Frábært kúttmagakvöld

 

Eyjólfur vinur minn bauð mér á föstudaginn á Kúttmagakvöld hjá Lionsklúbbnum sínum. Prófaði í fyrsta sinn á ævinni kúttmaga, alveg frábær matur. Kom mér á óvart.  En það sem kom mér samt mest á óvart var loðnan, sem var sannkallað sælgæti.  Hef þó enn ekki komist að því hvernig hún var elduð. Tók eftir að flestir félagarnir í klúbbnum voru komnir yfir miðjan aldur, en það vantaði ekkert upp á kraftinn í köllunum og höfðu þeir greinilega haft mikið fyrir að útbúa kúttmagana sjálfir.

Eitthvað fór ég að hugsa um hve miklu svona klúbbar hefðu fengið áorkað fyrir samfélagið í áranna rás, og stutt mörg góð mál.  Ég hafði orð á þessu við sessunauta mína og allir voru sammála um að hefði slíkra klúbba ekki notið við, væri staða ekki okkar jafngóð í dag og raun ber vitni. Þessum klúbbum eigum við mikið að þakka og öllu því óeigingjarna starfi sem þar hefur verið unnið.

Ég fór að velta því fyrir mér þegar ég kom heim, hve hlutirnir hefðu breyst á fáum áratugum.  Það er ekki svo langt síðan að auðvelt var að fá menn til að taka þátt í slíku starfi sem bæði Kiwanis og Lions er.  Nú er eftir því sem manni skilst vandamál að fá menn á miðjum aldri til þess að taka þátt í slíkum klúbbum og bera menn við tímaskorti.  Hraði þjóðfélagsins og kröfur eru svo miklar að menn komast ekki yfir að taka þátt í svona starfi meðfram öðru sem sinna þarf.

Ég komst nú samt að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að hafa nóg á minni könnu þá væri nú spennandi kostur að taka þátt í slíku starfi byðist manni það.  Það er ekki bara að þannig gæti maður látið eitthvað gott af sér leiða, heldur lika hitt sá félagsskapur sem þarna er.  Þarna var kominn saman hópur af mönnum á besta aldri og allir sem ég talaði við virtust kunna óteljandi sögur af mönnum og málefnum á svæðinu og skemmtu sér vel við að segja þær.  Um leið og þeir skemmtu sér og öðrum voru þeir líka að láta gott af sér leiða.  Þessum mönnum og konum verður seint þakkað það óeigingjarna starf sem þeir hafa unnið fyrir samfélag sitt.

Það eru þessir menn sem eru  sómi Íslands sverð og skjöldur.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann S Kristbergsson

Þarna er ég þér sammála, þ.e. að menn gefa sér ekki tíma til að njóta og einnig að gefa af sér. Hraði og samkeppni um  að hafa það svo gott er orðin svo ríkandi í þessu landi og það á kosnað tímans, við fórnum of miklum tíma í veraldlegan hugsunargang en gleymum mannlega þættinum.

Jóhann S Kristbergsson, 3.3.2008 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.