Laugardagur, 19. apríl 2008
Opinber rekstur og áhættufjárfesting fer ekki saman.
Ég get ekki betur séð, þegar ég les viðtal við Gísla Martein Baldursson í Mbl í dag að hann sé algerlega sammála mér, og mörgum öðrum að áhætturekstur sé ekki hlutverk opinberra aðila og það sé óásættanlegt að þeir taki þátt í slíku. Þetta er sjálfstæðismennska sem mér líkar. Það er löngu tímabært að ganga í það að vinda ofan af málefnum REI, og það verður að gera þannig að borgarbúar í Reykjavík beri ekki skaða af. Þetta er, skilji ég málið rétt, sanngjörn tilraun til þess.
Menn geta ekki haldið áfram fram í rauðan dauðann að velta sér upp úr áðurgerðum hlutum og láta hagsmuni borgarbúa í Reykjavík gjalda þess eingöngu til að viðhalda pólitískum ágreiningsefnum. Það er ljóst að einhvern tímann verða menn að höggva á hnútinn og leysa málið. REI hefur greinilega tekið á sig áhættuskuldbindingu, sem eðlilegt er að losa hana út úr.
Það er ljóst að þeir samningar sem þarna voru komnir af stað, hafa haft aðdraganda og líka ljóst að hefðu þeir ekki verið gerðir og gengið frá þeim hefði REI borið skaða af því. Og þar með borgarbúar. Nú geta menn haft mismunandi skoðanir hvort hér hafi verið um þróunarverkefni eða eitthvað annað, en vandinn liggur í að áhætta var tekin og úr henni þarf að losna.
Það þarfa að losa Reykvíkinga við áframhaldandi óvissu, ósátt og pólitískar deilur um málefni REI og orkuveitunnar. Þarna kemur fram tillaga sem gæti gert það og slegið föstu í eitt skipti fyrir öll að áhættuviðskipti og opinber rekstur fer ekki saman. Því finnst mér rétt að selja slík verkefni út úr opinbera rekstrinum, því ekki er rétt að gefa þau.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.