Takk fyrir Björk og Sigurrós.

Maður getur ekki annað en hrifist af framtaki þeirra Sigurrósarmanna og Bjarkar í sambandi við náttúrutónleika þá er fram fóru nú um helgina. Þar var vakinn athygli á málefni sem við höfum því miður látið svolítið sitja á hakanum, og einblínt í eina átt hvað það varðar.

Ég hef verið talsmaður þess að álvinnsla fari fram hér á landi, og þá hef ég bæði hugsað út frá að hnattræn losun koltvísýringsins sem af hlýst  er lítill hér á landi sökum þess hverslags orka er notuð við framleiðsluna , og svo hitt að hér hefur verið þörf fyrir atvinnusköpun.

Hitt er svo annað mál og hverjum manni hollt að hugsa um, það  sem þau  Börk og Sigurrósarmenn eru að vekja máls á hvort ekki séu til aðrar leiðir sem betri eru til að nýta þá orku sem við höfum yfir að ráða. Hvort ekki sé tími til kominn að við hugsum aðeins út fyrir hringinn hvað varðar orkunýtingu okkar.

Sú krafa verður stöðugt háværari að við gætum okkar við virkjunaráform, og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Það held ég sé rétt. Þær virkjanir og ákvarðanir sem við tökum í framtíðinni verða að skila okkur hámarkságóða, og nauðsynlegt að sem mestur hluti þess ágóða sitji eftir í landinu.

Nú er það svo að fyrirsjáanlegt er að í nánustu framtíð er það orkukostnaðurinn sem kemur til með að vera eitt af því hefur úrslitaþýðingu hvað varðar staðsetningu ýmissa fyrirtækja , ekki bara stóriðju heldur einnig ýmissa minni framleiðslufyrirtækja  og hugbúnaðarfyrirtæki sem ekki menga jafn mikið og stóriðjan gerir. Hvert og eitt þeirra nýtir kannski ekki jafn mikla orku og stóriðjan gerir, en mörg saman gætu þau  orðið sá vaxtarsproti sem  hægt væri að byggja á.

Vel mætti hugsa sér að í framtíðinni þegar teknar eru ákvarðanir um frekari virkjanir, að skilyrt sé að sú raforka sem þar fáist , verði sett á uppboðsmarkað, þar sem bæði ráði það verð sem menn eru tilbúnir að greiða fyrir, auk þess  sem tekið yrði tillit til þeirrar mengunar sem frá fyrirtækjunum yrði. Þannig  gæti maður ímyndað sér að hámarksverð fengist , jafnframt sem auðvelt yrði að hafa stjórn á þeirri mengun sem af hlytist. Auk þess sem maður gæti ímyndað sér að hægt yrði að skapa mörg spennandi störf vítt og breytt um landið væri þessari aðferð beitt.

Jafnvel mætti hugsa sér að settur yrði á þetta ákveðin staðsetningarkvóti, þannig að tryggt yrði að landsbyggðin öll myndi njóta. Þannig gæti maður séð fyrir sér að smá og meðalstór fyrirtæki sem tækju mið af aðstæðum á hverjum stað yrðu þar með til á stöðum þar sem engan hafði órað fyrir. Klárt yrði þá að vera að staðsetningarhluti kvótans yrði aldrei framseljanlegur og gæti þannig lagt heilu byggðirnar í rúst eins og fiskveiðikvótinn forðum daga.

Auðvitað eigum við að notfæra okkur þá stöðu sem upp er kominn í orkumálum heimsins og nýta okkur hana til framdráttar sem víðast um landið. Laða að hátæknifyrirtæki, sem borga há laun og hafa þörf fyrir orku. Í því efni eigum við að hugsa sem samfélag, og leyfa okkur að setja reglur sem gætu orðið öllum til hagsbóta, sé rétt að staðið. Það er nefnilega svo að það er ekki alltaf stærðin sem skiptir öllu, gæðin eru líka mikilvæg. það vita Björk Guðmundsdóttir og Sigurrós. Hafi þau þökk fyrir að vekja mig til umhugsunar.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fékk gæsahúð af því að lesa þessa færslu. Mér finnst ekkert fallegra en fólk sem er nægilega stórar manneskjur til að geta skipt um skoðun og séð sjónarhorn annarra.

Gangi þér allt í haginn.

kata odds (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 17:48

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessuð Kata

Ekki ætlaði ég nú að verða þess valdandi að þú fengir gæsahúð, af færslunni, en þakka hlý orð í minn garð. Nú er ég einn þeirra manna sem hingað til verið þeirrar skoðunar og verð áfram að nauðsynlegt er að nýta þá orku sem við höfum, öllum til hagsbótar. Á ákaflega skömmum tíma hafa aðstæður breyst og æ ljósara að það sem við héldum fyrir fáum árum síðan að við gætum virkjað nánast hverja sprænu eru ekki lengur fyrir hendi. Nú erum við komin í stöðu þar sem ljóst er að við verðum að gæta okkar og hvert skref sem tökum þarf að vera vel íhugað. Sú orka sem við eigum eftir að virkja verður því stöðugt dýmætari og því verðum að gæta hennar vel, og sjá til þess að það hámarks ágóði fáist fyrir það sem við eigum eftir að virkja. Áður töldum við að okkar hagsmunum væri best borgið með að gera langa og orkufreka samninga, þannig værum við öruggust, það á t.d við um Álverið í Helguvík sem ég er  fylgjandi út frá m.a atvinnusjónarmiðum hér á svæðinu. Nú er hins vegar að koma í ljós að jafnvel það að afla raforku til þess gæti orðið erfiðleikum háð, og því ljóst að leita verður nýrra leiða sem allur almenningur getur orðið sammála um . Það fannst mér vera sá boðskapur sem Björk og Sigurrós væru að senda þjóðinni. Hann fannst mér góður.

Hannes Friðriksson , 30.6.2008 kl. 18:50

3 identicon

Mjög góður pistill!

Málið er einfalt, það er ekki endalust efir að orku til að virkja með skynsamlegum hætti, Við höfum ekki efni á að gera barnalega samninga í 25 ár þar sem að við fáum sama og ekki neitt eftir nokkur ár frá undirritun samninga.

Til hamingju með að hugsa lengra.

Haukur D (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 21:28

4 identicon

Verst við þessa tónleika var þó að allir þessir yfirlístu náttúrufriðar sinnar, sem klöppuðu og kölluðu þegar náttúruverndar videoið var búið skildu ganga svona illa um staðinn. Bjór flöskur búnar til úr áli út um allt. Hálf sorglegt...

Hilmar Guðjónsson (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 23:03

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek undir með Kötu - gott að sjá þessi skrif hjá þér, Hannes.

Í framhaldinu langar mig að benda þér á þennan  pistil og hvetja þig til að íhuga málflutning Stefáns Arnórssonar, prófessors í jarðefnafræði. Viðtalið við hann er í tónspilaranum ofarlega til vinstri á síðunni - ásamt fjölda annarra viðtala og fróðleiksmola. Þú ert einmitt að tala í hans anda núna og ég hvet þig til að kynna þér málflutning Stefáns.

Með kveðju,

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 11:32

6 identicon

Mikið var gaman að lesa þetta. Núna finnst mér að þú eigir að skrifa þín sjónarmið í blöðin svo sem flestir sjái. Takk fyrir mig og með bestu kveðju.

Rósa Sturludóttir (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.