Sunnudagur, 20. apríl 2008
Hvað er líkt með Róm og Reykjanesbæ?
Allar leiðir liggja til Róm, nú eða Reykjanesbæjar kom mér í hug í gær þegar ég fékk í gær tækifæri til að sitja málþing um endurbyggingu Keflavíkurkirkju. Og hversvegna datt mér það nú það í hug undir miðjum fyrirlestri lærðra manna, þar sem farið var yfir þróun kirkjubygginga á Íslandi. Jú í ljós kom að kórinn í kirkjubyggingu okkar Keflvíkinga liggur í sömu stefnu og Péturskirkjunni í Róm. Hvort það sé eitthvað meira í Reykjanesbæ sem minnir á Róm, skal ég ósagt látið.
Að öllu gamni slepptu þá þá finnst mér sú aðferðarfræði sem safnaðarnefnd kirkjunnar hefur valið til að hefja umræðu um endurbyggingar sjálfrar kirkjunnar til fyrirmyndar. Það að kalla til málþings um framkvæmdina og leyfa safnaðarmeðlimum að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd og þannig hafa áhrif finnst mér til fyrirmyndar og í raun forsenda að vel takist til. Í framhaldinu skiptir því máli að safnaðarmeðlimir og bæjarbúar láti í sér heyra þannig að allir verði sáttir við niðurstöðuna.
Það er ljóst að kirkjubyggingin þarfnast gagngers viðhalds að innann, enda liðnir áratugir síðan síðast var þar tekið til hendinni. Það þarf að færa hana til þeirrar virðingar sem hún á skilið í samfélagi okkar. Einn liður í því er að lagfæra aðkomuna að henni. þannig að hún fái það forsæti sem hún á skilið. Ég reifaði þá hugmynd í vinnuhópi hvort ekki væri rétt að undirstrika tengsl kirkjunnar við hafið,og sjósókn fyrri tíma með því að byggja nýtt og fallegt torg framan við kirkjuna og láta að komuna að henni vera frá Hafnargötu, þar með væri hún kominn í alfaraleið og tenginginn við hafið væri augljós.
Það er ljóst að kirkjubyggingin sem er byggð sem krosskirkja er með fallegri kirkjubyggingum á Íslandi og því þarf að vanda vel til þeirrar endurnýjunar sem fyrirhuguð er, og við getum séð hvernig til hefur tekist með endurbyggingu Hafnarfjarðarkirkju. Þar var vel að verki staðið. Innrétting sú sem nú er í kirkjunni er barn síns tíma og í raun ekki vert að vera að halda í hana á nokkurn hátt. Í raun finnst mér að það eina sem er þarna inni sem vert er að halda í eru hinir steindu gluggar sem gefa rýminu hátíðlegan blæ. Að vísu kemur á móti að ljósmagn inni í kirkjunni er lítið fyrir vikið, en ætti að vera hægt að leysa það með vel útfærðri raflýsingu innan dyra. Sjálf altarimyndin á að fá þann sess sem hún á skilið og löngu orðið tímabært að hengja hana upp á vegginn. Auðvitað er það svo og það er í raun það sem verður hvað vandmeðfarnast við slíka uppbyggingu að margir af þeim munum og hluti innréttinga eru ef til vill minningargjafir allskonar til kirkjunnar því nauðsynlegt að gæta fyllstu varkárni og virðingar hvað þá hluti varðar, er kemur að sjálfri endurbyggingunni.
Vinni safnaðarnefndin áframhaldið á þennan hátt, þá getur maður verið nokkuð viss um að vel til tekst með endurbygginguna. þarna er vel að verki staðið. Til hamingju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Facebook
Athugasemdir
Skúli S. Ólafsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 21:38
Blessaður Skúli
þakka þér fyrir þetta. Ég tel að það sem er að rugla afstöðu fólks til þessara steindu glugga, sé sjálft rýmið í kringum þá en ekki gluggarnir sjálfir. Þiljurnar og gólfefnin ásamt áklæðinu á bekkjunum taka mikið af athygli okkar þegar inn í kirkjuna er komið og maður er neyddur til að taka afstöðu til margra hluta í einu. Ég prófaði í messunni í morgun að setja hendurnar fyrir þannig að ég sá ekki neðri hluta kirkjunnar þ.e bekki teppi og þiljur, og prófaði þannig að upplifa aðeins efri hluta rýmisins, og ég get sagt þér að það var bara mjög ásættanleg sjón. Ég held að menn ættu að prófa að ýminda sér sjálfa veggfletina hvíta og hreina , lausa við þiljur og jafnvel að komnir séu einhverjir kastarar sem gefa ljós á vegginna þá ætti sú mynd að vera góð. Hinsvegar held ég að í raun væri ekki svo galið að fá einhvern til að útbúa góða tölvugrafík af kirkjunni þar sem hægt væri að henda inn hugmyndum með litlum tilkostnaði, þar með yrði umræðan fysisk og menn gætu séð hvað verið væri að tala um í hverju tilfelli. Og þar með yrði til góður hugmyndabanki til að vinna úr endanlega útfærslu.
Hannes Friðriksson , 20.4.2008 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.