíkur gjörningur væri þeim á móti skapi.  

Nú myndi maður skilja það vel að þetta væri gert á þennan hátt hefðu allir hnútar verið bundnir vel og rækilega og fyrirséð væri slíkur gjörningur sem varð með einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja yrði ekki endurtekinn. Að fyrtæki sem hingað til hafa verið skilgreind sem samfélagsleg verðmæti yrðu ekki seld hæstbjóðanda að því er viðist af því bara.  

Við höfum á undanförnum mánuðum fengið að fylgjast með hvernig ýmsir stjórnmálamenn hafa endurskilgreint áhættufjárfestingar, og tekist að sannfæra jafnvel sjálfa sig um að svart væri hvítt. Að orkusala sú sem við íslendingar eigum möguleika á að stunda teljist til áhættufjárfestinga, en hafa ekki sýnt okkur í hverju sú áhætta er fólginn. Nema þá helst að þeir aðilar sem tilbúnir hafa verið til að fjárfesta hafi ekki viljað sökum þess afgjalds sem þeir þyrftu að borga fyrir nýtingu hennar.  

Ljóst er og hefur verið lengi að virkjanir þær sem byggðar voru í efri hluta Þjórsár geta til að mynda ekki á nokkurn hátt talist til áhættufjárfestinga. Í þær var ekki ráðist fyrr en fyrir lágu samningar við þá er vildu nýta þá orku er þaðan kom, þó að verð það sem þeir vildu greiða hefði aldrei fengist uppgefið. Því réðu samkeppnissjónarmið.  

Nú virðast stjórnmálamenn tilbúnir til að leggja í enn eina vegferðina til að tryggja stundargróðann, en taka lítið tillit til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Sem hljóta að vera að fá sem best verð fyrir þá orku sem okkur er unnt að skapa. Nú vilja menn selja það orkufyrirtæki sem virðist vera með trygga orkusölusamninga til margra áratuga, til erlendra aðila. Sá arður sem af frekari virkjunum rennur ekki  framar inn í íslenskt samfélag nema að litlu leyti, heldur til erlendra orkufyrirtækja. Og það þykir mönnum nauðsynlegt að gera í ljósi stöðunnar, á sama tíma og ljóst er að orka er og verður eitt það dýrmætasta sem við getum selt. Er ekki hér verið að henda krónunni og taka upp aurinn í staðinn.  

Einhvern veginn finnst manni nú vera rétti tíminn til að taka upp þau  lög sem samin voru nýlega um hvernig orkumálum þjóðarinnar skuli varið til framtíðar. Spyrja sig að nýju nokkurra grundvallarspurninga um hvernig við sem þjóð fáum best til framtíðar notið þeirra gæða er landið gefur okkur. 

Er það virkilega svo illa fyrir okkur komið að vikjana og afnotaréttur auðlindarinnar verði að seljast nú þegar til erlendra orkufyrirtækja, eða höfum við þann styrk til að bera sem þjóð að standa með okkur sjálfum og leyfa lögmálinu um ágóða og eftirspurn ráða þessari för. Því eftirspurnin mun ekki minnka eftir þeirri tegund orku sem við höfum tök á að framleiða, heldur þvert á móti. Og verðmyndun þeirrar orku mun verða í takt við eftirspurnina.

Leikhús fáránleikans

 

 

Flestir höfðu haldið að umfjöllun um málefni Hitaveitu Suðurnesja hefði lokið við sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum til Geysis Green Energy, sem síðan seldi áfram af hlut sínum til Kandíska fyrirtækisins Magma Energy. Að leikstjóra Leikhúss Fáránleikans hefði þótt nóg komið og myndi nú stoppa í tilraunum sínum til einkavæðingar. En svo virðist ekki vera skv þessari frétt í Morgunblaðinunú í morgun  og nú vill hann láta reyna á túlkun lagannna í stað þess að fara bara eftir lögunum eins flestir telja eðlilegt.

 

Það held ég að megi með góðum rökum segja að ákvæði laganna hvað varðar aðskilnað orkufyrirtæka og dreifiveitna séu í flestum tilfellum nokkuð skýr, og að þeir sem þau lög lesa velkist ekki í vafa  hvað  verið er  að meina. En leikstjórinn sem að vísu funkerar einnig sem bæjarstjóri og stjórnarformaður i HS Veitum er ekki sama sinnis, og vill nú láta reyna á ákvæði laganna, og segir " Ef löggjafinn gerir kröfu um enn frekari aðskilnað, þá er ekkert annað að gera en að fara eftir ákvæðum laganna" vel vitandi að sú ákvörðun sem hann stóð fyrir samþykki á, samræmist ekki þeim lögum sem HS Veitum er gert að fara eftir. Og greinilegt er af frétt Morgunblaðsins að orkumálastjóri telur að hér gengið í sveig við lögin.

