Rökræðan/samræðan

Undanfarna  daga hef ég verið að velta fyrir mér hinum frjálsu skoðanaskiptum og hlutverki lýðræðisins í landinu. Hefur fundist eitthvað skrýtið hvernig umræðan hefur þróast og skoðanafrelsið ekki skipað þann sess sem það ætti að hafa .

Hef einhvern veginn alltaf ímyndað mér að því fleiri skoðanir sem ræddar eru hljóti að vera auðveldara að átta sig á vandamálinu ef eitthvað er. Finnst að gangi maður fram hjá þeim eðlilega hlut sem ég tel rökræðuna, geti maður einnig um leið glatað tækifærinu til að koma auga á þær lausnir sem þar gætu leynst. Tel að þannig megi til dæmis koma í veg fyrir miskilning manna á millum sem orsakast af að menn eru kannski ekki til í að setja sig inn í skoðanir eða hugmyndir  annarra, og hætti þannig á að festast í eigin hugmyndum , sem ef til vill eru ekki í takt við það sem raunverulega er.

Ég  er allavegana þeirrar gerðar að oft fæ ég einhverjar snilldarhugmyndir að mér finnst, en venjulega breytast þær frá hinum upphaflegu eftir að hafa rætt þær við  samferðarmenn mína, og þeir eru sko ekki alltaf sammála mér , eða ég sammála þeim.  En einhverra hluta vegna virðist það þó vera að í lok slíkra umræðna ná menn að skilja í það minnsta sjónarmið hvers annars. Það þýðir þó ekki að maður megi ekki reyna að vinna sinni skoðun brautargengi.  Það er sanngjarnt.

Mín upplifun og skilningur á umhverfinu og málefnum hefur sennilega alltaf mótast af því hvað ég hef séð og heyrt, jafnframt  þeim tilraunum mínum til að afla mér upplýsinga um það sem ég hef talið mig ekki geta skilið, þrátt fyrir útskýringar  vina og kunningja. Spurt spurninga og oft fengið þau svör sem skýrt hafa myndina. Einhvern veginn hefur mér þótt þetta vera ágætis blanda að rökræða hlutina, rannsaka það sem ég hef ekki skilið, og svo mynda mér skoðun út frá því.

Lýðræðið og skoðanaskiptin hafa þannig í mínum huga alltaf verið ein órjúfanleg heild, og nánast útilokað að skilja þarna á milli. Þannig hef ég komist að því að mín sýn á lýðræði myndi flokkast undir það sem sumir vilja kalla rökræðulýðræði  og byggir á mínum skilningi á því að ákvarðanir sem varða  það samfélag sem við búum í,  byggist upp á upplýstri  sam- og rökræðu.

Í þessu samhengi geng ég út frá því að“ríkið sé sá samstarfsvettvangur þegnana í leit sinni að farsælu lífi og lögð sé sú skylda á hendur ríkinu að það geri ekki upp á milli ólíkra leiða sem þegnarnir  vilji fara í leit sinni  að þessu markmiði“ eins og Ólafur  Páll  Jónsson heimspekingur  orðar það svo snilldarlega. „Ríki sem mismunaði þegnunum með slíkum hætti  gæti ekki talist samvinnuvettvangur, þegnanna heldur væri það tæki sumra til að vinna eigin lífssýn fylgi á kostnað annarra“

Í dag er viðhorf okkar að sjálfsagt sé að meirihlutinn ráði, í krafti  úrslita kosninga hverju sinni. Þeir sem unnu kosningarnar eru þar með komnir með stöðu í krafti  meirihlutans til að ákveða , ekki bara fyrir sig , heldur minnihlutann líka hvert það mál er þeim dettur í hug, og oft á tíðum  er það talið aukaatriði að ræða málin við minnihlutann hverju sinni, þó þar geti jafnvel  leynst hugmyndir sem brúa bilið á milli meiri og minnihluta . Menn veigra sér við að taka slíka umræðu, oft af miskildu stolti þar sem menn telja sig þurfa að verja vald sitt, án tillits til málefnisins hverju sinni.

Í minum huga er ásættanlegasta mynd lýðræðisins sú að menn á einhverjum  tímapunkti nái því sem ég tel þroska , aðrir einfeldni  að hefja sig yfir þá þröngu hugsun að menn séu í pólitík eingöngu til að vinna sínum hugsjónum brautargengi . Heldur prófi hvort ekki sé hægt með rökræðu og samræðu að ná  að þeim punkti að markmiðið sé að sameina skoðanir sem flestra , en það þýðir auðvitað oft að allir aðilar þurfa kannski að gefa eitthvað eftir. En menn verða þá allavega nokkuð sáttir við niðurstöðurnar. Og það sem betra er þeir læra að virða skoðanir annarra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Hannes. Þetta er góð hugleiðing. og minnr á að það er ekki viturlegt að tala um að mál séu ekki á dagskrá og þau megi ekki ræða .

ingibjaartur (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband