Dansað í Bermúdaskyrtu vel við skál.

 

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar hefur kallað yfir okkur ýmis vandamál sem enn ekki er séð fyrir endann á.  Hugmyndafræði sem fyrst og fremst gekk út á taumlausa græðgi þeirra sem hana aðhylltust. Hugmyndafræði sem gekk út á að sópa eins miklu af eigum samfélagsins sem mögulegt var  í hendur einkavinanna. Hún hafði ekkert með einkaframtak að gera heldur vann frekar á móti því, með því að drepa helst allt sem kallast gat samkeppni við frjálshyggjupostulana niður svo fljótt sem auðið var. Eða gera samkeppnisaðilana að leiguliðum þeirra er réðu hverjum markaði.

Mörg voru þau rök og frasar sem frjálshyggjupostularnir köstuðu fram þegar þeir fundu nýja óplægða akra í opinbera kerfinu. Samkeppnissjónarmið, áhættufjárfestingar, hagræði  og  hagkvæmni stærðarinnar var kastað  fram í tíma og ótíma, þegar hinar ýmsu opinberu eignir runnu inní veldi útrásarvíkinganna. Nú er það okkar að vinda ofan af þeirri svikamyllu allri.

Þeim var ekkert heilagt. Allt var lagt undir. Þeim sem falið hafði verið að gæta hagsmuna þjóðarinnar, og sátu á gullkistunni dönsuðu með í sinum Bermúdaskyrtum  að því er virðist vel við skál. Og sendu síðan vinum sínum úr veislunni ástarbréf án frímerkja. Þeir sáu hvert stefndi en gerðu ekkert í því fyrr en alltof seint. Og þá gerðu þeir lítið. Reyndu að redda eigin skinni.

Allt var sett á sölu þar sem frjálshyggjuguttunum hafði tekist að koma sér fyrir. Nýir tímar voru í uppsiglingu. Nú skyldi þjóðin leyst undan því oki að eiga  auðlindir sínar og vinnslu , því þar var áhættan of mikil. Eignir bæjarfélaganna voru seldar, það var hagkvæmt og hagræði í því sökum stærðarinnar. Allt var þetta betur komið í höndunum á einkaaðilum. Sem að vísu höfðu ekkert annað til lagt en að hafa góðan aðgang að  „ódýru"erlendu lánsfjármangni  í gegnum banka þá er þeim hafði áður verið úthlutað. Það fjármagn  er orðið okkur og þeim er fyrir þessu stóðu dýrt í dag.

Við höfum á undaförnum mánuðum séð hvernig mörgum þeim er mötuðu krókinn hafa fengið endurúthlutað gæðunum, skuldir verið afskrifaðar, en mörg  fyrirtæki og jafnvel sveitarfélög verið tekin til gjaldþrotaskipta. Og áfram mun það halda. Fyrirtæki sem urðu til sökum aðgengis að „ódýru" fjármagni  riða nú til falls. Sökum þess að það var tekið of mikið að láni. Við skulum vona að afleiðingar þeirra viðskiptahátta  komi ekki of þungt niður á þeim sem síst skyldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Góðan daginn!

Sá maður sem byggir hús með gluggum ætlast til þess að með því móti verði bjartara inni hjá honum en ella.

Hann tekur líka áhættu með því: það eru fleiri leiðir inn í húsið fyrir þá sem ætla að ræna hann.

Hvað menn athugi.

Flosi Kristjánsson, 13.3.2010 kl. 09:35

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Hannes,

ætli sé ekki við hæfi að ég byrji á því að segja að ég sé frjálshyggjumaður ... af gamla skólanum nóta bene. Í mínum huga er þessi útlistun þín nokkuð klén og á köflum alröng. Þó er að finna innan hennar sannleikskorn, sem vert er að hafa í huga, sbr. að ýmsum hafi fátt verið heilagt í auðleit sinni, að einkavæðingarferlið stjórnaðist af hugmyndum frjálshyggjunnar o.s.frv.

Á nítjándu öld vöruðu helstu frjálshyggjupostular þess tíma eindregið við því að gefa bankastarfsemi og bankamönnum lausan tauminn. Þrátt fyrir frelsisást þeirra og vantrú á að hið opinbera ætti að taka fram fyrir hendur einstaklinga áttuðu þeir sig á misjöfnu eðli mannsins - nema hvað. Þeim var í mun að setja einfaldan lagaramma um mannanna verk en hafa hann sterkan. Til þess gert að vernda einstaklinginn fyrir ágangi sér sterkari aðila og alls kyns órétti en tryggja honum jafnframt frelsi til orðs og æðis. Það er á þessum grunni sem lýðræði Vesturlanda er að miklu byggt, þ.e. frjálshyggju. Að reyna að afneita henni er eins og að afneita hluta af sjálfum sér; sögunni, arfleifð okkar daga.

Af því að stjórnmálahugmyndir okkar blandast af frjálshyggju og félagshyggju (ásamt með öðru kryddi) í einhvreju hlutföllum sem hugnast okkur og fær okkur til þess að halla okkur í aðra hvora áttina, vill stundum gleymast að fáir, ef nokkrir, vilja aðra hvora hyggjuna í einhvers konar hreinni mynd. Slíkar tilraunir kalla yfir okkur óáran og þó svo að sú rauðlitari sé mannskæðari er það ekki ástæða fyrir því að menn skyldu ekki óttast öfgar hinum megin frá.

Sem sagt, ég er frjálshyggjumaður og get ekki annað. Það er eitur í mínum beinum að setja hömlur á athafnir mínar, að ekki sé nú talað um rétt minn til þess að tjá mig. Svo fremi það skaði ekki aðra. Þetta kemur allt úr smiðju frjálshyggjunnar og er fremur ný hugsun í mannkynssögunni. Félagshyggjan á sér í raun eldri rætur, sé litið til stjórnskipunar. Frjálshyggja fyrri tíma hvílir einna helst á verslunarrétti, sem þó var oft bundinn á klafa útdeilds eða keypts einkaréttar svo víða (sbr. Íslandsverslun) - allt eftir hagsmunum hins miðlæga konungsvalds eða lénsveldis.

Gegn þessu beindist hugmyndafræði frjálshyggjunnar, þ.e. gegn forréttindum og hinu miðlæga valdi. Það var t.d. ekki keppikefli postula félagshyggjunnar að feta þá braut, svo því sé nú haldið til haga. Í raun er það nú svo á okkar dögum, að ýmsir svo kallaðir jafnaðarmenn myndu í sumum málum hafa verið stimplaðir frjálshyggjumenn á árum áður. Reyndar er þetta svo nálægt okkur í tímanum að stjórnmálaskoðanir jafnaðarmanna um Evrópu alla má í dag líkja við áherslur s.k. hægri flokka fyrir örfáum áratugum - í flestum málum.

Frjálshyggjan hefur sem betur fer haft vinninginn á mörgum sviðum, enda er hún okkur í blóð borin. Menn skyldu þó ávallt varast versta eðli mannsins, ekki ósvipað og þegar félagshyggjumenn vilja sópa að sér völdum í krafti all þess góða sem þeir vilja gera en gleyma því að valdið spillir góðum fyrirætlunum - og skapar skrímsli af ýmsu tagi, bæði sósíalísk og fasísk. 

Hér á landi gleymdu menn sér á ýmsum sviðum, sumpart hrifnir af sjálfum sér en einnig vegna þess að svo kallaðir frjálshyggjupostular - sem fengu of mikil völd; sem þeir líkt og allir, sem fá of mikil völd, misbeittu -  voru að fást við nýja hluti í hafsjó nýfengins frelsi á svo mörgum sviðum og á hinu stóra sviði alþjóða viðskipta. Ef menn horfa framhjá þessu eru menn vísvitandi að fara með rangt mál - eða eru svona einfaldir. Hvort er verra, veit ég ekki.