 

Það sem vekur athygli manns við þennan gjörning, er hve djúpt menn eru sokknir í allskonar rekstraræfingar á fyrirtækjum sem í eigu borgaranna eru, og sú árátta að afhenda þann rekstur stöðugt til annarra en þeirra sem eiga.Og þá helst einkaaðila sem tengjast leikstjóranum órjúfanlegum böndum á einhvern hátt. Maður fær á tilfinningunna að menn  vilji helst ekki að aðrir komi að hringborðinu aðrir en þeir sem setið hafa hringinn í kringum, og leikið viðskiptakónga í útrásarstíl. Eitthvað virðist  vera á borðinu sem þarf að fela, því annars væri sennilega bara farið að lögum í rekstri þessa fyrirtækis.

 

Ég veit ekki alveg hvort rétt sé að halda áfram með hugsun leikstjórans, og gera jafnvel orð hans að sínum og segja "Kreppan er móðir allra tækifæra" og vera jákvæður í hugsun í anda þeirra sem ekki telja rétt að tala um leiðinleg mál, að vera jákvæður og nýta tækifærin sem þó koma upp. Hér virðist vera um eitt slíkt að ræða, deili maður hugsjónum hins einkavinavædda bæjarstjóra og spurning hvort leikstjórinn gæti ekki komið þessum skilboðum til hans.

 

Hvað sem segja má um forstjóra HS Orku, HS Veitu, og jafnvel Hitaveitu Suðurnesja áður virðist vera nokkuð ljóst að þar er á ferð nokkuð slyngur rekstrarmaður, eitthvað sem hvorki leikstjórinn, né heldur bæjarstjórinn geta státað sig af. Er þetta kannski ekki tækifæri til þess að annað hvort forstjóri HS Orku eða HS Veitu taki nú yfir starfsmannahald og rekstur bæjarins sem því miður virðist ekki hafa verið vel rekinn undanfarin ár. Væri það  ekki jafn eðlilegt og að starfsmaður Magma Enegy á Íslandi taki nú við stjórn HS Veitna, sem að vísu er að komast í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar. Hefði þá Leikhús Fáránlekans ekki flutt sína bestu leiksýningu hingað til.


Þegið þið, þetta kemur engum við!!!

 

Þegið þið, þetta kemur engum við eru skilaboð Héraðsdóms Reykjavíkur til fjölmiðla og hins almenna borgara í sambandi við málefni Kaupþings. En þið borgið.

 

Maður hefur oft velt fyrir sér í kjölfar hrunsins hvernig málum hefur eiginlega verið háttað, og fundist skína í gegn að elítan svonefnda hafi farið sínu fram eftir hrun eins og ekkert hafi gerst. Og nú hafi verið komið full nálægt henni og þá fátt eitt til varnar nema að setja lögbann á alla umræðu um þetta mál. Þagga málið niður og láta engan vita hverskonar spilling hefur verið í gangi innan þeirra banka sem einkavæddir voru.

 

Flest höfum við orðið fyrir miklum vonbrigðum í kjölfar hrunsins og flest höfum við reiknað með að breyting yrði á. Að við myndum horfa framan í vandamálin og breyta því þjóðfélagi leyndar og þöggunar sem við höfum lifað í. Að hér myndi mönnum sjást að eina leiðin til að komast út úr vandanum yrði að breyta gildunum. Svo virðist ekki eiga að vera. Sauðspilltir viðskiptamenn með dyggri aðstoð máttlítilla og hræddra  stjórnmálamanna ætla sér ekki að breyta hér neinu. Hér virðist samtryggingin því miður vera orðin alger. Ríkisbankinn krefst nú lögbanns á ríkisfjölmiðilinn, í málefni sem nú þegar er kominn út á netið og ekki mögulegt né siðferðilega rétt að stöðva umræðuna um.

 

Skila og lánanefndir bankanna hafa ábyrgð, en sú ábyrgð sem að þeim snýr nú fjallar ekki um það hvernig hægt er að bjarga þeim fyrrum eigendum bankanna sem settu þjóðfélag þetta á hausinn, sú ábyrgð felst í fyrst og fremst í því að gæta hagsmuna þeirra sem nú þurfa að greiða fyrir endurreisn bankanna, og það er þjóðin. Hafi menn afskrifað skuldir þessara manna er ekkert athugavert við að um það sé fjallað á opinberum vettvangi. Og komið sé í veg fyrir frekari vinagreiða við slíka menn.

 

Sá tími er kominn að við sem eftir sitjum með skuldir þessara manna sættum okkur ekki mikið lengur við orðagjálfur og útskýringar þeirra er nú stjórna endurskipulagningu bankanna. Öllum hefur lengi verið ljóst að þar er misjafn sauður í mörgu fé, og því miður virðast þeir misjöfnu nú hafa tekið yfir enn á ný, líti maður til afstöðu skilanefndar Kaupþings í þessu máli. Þar þarf að skipta út og setja inn menn sem þjóðin treystir t.d Vilhjálm Bjarnason og aðra slíka sem ekki hika við að ganga veg réttlætis þó að hætta sé á viðbrögðum frá valdastéttinni.

 

Margir hafa í kjölfar hrunsins kallað eftir útskýringum, Sú opnun á útskýringum sem nú hefur orðið í málefnum Kaupþings, kallar ekki á þögn, heldur umfjöllun ekki bara Kaupþings heldur allra íslensku bankanna Glitnis, Landsbanka, og Sparisjóðanna. Það virðist því miður vera nú orðið ljóst sem margir töldu, að forsvarsmenn bankanna gengu þar um sjóði eins og þeir væru þeirra einkaeign, án kvaða. Sá tími er liðinn að menn sætti sig við slíkt, hélt ég.

 

 


Er ekki botninum náð?

 

 

Alltaf þegar maður heldur að botninum sé náð, birtast nýir fletir á málefnum þess félags sem ég hef viljað kalla eitt furðulegasta fjárfestingarævintýri Íslandssögunar, og á þar að sjálfsögðu við Geysi Green Energy. Nú þessi frétt í Viðskiptablaðinu í morgun. Maður fer nú að velta ýmsu fyrir sér í ljósi þessa.

 

Á síðasta ári var sagt að hlutafé GGE hefði verið aukið um rúma fimm milljarða króna, og þar af komu rúmir 2.milljarðar króna frá Ólafi Jóhanni og Wolfensohon Company. Athygli mína á þeim tíma vakti þessi fréttatilkynning frá Athygli, þar sem sértaklega er dregið fram að sonur stofnanda  Wolfhenson Company hafi séð um að kolefnisjafna tónleikaferð Pearl Jam , jafnframt sem sá gutti hafi líka unnið að kvikmyndagerð. En hafði að vísu ekkert með samning þennan að gera.

 

Nú virðist ljóst að hluti þess hlutafjár sem sem skráð hefur verið sem hlutafjáreign barst aldrei, og pabbi kvikmyndargerðarmannsins var skipaður í stjórn GGE ásamt Ólafi Jóhanni, á fundi í Duushúsum í fyrra í anda þeirra Geysis Green manna. Nú eru þeir farnir, farnir frá þeim. Vonarneistarnir sem sáu lítið annað en birtu og yl í framtíð GGE. Hvers vegna skyldi það nú vera?

 

Það er margt sem maður veltir fyrir sér í þessu máli, og þá sérstaklega hvort að undanfarið ár hafi GGE ekki í raun verið gjaldþrota fyrirtæki, en tekist í ljósi sérstakrar stöðu sinnar innan bankakerfisins að halda sér gangandi. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti verið að þær klíkur sem að Geysi Green standa séu svo voldugar að hægt sé fórna nýtingarrétti jarðhitans á Reykjanesskaga til 130 ára , til þess að redda þeim út úr vandræðum sínum. Og hvort stjórnvöld og skilanefndir bankanna séu virkilega svo aum að geta ekki komið í veg fyrir gjörning sem virðist enn siðlausari í ljósi þessara frétta.

 

GGE virðist ekkert sérstaklega spennt að fara í málaferli við stjórnarmanninn sem situr þar enn  án þess að hafa nokkurn rétt til setu, manns sem hafði ekki einu sinni greitt það hlutafé sem gefið hefði honum rétt til að sitja í stjórn fyrirtækisins. Segir það ekki meira en margt annað um hreinleika málsins? Það myndi maður nú halda.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir að hafa ekki greitt hlutafé sitt inn í fyrirtækið þá situr maðurinn enn í stjórn fyrirtækisins í umboði hverra kemur þó ekki í ljós hér á heimasíðu GGE, en Ólafur Jóhann er farinn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband