Vonum að kröfuhafinn verði mildur.

 

Kreppan hefur dregið úr mörgu því sem við gerðum áður. Ferðalögin um landið eru orðin færri og möguleikar manns til að fylgjast  með, felast einna helst í ferðalagi á vefnum . Fletta á vefnum  staðarblöðunum á hverjum stað og sjá hvað er að gerast. Það gerði ég nú í morgunsárið og sá að eitthvað merkilegt var að gerast á Fljótsdalshéraði. Mér fannst það merkilegt, þó ég hafi nú ekkert séð um það í fjölmiðlum þeim  sem helst flytja fréttir úr miðbæ Reykjavíkur. Þó þar sé  uppspretta þessarar fréttar að austan .

Það sem þarna vekur kannski mesta athygli mína að  því samstarfi sem nýlega í gullbrydduðum bæklingi Fasteignar  var lýst sem hinu besta í heimi, er nú lokið. Og að einn stærsti eigandinn í Fasteign er sá sem  nú  hjálpar Fljótsdalshéraði að komast út úr því samstarfi með fjármögnunarsamningi. Kannski var þetta ekki eins sniðugt og talað var um í bæklingnum.

Það virðist vera ljóst skv. umfjöllun Morgunblaðsins  um skuldastöðu sveitarfélaganna að þau tvö sem verst eru stödd , og fóru yfir á eldrauðu ljósi eiga eitt sameiginlegt. Þau voru bestu viðkiptavinir þessa  eignarhaldsfélags.  Í þeim bæjarfélögum var eytt í góðærinu eins og enginn væri morgundagurinn. Og nú þarf að skera niður  allt það  sem áður átti að laða íbúa að. Álftanes er nánast gjaldþrota, og Reykjanesbær virðist því miður vera á sömu leið. Capacent skýrslan sem Reykjanesbær fékk samda sér til bjargar, hefur því miður hingað til reynst án innistæðu. Byggð á sandi.

Hvað gerist með skuldir eignarhaldsfélagsins Fasteignar virðist  vera á huldu.  Þegar hefur komið fram að Háskólinn í Reykjavík getur ekki undir núverandi kringumstæðum greitt þá leigu sem í upphafi var krafist. Og fengið hana lækkaða. Álftanes getur heldur ekki staðið undir skuldbindingunni, og Vestmannaeyjabær fengið sína leigu lækkaða um ca 30%. En lánin hvíla enn á félaginu, nema þau hafi að einhverju leyti verið afskrifuð, en ljóst að kröfuhafinn  ræður núna för. Hvað hann gerir eða vill mun í framtíðinni hafa mikil áhrif á þau sveitarfélög sem í netinu flæktust. Vonum að hann verði mildur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband