Ljúft er að láta sig dreyma.(notkun draumstauta).


Skýrsla rannsóknarnefndarinnar um ástæður hrunsins var dökk. Mjög dökkur áfellisdómur yfir nánast öllum  þeim er um var fjallað. Reiðin og vandlætingin kraumar í hugum okkar og við krefjumst að menn taki ábyrgð á gjörðum sínum. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar um hrun þjóðfélags sem varð sökum hugmyndafræði. Þeirrar hugmyndafræði að eðlilegt og rétt teldist að öllum væri frjálst að skara eld að eigin köku, burtséð frá hver áhrifin yrðu fyrir aðra þá er í kringum þá voru. Reglur þurfti ekki að virða. Hugmyndafræðin var græðgi.

Andvaraleysið var algert, og menn gengu út frá að hver sá gjörningur sem í gangi var, væri óafturkallanlegur. Hið íslenska ofurlögmál væri á ferð, og engin gæti eða mátti gera neitt  til að sporna við þróuninni. Að minnsta kosti ekki fyrr en málið væri komið á borð viðkomandi, sem venjulega var svo seint að ekkert varð að gert. Þeir sem þó reyndu voru úthrópaðir neikvæðir afturhaldseggir. Þeim var hótað að ef létu þeir ekki af afskiptum sínum. þeir myndu þeir hafa verra af.
 
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar að mestu um stjórn landsmálanna, um  tengingu stjórnmála og viðskipta.  Tenginga sem spunnu sinn vef víða. Vefur sem að því er virðist hafa verið ansi þétt spunnin hér í Reykjanesbæ eins og glöggt má sjá af töflum þeim er birtar eru með skýrslunni.  Þar á ég við málefni Hitaveitu Suðurnesja, og þá ákvörðun meirihlutans að ganga í eina sæng með útrásarvíkingunum Hannesi Smárasyni, Bjarna Ármannsyni, og Jóni Ásgeiri Jóhannsesyni  með  þáttöku bæjarins í Geysir Green Energy. Kjörnir hagsmunagæslumenn almennings höfðu þar forgöngu um að koma eigum almennings í hendur útrásarvíkinganna . Þar var enginn vörður staðinn eins og meirihlutinn vil nú láta líta út.

Sú ævintýralega flétta sem þar var spunninn, í nafni einkaframtaks , áhættu og samkeppnissjónarmiða hefur haft sínar afleiðingar, og þar var allt lagt undir í von um skjótfengin gróða síðar meir. Eitt flottasta fyrirtæki landsins var lagt undir, sökum draumfara meirihlutans um að ekkert annað dygði en að losa bæri bæjarfélagið við „áhættuhlut sinn „ í Hitaveitu Suðurnesja. Fyrirtækis sem bæði hafði í gegnum áranna rás skilað eigendum sínum arði,  auk hita og rafmagns á dimmum vetrarkvöldum. Fyrirtæki sem skilaði því sem til var stofnað.

Meirihluti  sjálfstæðismanna opinberuðu í gær með dreifiriti að þeir „eiga sér draum“, og hafa nú í átta ár haft tækifæri til þess að vinna að því að láta þann draum rætast. Draum um heilbrigði, atvinnu fyrir pappa og mömmu og mannlegra samfélag ásamt mörgu því sem flest okkar dreymir um. Meirihluti sjálfstæðismanna  svipað og Þór Magnússon  í kvikmyndinni Nýtt Líf  hafa nú í átta ár hakkað í sig „draumstauta“ í von um að draumfarirnar vísuðu veginn. Steinsofandi hafa þeir selt frá sér flest það sem til bjargar hefði getað orðið, og sett bæjarfélagið á hvínanadi kúpunna. Það virðist vera komin tími til að vekja þá af draumnum, og afmunstra þá af bátnum.  Ljúft er að láta sig dreyma, en einhvern tíma þurfa menn samt að vakna. Sá tími er kominn fyrir íbúa Reykjanebæjar  ef ekki á illa að fara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband