Föstudagur, 16. maí 2008
Bíltúrinn
Vorið er komið með öll sín verkefni, það þarf að mála pallinn, bera á garðhúsgögnin , snyrta beðin , og gott ef ekki að maður þurfi að fara að huga að því að slá garðinn í næstu viku. Mitt í öllu annríkinu dettur svo frúnni í hug að nú sé tími til að fá sér smábíltúr um bæinn og njóta veðurblíðunnar. Reyni að malda í móinn og bendi henni á að þessi verk vinni sig ekki sjálf , en hún segir á móti að þau fari nú ekki neitt þótt ég bregði mér í smá bíltúr.
Við erum búinn að búa hér í bænum í fjögur ár núna í haust , frúin að vísu allt sitt líf að undanskildum sex árum sem við bjuggum í Kópavogi. Vorum í bíltúrnum að velta því fyrir okkur hvað mikið hafði breyst hér á fjórum árum . Hér eru risnar glæsilegar blokkir við sjávarsíðuna, og alveg nýtt hverfi í Innri Njarðvík auk þess sem mikil uppbygging á sér stað núna þessa dagana í Grænáshverfinu. Hafnargatan að vísu farinn að láta ásjá, en það hlýtur að standa til bóta á þessu sumri, annars keyrir maður þar í skurðum í vetur.
Það er náttúrulega alveg frábært að keyra um bæinn og sjá annað slagið útsýnið opnast til norðurs og þá blasir fjallahringurinn við í vorsólinni.
Í okkar huga er það ljóst að það var gott skref að flytja hingað, hér er stöðugt eitthvað að gerast þrátt fyrir áhyggjur mínar hvað varðar fjárhag bæjarfélagsins , og þá stefnu er þar ræður för. Nefndi við frúna hvort ekki væri rétt að kaupa lás og keðju, til að festa rúmið í það minnsta við ofninn, svo bæjaryfirvöld einkavæði það nú ekki líka eins og stefna þeirra hefur verið í öðrum málum að undanförnu. Hún bendir mér á að njóta nú bíltúrsins og hætta þessu þusi um pólitík, og leggur til að við kaupum okkur ís til að kæla mig.
Eitt er það sem mér finnst hafa heppnast hvað best í uppbyggingu bæjarins og kannski það sem maður tekur hvað minnst eftir , sökum þess að sú uppbygging hefur farið að mestu fram innan dyra og það er uppbygging Duus húsa. Þar er að myndast það sem menn geta nefnt alvöru menningar-miðstöð og þeir sem barist hafa fyrir þessari uppbyggingu eiga hrós skilið fyrir sinn þátt í því máli.
Sáum að nú er byrjað að byggja upp glæsilega gangbraut við sjávarsíðuna, þannig að brátt verður hægt að próminaða eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir gera, og njóta útsýnisins til norðurs og miðnætursólarinnar í sumar. Það verður flott. Betra að vera vel varinn hinsvegar í norðanáttinni í vetur, þegar vel gefur yfir garðinn.
Auðvitað er það nú svo, og það skýrist svo vel á svona bíltúr um bæinn að í raun er það sem skapar þægilegt samfélag og góðan bæ, það er fólkið sem þar býr og þeirra innstilling til lífsins. Menn geta tekist á um ýmis mál og hver haft sína skoðun á lausnunum , en í raun eru allir að vinna að sama verkefninu og það er að skapa sér líf sem gaman og gott er að lifa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.