Fimmtudagur, 10. júní 2010
Þjóðin vill breytingar
Menn skyldu ætla að einhver lærdómur hafi verið dreginn af hruni íslenska efnahagskerfisins. Að þörf væri á nýjum vinnubrögðum, og að menn hefðu lært að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir þrönga eiginhagsmuni flokkanna. Að þarfir þjóðarinnar hefðu forgang. Að menn sýndu samstöðu.
Það verður stöðugt ljósara hversu djúpt við höfum sokkið. Og að okkur virðast flestar bjargir bannaðar, eða erfiðar. Ekki vegna aðgerðarleysis ríkistjórnarinnar, eins og hrunflokkarnir vilja halda fram, heldur vegna viljaleysis hrunflokkanna að til að axla þó ekki væri nema smávegis af ábyrgð á því vandamáli sem þeir hafa kallað yfir þjóðina.
Greiðsluvandi heimilanna og ríkisins er mikill. Það dylst engum. Hrunið kallar á uppstokkun á þeim gildum sem leiddu til þess vanda sem nú er við að etja. Að jafnframt því sem fundnar verði lausnir á fjárhagsvanda heimilis og ríkis, verði einnig tekið á leikreglum lýðræðisins. Að menn hafi dug í sér eftir 66 ár að leiðrétta þann hluta stjórnarskrárinnar sem ljóst er að er ekki að virka. Að þjóðin fái þar að koma að. Við það eru sjálfstæðismenn hræddir, og hafa nú sett upp enn eina Morfís keppnina í sölum Alþingis. Þar sem þeir einir eru þátttakendur.
Þingmenn sem á sínum tíma töldu það nauðsynlegasta málið að bjór yrði seldur í matvörubúðum, hanga nú í ræðustól Alþingis og reyna að sannfæra menn um þeir séu bestir til að standa að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Almenningur geti svo bara kosið um tillögur þeirra.
Úrslit sveitarstjórnarkosninganna sýna svo ekki verður á móti mælt að fólk vill breytingar. Og það vill fá að koma að þeim breytingum. Verkamaðurinn, sjómaðurinn, og verkfræðingurinn nenna ekki lengur að hlusta á bullið í langþreyttum stjórnmálamönnum sem misst hafa sambandið við þjóðina og raunveruleikann. Það vill koma á breytingum, sem miðast við að hagur þeirra sé tryggður til framtíðar. Og það veit að þau eru best til að koma sínum sjónarmiðum þar að lútandi á framfæri. Þess vegna vill þjóðin stjórnlagaþing, hvort sem sjálfstæðismönnum likar það betur eða verr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt :-)
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 11:01
Flottur pistill
Úrsúla Jünemann, 11.6.2010 kl. 07:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.