"Við lentum bara í þessu"

 

Ég held að við höfum öll alið okkur þá von í brjósti við síðustu kosningar að kominn væri tími breytinga. Að velferð og hagsmunir borgaranna yrðu nú sett í fyrsta sæti , og sérhagsmunir fárra yrðu látnir víkja í því sem við þá vildum kalla „Hið nýja  Ísland.  Ég held líka að við höfum öll vitað að nýtt upphaf yrði erfitt.  Og engin ein lausn sem allir gætu sæst á væri í sjónmáli. En við treystum á að nú yrði reynt.

Við vitum líka að það bú sem núverandi stjórnvöld tóku við var ekki burðugt, eftir rúmlega áratuga tilraunir nýfrjálshyggjunnar til að sölsa sem mest undir sig. Það bú var reyndar rústirnar einar og ekki árennilegt verkefni að reisa hér við efnahag landsins.  Menn voru þó sammála um að megin -  verkefnið væri að styðja við þá sem  mest þurftu á að halda og ljóst væri að í mestum vanda voru eftir hrunið. Það var stór hópur. Sem stækkar enn.

Við höfum nær daglega fengið að fylgjast með fréttum af ýmsum gjörðum skilanefnda bankanna , sem margar hverjar hafa ekki verið hafnar yfir vafa. Og okkur sagt að sum fyrirtæki væri ekki hægt að reka án aðkomu þeirra sem áttu þau áður, en voru þó  einnig aðaleikarar hrunsins. Við höfum nú síðustu daga einnig séð og heyrt  fréttir af rótgrónum fyrirtækjum, sem þurft hafa að stöðva rekstur sinn sökum þess að núverandi eigendur væru óæskilegir eigendur. Bankarnir fara sínar eigin leiðir á þá verður ekki komið böndum.

Við bundum vonir við „Skjaldborgina" sem stjórnvöld lofuðu að yrði byggð í kringum fólkið í landinu. Það hafa verið settir upp steinar og stuttir veggstubbar sem hafa átt að hindra áhlaup græðginnar á heimili venjulegs fólks, en ljóst er að varnirnar eru í molum. Fjöldi fólks hefur þegar misst heimili sín, og þúsundir bíða eftir því bankað verði á dyr og þeim tilkynnt að nú sé röðin komin að því. Umboðsmaður skuldara leggur til að verkamannabústaðakerfið verði endurvakið.

„Við  lentum bara í þessu" sagði drukkinn ökumaður sem sem velt hafði bíl sínum og stórskaðað samferðamenn sína  sem vissu jafnframt  að ábyrgðin var einnig þeirra. Þeir höfðu leyft honum að keyra drukknum þrátt fyrir að vita um hættuna. Rannsóknarskýrslan segir okkur að vitað hafi verið um hættuna  um hrunið. Seðlabankastjóri, og oddvitar flokkanna sem sátu í ríkistjórn vissu um hættuna, en völdu að láta sem fæsta vita. „ Þeir lentu bara í þessu"

Vonin er tekin að veikjast , breytingarnar sem boðaðar hafa verið  láta bíða eftir sér. Pólitíkin er söm við sig og lítið hefur breyst. Flest gerum við okkur grein fyrir að framundan er erfiður vetur.  Þau grið sem hinum almenna borgara hefur verið gefin er brátt á enda. Framundan er fimbulvetur fyrir fjölda fólks sem nú sér fram á að missa heimili sín endanlega. Það stendur upp á þá stjórnmálamenn sem lofað höfðu breytingum og skjaldborgum að bretta upp ermarnar og beina athyglinni að því sem skiptir máli. Velferð borgaranna í þessu landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Hannes, þetta fólk lifir í einhverjum öðrum heimi en við.

Aðalsteinn Agnarsson, 28.9.2010 kl. 13:06

2 identicon

Þessi pistill er eins og talaður útúr mínu hjarta.

 Takk fyrir.

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband