Laugardagur, 10. maí 2008
Úreltur tónlistarsmekkur?
Það sannaðist svo sannarlega í gærkvöldi, að þar sem sól er í sinni skiptir ekki máli hvernig viðrar. Ég hélt grillveislu á pallinum heim í gær í grenjandi rigningu framan af. Grillaði sjö lamabalæri fyrir starfsmenn verkfræðistofunnar sem höfðu ákveðið í léttu samráði við mig og frúna að nú væri okkar tími kominn til að hýsa aðalfund starfsmannafélags verkfræðistofunnar. Og ekki í umræðunni að fresta fundi af veðurfarslegum orsökum. Næst þarf ég að halda fundinn eftir 22 ár eða um það leyti sem ég fer á eftirlaun.
Ég ásamt öðrum starfsmanni þurftum að tjalda yfir stóran hluta pallsins til að drukkna ekki í rigningu meðan grillað var, en allt svona vesen gerir hlutina bara skemmtilegri eftir á, ef vel tekst til. Veislan sjálf fór svo fram í bílskúrnum. Granninn sem að vísu er daglegur gestur á verkfræðistofunni, ákvað að verða svolítið fúll á móti og mætti á svæðið um kl 22 undir því yfirskyni að of mikill hávaði bærist úr skúrnum, en vildi raunverulega bara fá að vera með í partíinu sem var auðsótt mál.
Kosið var í hin ýmsu ráð og nefndir og þurfti ég virkilega að berjast fyrir kjöri mínu sem formaður ferðanefndar, þrátt fyrir að enginn annar væri í framboði til þeirrar nefndar. Menn vildu meina að að ég hefði eitthvað misskilið hlutverkið undanfarið ár. Embættið gengi út á að skipuleggja hin ýmsu sameiginleg ferðalög starfsmannna, en markmiðið væri ekki að formaðurinn ferðaðist sem víðast eins síns liðs. Ég hafði greinilega eitthvað misskilið þetta, og var alvarlega áminntur um að breyta um takt hvað þetta varðar.
Auðvitað eru alltaf einhver vandamál sem koma upp þar sem 40 manns koma saman til að skemmta sér og alvarlegasta vandamál gærkvöldsins kom upp skömmu eftir miðnætti, þegar einn starfsmaðurinn sem er töluvert yngri en ég ákvað að tónlistarsmekkur minn væri orðinn úreltur og neitaði að koma inn úr rigningunni fyrr en almennileg tónlist væri komin á. Sumir virðast ekki geta áttað sig á hvenær og hvenær ekki þeir eru í sterkri samningsaðstöðu, né heldur hvenær þeir eigi að gera kröfur. Ég lánaði honum 18 punkta regngalla. Hann hefur ekkert talað meira um tónlistarsmekk minn síðan.
Nei að öllu gamni slepptu þá var þetta náttúrulega enn einn tímamótafundurinn hjá starfsmannafélaginu og öllum til sóma sem þátt tóku. Takk fyrir mig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.