Þarf ég að hafa áhyggjur?

Ég hef undanfarna daga leyft mér þann munað að þræða bloggheimana, fylgst með umræðunni og leyft mér að hafa skoðanir á þeim málum sem mér hafa þótt áhugaverð. Þau eru mörg. það hefur mér þó orðið umhugsunarefni í hve mörgum málum ég hef þurft að hafa skoðanir öndvert við aðra félaga mína í Sjálfstæðisflokknum. Ekki vegna skoðana þeirra heldur vegna skoðanaleysis.  Það er mér áhyggjuefni.

Á sama tíma og efnahagskreppa gengur yfir landið og allur almenningur hefur þungar áhyggjur af afkomu sinni, þá líða margir dagar þar til ráðherrar okkar skríða út úr hýðum sínum, og þeirra eina skoðun er sú að fara beri varlega og enginn ástæða til að aðhafast nokkuð.  En enginn þeirra sér ástæðu til að taka sér stöðu með fólkinu í landinu og til dæmis láta sér detta eitthvað í hug sem linað gæti þetta ástand t.d lækka álögur ríkisins á ýmsum aðfluttum vörum svo sem bensíni og fleiru. Stétt með stétt.. slagorðið sem einu sinni var, en heyrist ekki lengur.

Í umræðu um t.d aðildarumræður að Evrópusambandinu virðist svo vera að enginn þori að opna á sér munninn fyrr en nú að Björn Bjarnasson kemur og opnar umræðuna. Auðvitað eigum við ekki að vera svo aum að leyfa okkur ekki þann munað að taka þessa umræðu, og þá verðum við að koma okkur út úr þeirri stöðu að ræða málið út frá einhverjum ímynduðum hagsmunum sérhagsmunaaðila heldur verðum við að gera það breitt út frá hagsmunum þjóðarinnar allrar.

Ég hef talað um einkvæðingar stefnu fyrrverandi ríkistjórnar og hvernig hefur t.d farið fyrir sölu ríkisins á 15% hlut ríkisins á Hitaveitu Suðurnesja og hvernig bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ klúðruðu því máli með því að taka sér stöðu með fjárfestinum í staðinn fyrir að hugsa um hag heildarinnar. Það góða fyrirtæki var eyðilagt vegna þess að misvitrir stjórnmálamenn misskildu hlutverk sitt.

Það er auðvitað umhugsunarefni hversvegna miðaldra maður á Suðurnesjum er að hafa áhyggjur og skoðanir á málum eins og þessum. Þetta eiga að vera verkefni stjórnmálamannanna, og ættu að vera svo vel leyst að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af þeim.

Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur þó einhver verðbréfagutti velji að kaupa einhver bréf í útlöndum, að það komi til með að hafa áhrif á sumarleyfið mitt.

 Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort bæjarstjórinn minn einkavæði bestu eignir bæjarins án þess að bera það undir bæjarbúa.

Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur yfir því hvort ríkistjórn landsins grípi inn  í þegar illa árar.

Og ég á alls ekki að þurfa að hafa áhyggjur yfir því hvort kjörnir fulltrúar þjóðarinnar þori ekki að hafa skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.