Föstudagur, 4. júlí 2008
Þetta verður að leiðrétta.
Nú er kominn tími til fyrir fulltrúa ríkisvaldsins að bretta upp ermarnar og taka á sínum málum sem þeir eiga greinilega óleyst hér suður með sjó. Það er hefur verið virkilega erfitt fyrir okkur íbúa hér á Suðurnesjum að skilja ýmsar þær ráðstafanir ríkisvaldsins er að okkur snúa, og ber þá meðal annars að nefna frestun framkvæmda við Suðurstrandaveg sem nú er að vísu komin í gang eftir langa bið, sem skiptir bæði Suðurlandið og Suðurnesin miklu máli svo og málefni Lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli.
Nú tekur steininn þó úr þegar í ljós kemur við lestur heimasíðu hss.is að undanfarin mörg ár hafa fjárveitingar til heilbrigðismála á svæðið hafi verið þau allægstu sé miðað við landið allt. Það að það skuli muna rúmlega 30.000 þúsund krónum á íbúa miðað við þá er næstir koma og rúmlega 130 þús miðað við þá er efstir eru vekur manni margar spurningar. Þeirra verður spurt síðar. Við sem hér búum vitum svo sem vel að flest erum við frekar heilsuhraust,og bítum á jaxlinn þegar erfiðleikar steðja að. Við erum ekki stöðugt að væla, en ætlumst til að við búum við sama öryggisnet og aðrir landsmenn. Bæði hvað varðar löggæslu og heilbrigðismál.
Hér þýðir ekkert fyrir ráðamenn heilbrigðismála að bera fyrir sig að sá munur sem þarna kemur í ljós, byggist á því að vegalengdir séu miklar miðað við þar sem best er gefið. Hér á Suðurnesjum er ekki frekar en á t.d Austurlandi strætisvagnasamgöngur á milli byggðarlaga, og enn hefur ekki verið veitt nægjanlegu fjármagni til að hægt sé að reka heilsugæsluselin í Sandgerði, Garði, og Vogum svo vel sé. það fólk er þar býr þarf eftir því sem ég best veit að sækja sér þjónustu annað hvort til Grindavíkur eða Reykjanesbæjar .
Nú er ljóst að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verður að skera kröftuglega niður starfsemi sína, og stór hluti niðurskurðarins kemur til með að bitna á heilsugæslu svæðisins. Þær síðdegisvaktir sem verið hafa á heilsugæslunni hér í Reykjanesbæ hafa mælst vel fyrir og íbúar svæðisins nýtt sér vel. Með þessum síðdegisvöktum hefur tekist að sinna flestu því sem þurft hefur að sinna og íbúar nánast hættir að sækja þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á til Reykjavíkur eins og áður var.
Langlundargeð okkar Suðurnesjamanna er mikið, en þegar slíkt hróplegt óréttlæti sem hér er á ferð , komum við til með að stytta vel í þeim spotta . Nú þýðir ekkert hvorki fyrir fjármálaráðherra eða heilbrigðismálaráðherra að segja okkur að bíða fram að næstu fjárlagagerð, og þá verði þetta leiðrétt. Þeir liggja t.d ennþá með þá peninga sem þeir fengu fyrir gjafahlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja , og okkur vitanlega hafa þeir peningar ekki komið hér inn á svæðið.
Nú er komið að því að nýta aðeins lítinn hluta þeirra. Aðeins 10% af þeim peningum myndi fara langt með að leiðrétta þennan hlut í ár. Og svo gerum við ráð fyrir að þetta verði leiðrétt að fullu við næstu fjárlagagerð, þannig að í heilbrigðismálum komum við til með að standa jafnfætis öðrum landsmönnum. Það eru engin rök fyrir öðru.
Þarna held ég að fjármálaráherrann sem jú er fyrsti þingmaður þessa svæðis og þess vegna er hann fjármálaráðherra, hljóti að vera okkur algjörlega sammála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.