Þó svo að hugmyndir okkar séu ekki eins um suma hluti, t.d. hvernig við skilgreinum ýmsa viðleitni og hegðun mannsins (sbr. græðgi) þá er klárt í mínum huga að frjálshyggjumaður vill í lengstu lög forðast að setja lagaleg bönd á hegðun mannsins. Félagshyggjumaður er í sporum þess sem vill setja belti og axlarbönd á "óæskilega" hegðun. Munurinn felst í annars vegar viljanum til þess að setja reglur um hegðun manna og því hvernig hegðun manna er skilgreind (vond, góð eða hvoru tveggja ...).

Í mínum huga voru mestu mistök þeirra sem kenndu sig við frjálshyggju að vilja tryggja völd sín með óeðlilegum hætti - í andstöðu við þá hugmyndafræði, sem var drifkraftur þeirra út í pólitík, ásamt með persónulegum metnaði - en hann einskorðast nú ekki við stjórnmálastefnur. Þrátt fyrir að þeir hafi gert margar heiðarlegar tilraunir til þess að færa vald og áhrif út í viðskiptalífið og til einstaklinga og samtaka þeirra, þá var þeim umhugað um að kasta ekki frá sér um of vald og áhrif. 

Það var nauðsynlegt að færa ýmsa atvinnustarfsemi úr höndum stjórnmálamanna, hvort heldur var um að ræða bæjarútgerðir eða annað. Sú hugmynd, að fólk, sem valið er til þess að stýra stjórnmálakerfinu, sé einnig að vasast í atvinnurekstri, jafnvel í bullandi samkeppni við einkarekstur, er galin á svo mörgum sviðum. Það þarf ekki mikla frjálshyggju til þess að vilja ekki vera hluti af slíkri vitleysu. Stór hluti þeirrar spillingar, sem nú er gagnrýnd hvað mest, hvílir sumpart á þessum grunni, þegar stjórnmálamenn deildu út réttindum og áhrifum í skjóli þeirra fyrirtækja sem þeir stýrðu. Enn í dag sjást merki um spillingu af þessu tagi í þeim fyrirtækjum, sem jafnvel hefur verið sæmileg sátt um, að hafa í eigu almannavaldsins, sbr. orkuveitu Reykjavíkur.

Vandinn er ekki að færa ýmsan rekstur í hendur einkaaðilium. Vandinn liggur í þeirri lagaumgjörð sem sett er um starfsemina og sérílagi þeim ábyrgðum sem frelsi hinna nýju fyrirtækja hvílir á. Hinn eflaust góði ásetningur að baki svo kallaðri einkavæðingu drukknar að nokkru í þeim mistökum sem voru gerð við einkavæðinguna, þeirri tiltrú sem menn höfðu á regluverkinu sem okkur var rétt frá Brussel og reyndar umheiminum öllum. Menn geta kallað þetta mistök ný-frjálshyggjunnar og er það reyndar vel. En að það eigi til frambúðar að rýra gildi frjálshyggjunnar, þeirrar hugsunar að menn hafi frelsi til orðs og æðis, er einnig galin hugsun. Alla vega í mínum huga.

Ólafur Als, 13.3.2010 kl. 13:31

3 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Ólafur

Gott innlegg og greinilegt að skoðanir okkar fara að miklu leyti saman, þó ég hafi nú kannski ekki verið að fara í greininguna á frjálshyggunni og félagshyggjunni, en auðvitað hefði ég átt að undirstrika þetta betur með nýfrjálshyggjuna sem er grunnurinn af stöðu okkar í dag.

kv Hannes

Hannes Friðriksson , 13.3.2010 kl. 14:48

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Skoðanaskipti á rólegum nótum er gott blogg. Bæði færsla og athugaemdir hér eru áhugaverðar.

Finnur Bárðarson, 13.3.2010 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.