Sunnudagur, 25. maí 2008
Yfirlýsing
Í tölvupósti sem ég fékk fyrir helgi, og hef haft á blogsiðu minni smali.blog.is undanfarið kemur fram að Árni Sigfússon telur að ég hafi ekki kynnt mér málefni Fasteignar til þess að ég geti fullyrt eitt eða neitt um þeirra málefni. Það er rétt hjá honum að ekki hef ég kynnt mér málefni Fasteignar, en hins vegar tel ég mig hafa kynnt mér þau málefni Reykjanesbæjar sem snúa að Fasteign bara nokkuð vel , og því leyft mér að undrast þær ákvarðanir sem teknar hafa verið út frá hagsmunum Reykjanebæjar þar að lútandi.
Nú er það ljóst að sú ákvörðun að selja eigur Reykjanesbæjar inn í Fasteign á sínum tíma byggðust meira á þeirri pólitísku sýn að einkaaðilar væru betur til þess fallnir, en opinberir til að sjá um fasteignamál bæjarins.
Ein meginrökin fyrir að Fasteign skyldi sjá um þessi mál voru að þar væri hægt að fjármagna slíkar framkvæmdir á ódýrari hátt. Ef litið er til þeirra kjara sem Fasteign og Reykjanesbær bauðst á þeim tíma er þessi ákvörðun var tekin, er ljóst að á millibankamarkaði var álag Reykjanesbæjar 35-37 punktar á millibankavexti og álag fasteignar á sama tíma 60 punktar. Þarna munar miklu.
Ljóst er að á öllum þeim tíma sem síðan er liðinn að vaxta og lánakjör Reykjanesbæjar sem opinbers aðila hafa í flestum tilfellum verið betri í gegnum t.d lánasjóð sveitarfélaganna en Fasteignar sem hefur ekki aðgang að því lánsfé , eðli máls samkvæmt. Hinsvegar er það rétt að aðgangur Fasteignar að lánsfé á markaði hefur verið góður, og meira að segja svo góður að fáir erlendir bankar og hvað þá íslenskir treysta sér eða geta lánað þeim meira að svo stöddu. Þarna spila náttúrulega inn aðstæður á erlendum mörkuðum , svo og traust manna á þeirri fjármálastefnu sem hér hefur verið fylgt undanfarin ár og komin er nú í alvarlegan vanda.
Árni vil halda því fram að gagnrýni sú sem ég hef sett fram á ýmis þau verk sem hann hefur staðið fyrir geti eingöngu komið frá svörnum andstæðingi í pólitík.
Nú verður Árni Sigfússon að gera sér það ljóst að það er á ábyrgð okkar sjálfstæðismanna og íbúa í Reykjanesbæ er kusum hann, að hann er bæjarstjóri okkar. Þar gegnir hann mikilli ábyrgðarstöðu, og sú ábyrgð sem því fylgir er fyrst og fremst gagnvart hagsmunum bæjarins. Þar verður hann að hafa visku til að greina á milli hverjir eru hagsmunir flokksins og hverjir eru hagsmunir bæjarbúa. Hvort hann hafi sem sjálfstæðismaður barist fyrir einkavæðingu , og telji að einkaaðilar séu í flestum tilfellum betri til að fara með þau mál er snúa að málum bæjarins skiptir ekki nokkru máli, ef það er andstætt hagsmunum bæjarbúa. Þar gildir eingöngu kalt mat hverju sinni og gæta skal hófs hvað slíka ákvörðunartöku varðar. Hagsmunir flokksins verða aldrei sterkari en hagsmunir bæjarbúa. Um það ber að standa vörð.
Allt frá því að ég flutti til Reykjanesbæjar hef ég valið að styðja þau mál sem frá Sjálfstæðisflokknum hafa komið og í mínum huga hljóma skynsamlega. Þar ber að nefna t.d uppbyggingu Álvers í Helguvík og fleiri góð mál. Hinsvegar hef ég ekki verið sammála í t.d fyrirhugðri einkvæðingu Hitaveitu Suðurnesja (bókun meirihluta í bæjarráði 12-07-2007 , aðild bæjarins að eignahaldsfélaginu Fasteign , né heldur hef ég verið sáttur við þá niðurstöðu sem rekstrareikningur bæjarsjóðs hefur sýnt undanfarin sex ár. Þar hefur alltaf verið tap að undanskildu árinu 2005 er sýndi hagnað upp á 42.702 krónur. Heildartap þessa tímabils eru skv. bæjarreikningum rúmlega 2 milljarðar á sex ára tímabil, þrátt fyrir sölu eigna.
Þeir sem til mín þekkja vita að fátt finnst mér skemmtilegra en að fara í góða fjallgöngu og ná á toppinn í hópi góðra vina.Njóta náttúrnnar og félagskaparins. Það vita líka allir þeir sem fjallgöngur stunda að klífa erfitt fjall í þoku og vondu veðri er ekki skynsamlegt og getur orðið stórhættulegt, ef maður sér ekki fóta sinna skil, jafnvel þó fararstjórinn segist vera með góða GPS punkta. Þá er betur heima setið.
Að framansögðu og eftir umhugsun og samráð við mína nánustu trúnaðarvini innan flokks og utan hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé,frekar en að taka þátt í slíkum umræðum á persónulegum nótum að lýsa því hér með yfir að ég get ekki, það sem eftir lifir þessa kjörtímabils, stutt sem óbreyttur bæjarbúi og kjósandi þann meirihluta sem Árni Sigfússon fer fyrir hér í Reykjanesbæ. Ég áskil mér þó þann rétt að hafa áfram skoðanir á þeim málum er bæjarfélagið varða , ekki sem andstæðingur ,heldur maður minna skoðana. Þetta þýðir þó ekki að ég segi mig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann tel ég vera stærri og meira virði en þá stefnu og stjórnunarstíl sem Árni Sigfússon stendur fyrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.