Mánudagur, 17. mars 2008
Er nokkuð verið að gleyma okkur?
Undanfarna daga hafa heilbrigðismál í landinu orðið æ meir áberandi í umræðunni og fyrir okkur íbúa Suðurnesja hefur sú umræða hjá mörgum tengst umræðunni um hugsanlegan niðurskurð hjá Lögreglustjóraemættinu hér á Suðurnesjum. Það er ekkert skrýtið því í raun er þarna um tvö mál af sama meiði,og snúa bæði að þeirri lögbundnu þjónustu sem ríkinu er ætlað að veita öllum landsmönnum óháð efnahag,stöðu,eða búsetu. Í báðum tilfellum er um þjónustu sem nauðsynleg er til þess að þjóðfélag það sem við búum í fái að þróast á eðlilegan og sanngjarnan hátt þannig að allir bæði hinir smæstu og stærstu fái notið sín. Öll erum við hvert á sinn hátt notendur þessarar þjónustu, og sameiginlega greiðum við fyrir hana í formi skatta. Sú umræða sem nú á sér stað byggir að miklu leyti á þeirri staðreynd að í ljós er að koma,en reyndar allir hafa vitað í fjölda ára að aðferðafræði sú sem beitt er við gerð fjárlaga ár hvert er ekki í samræmi við hinn raunverulega kostnað þessara verkefna,heldur byggir fyrst og fremst á óskhyggju þeirra er setja fjárlögin fram hverju sinni. Grunnurinn þ.e löggæsla,heilbrigðis,og menntamál hafa þurft að víkja svo önnur áhugamál valdhafanna hverju sinni,nái fram að ganga. Auðvitað er það gott og nauðsynlegt að reyna eins og mögulegt er að halda opinberum kostnaði niðri á sem flestum sviðum eins mögulegt er,en jafnframt nauðsynlegt að menn láti af öllu ofstæki og hafi skynseminna að leiðarljósi við það verk. Það er greinilegt af allri umræðu um þessi mál,að bæði heilbrigðisþjónustan og löggæslan eru nú þegar orðin svo þrælpínd af þessum sparnaðaraðgerðum að þjónustan,svo ég tali nú ekki um starfsfólkið er tekið að líða fyrir.Við getum ekki vænst þess að þjónusta þessara aðila verði í lagi fyrr en við viðurkennum þann kostnað sem að baki er.Það þýðir ekki að senda t.d lögreglumenn í útkall á Vík í Mýrdal,en afhenda þeim aðeins pening fyrir bensíni til Selfoss ef farið er frá Reykjavík. Fyrir okkur íbúa á Suðurnesjum skiptir þessi umræða mjög miklu máli,hvort heldur það er umræðan um heilbrigðismál eða löggæsluna og mikilvægt að okkar sjónarmið komi þar sterkt fram, því ljóst er að um hvorn heldur málaflokkinn er rætt þá berum við þar skertan hlut frá borði. Því verðum við að breyta því ljóst er að enginn annar gerir það fyrir okkur. Hér verðum við að kalla alla okkar þingmenn, og sveitarstjórnarmenn fram til ábyrgðar og snúa þessu máli þannig að við sitjum að minnsta kosti við sama borð og aðrir landsmenn. Það er ljóst ef maður flettir í fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar fyrir árið 2008 að framlög til heilsugæslu á Suðurnesjum eru þau lægstu ef tillit er tekið til landsins alls. Og svo hefur verið nokkuð lengi. Það er líka ljóst að þrátt fyrir stöðuga aukningu íbúa og stóraukna umferð um Keflavíkurflugvöll að framlög ríkisins til lög og tollgæslu hafa ekki tekið mið af því,heldur hefur lögreglumönnum sem sinna eiga Suðurnesjum öllum fækkað um 20 frá því að lögregluliðin á Keflavíkurflugvelli og í Reykjanesbæ voru sameinuð og boðaður er frekari niðurskurður nú í ár. Á þetta getum við Suðurnesjamenn alls ekki fallist og eigum því að blása til sóknar svo í okkur heyrist.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.