Föstudagur, 11. júní 2010
Vatnalögin og Tryggvi Herbertsson
Holdgervingur nýfrjálshyggjunnar Tryggvi Herbertsson sér ekkert athugavert við að vatnalögin frá 2006 taki gildi um næstkomandi mánaðamót. Það sé grundvallarmunur á hægri og vinstri mönnum hvernig farið skuli með eignaréttinn. Og vísar til Sovétríkjanna sálugu og Austur Þýskalands sem samkvæmt reynslu hans eiga að sanna að sameign gangi ekki upp. En vill þó ekki ræða hvernig einkaeign á mikilvægum auðlindum hefur reynst annarsstaðar í heiminum. Líti hann sér nær.
Við höfum séð á undanförnum árum hvernig stöndug orkufyrirtæki sem áður voru í almannaeigu hafa horfið yfir móðuna miklu. Til einkaaðila í útlöndum, sem vita ekki einu sinni hvort þeir eiga heima í Svíþjóð eða Kanada. Við höfum enn ekki séð að sú einkavinavæðing hafi orðið til góðs, né heldur að umtalvert fé hafi þess vegna komið inn inn í íslenskt hagkerfi. Íslensk sveitarfélög hafa lánað fyrir kaupunum, og ætlast er til þess að íslenskir sjóðir láni fyrir framkvæmdunum. En arðurinn mun þó fara úr landi. Tryggvi veit hvar eignarétturinn er best niðurkomin.
Kvótakerfið hefur flestum okkar verið þyrnir í augum. Fæst okkar hafa skilið þau sjónarmið frjálshyggjunnar að fáeinum útgerðarmönnum hafi verið afhentur veiðiréttur fisksins í sjónum um ókomin ár . Og þeir aðrir sem áhuga hefðu á að veiða fiskinn gert að leigja veiðiréttinn af þeim sægreifum og kvótakóngum sem sölsað hafa hann undir sig. Hvað þá að mitt í kreppunni skuli það vera talið sjálfsagt að niðurskrifa skuldir útgerðarfyrirtækjanna, á meðan heimilunum blæðir. En það skilur Tryggvi Herbertsson. Því hann veit hvernig á fara með eignaréttinn.
Tryggvi Þór telur sig hafa fundið ný rök og fyrirmyndir sem styðji mál sitt. Sovétríkin og Austur Þýskaland eru nú viðmið hans. Bæði þessi ríki liðu undir lok. Sökum misskiptingar. Fólkið í löndunum þoldi ekki til lengdar þá misskiptingu sem varð þegar fáum útvöldum voru skömmtuð gæði , sem sannanlega voru sameign þjóðarinnar. Er það svo mikið öðruvísi hér?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Athugasemdir
Sæll, ég verð nú bara að segja að ekki auka þessi ummæli Tryggva tiltrú mína á hans hagfræði og þá sér í lagi þegar hann rökstyður mál sitt með vísan í gamla Sovét. Enn eitt dæmi um frasa og fyrirslátt á kostnað málefnalegrar umræðu sem t.d. hefur einkennt störf Alþingis undanfarna daga.
kv, Geir
Geir Guðjónsson, 12.6.2010 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.