Fimmtudagur, 11. mars 2010
Þeir ættu að setjast við borðið.
Útvegsmenn eru í ham þessa dagana og gera allt hvað þeir geta til að telja landsmönnum að hver sú breyting eða umræða um kvótakerfið sé af hinu vonda. Þeir kalla eftir samráði um nánari útfærslur , en eru þó ekki tilbúnir til að setjast við það borð. Nýta sér frekar fjölmiðla sína til að sannfæra almenning um að fyrirhugaðar breytingar, sem þó ekki eru ljósar hverjar verði, muni valda hruni atvinnugreinarinnar á fáum árum. Þeir einir séu færir um að viða fiskinn úr sjónum. Og fiskurinn syndi í burtu verði kerfið ekki óbreytt.
Þeir fullyrða án þess að nokkur rök eða ákvarðanir liggi fyrir að ætlunin sé að taka af þeim kvótann sem þeir hafi keypt á undanförnum árum. Framundan sé eignaupptaka og þjófnaður sem verði að koma í veg fyrir. Þeir ganga út frá því að stjórnvöld af illum hvötum hafi ekkert annað í hyggju en að rústa þeirri undirstöðuatvinnugrein sem er grunnurinn að því að við komum okkur út úr kreppunni.
Þeir vilja halda öllu óbreyttu, þrátt fyrir að vita að um slíkt verður aldrei samstaða. Þeir vilja ekki og ætla ekki að skilja að í hugum meirihluta þjóðarinnar er hér um sanngirnismál að ræða. Að arður af afnotum fiskveiðiheimildanna skili sér til þjóðarbúsins. Það finnst þeim ósanngjarnt. Og þeir vilja alls ekki heyra á það minnst að breytingar á kvótakerfinu geti þrátt fyrir allt stuðlað að betri afkomu greinarinnar. Að stærsti hluti innkomu greinarinnar fari ekki í vaxtagreiðslur eða út úr greininni eins og nú er.
Auðvitað hlýtur það að vera sameiginlegt markmið okkar allra að hér verði rekinn arðbær sjávarútvegur, og að þau fyrirtæki sem vel hafa verið rekinn verði áfram þeir bústólpar í byggðarlögunum sem nú er . Að tryggður verði góður rekstrargrundvöllur fyrir þau. Og þeim skapaður vinnufriður. Um það á máið að snúast.
Að fundin verði leið samstöðu um hvernig sjávarútvegi okkar verði best fyrir komið til framtíðar. Og að arður af nýtingu auðlindarinnar skili sér til þjóðarbúsins. Að settar verið leikreglur þar sem öllum er gert jafnhátt undir höfði og eðlileg endurnýjun geti átt sér stað. Að hér verði ekki til frambúðar leiguliðar sægreifa , sem litla eða enga möguleika hafa. Hér á að ríkja jafnræði. Því verður best náð með að hagsmunaðilarnir setjist niður og finni leiðina saman, í stað heilsíðuauglýsinga í Viðskiptablaðinu um að hér fari allt á versta veg verði breytingar gerðar. Því það vita jafnvel kvótakóngarnir í LÍÚ að svo er ekki. Þeir ættu að setjast við borðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Facebook
Athugasemdir
Það sem menn hafa einu sinni sölsað undir sig eru þeir mjög ófúsir að afhenda tilbaka. Þannig er það bara, því miður. Engin rök duga til að breyta þessu.
Úrsúla Jünemann, 11.3.2010 kl. 11:22
Þeir vita sem er að þeir geta aldrei unnið þetta mál, þessvegna snýst baráttan um að kúga fé út úr ríkistjórninni í formi bóta eða óbeinna endurkaupa kvótans af þeim, þótt þeir eigi hann raunar ekki og hafi aldrei átt. Þetta mun verða ljósara þegar á líður og þeir missa sig. Sá áróðursplakat frá LÍÚ, með svarthvítri mynd af krossi í þoku upp á heiðum. Sannkallaður heimsendaspádómur. Þeir ofselja sig svo sem fórnarlömb að það er hreinn brandari. Þeir em eiga mesta sökina á hvernig komið er vegna ábyrgðarleysis síns og yfirveðsetninga eru nú að mála ímynd sína sem sveltandi barns í Eþíópíu. Í ofanálag hóta þeir efnahagslegum hryðjuverkum ef þeir verða ekki látnir í friði. Það ætti raunar að taka þetta af þeim í einu lagi með einu pennastriki á morgun.
Þár er bara að skrá sig enn og aftur í aðra collektíva baráttuherferð hjá Þjóðareign að þessu sinni. Byltingin er ekki búin. Hún er rétt að byrja.
Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2010 kl. 21:43
Það er þjóðaríþrótt að níða niður útgerðarfyrirtæki. Sá sem tvinnar saman mergjuðustu lýsinguna á því hvað stjórnendur þessara fyrirtækja eru lævísir og djöfullega undirförlir eru bestir.
Snorri Hansson, 12.3.2010 kl. 00:45
Snorri hefur spammað þessu kommenti sínu á alla sem voga sér að mæla með fyrningarleiðinni. Hann er einn um það raunar, sem segir jú allt um málstað hans.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.3.2010 kl. 16:54
Inn á bloggið hans hafa komið 4 síðustu viku og er ég einn þeirra. Greinilega rífandi meðbyr á þeim bæ.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.3.2010 kl. 16:57
Það er rétt hjá þér eg hef ekki bloggað lengi. Það sem þú stundar er atvinnurógur sem ég hef fyrirlitningu á. Er þín skoðun, skoðun þjóðarinnar? Nýtur þjóðin ekki auðæfana? Á hverju lifir hún? Ég hélt að það væri 1. Fiskveiðar 2.Álvinnsla 3.Ferðamenn og síðan allt annað.
Það segir sig sjálft að þegar atvinnuvegi er ógnað,þá hætta fyrirtækin að fjárfesta dýru viðhaldi og tækjakaupum.Viðhald,tækjakaup og endurnýjun skipa er algerlega nauðsinlegt fyrir greinina og þar með þjóðina. Flestar aðrar þjóðir þurfa að styrkja sínar útgerðir. Okkar græða,og það er einmitt það sem við þurfum.
Snorri Hansson, 16.3.2010 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.