Enn eitt skeytið

Það eru athyglisverðar skeytasendingar sem nú eru í gangi á milli þingmanna stjórnarliðsins. Björgvin G Sigurðssyni varð það á að nefna það sem hann hugsaði, og það var að tími væri til kominn að Sjálfstæðismenn tækju nú upp umræðu um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Sagði í raun bara það sama og fjöldi sjálfstæðismanna hefur verið að reyna að segja að undanförnu, en ekki verið á þá hlustað.

Það virðist vera einhver lenska þessa dagana að ekki megi  ræða nokkur mál sem ofarlega eru á baugi í landinu í dag, án þess að litlu varðhundarnir þurfi að gelta sig ráma, í von um  að á þann hátt geti þeir stjórnað því að enginn umræða verði. Mér finnst pistill Sigurðar Kára á bloggsíðunni sinni í dag vera gott dæmi um þess háttar gelt.

Auðvitað er það svo að frá því að stjórnarsáttmálinn  var skrifaður hafa yfir okkur dunið nánast hvert áfallið á fætur öðru, og ekkert útséð hver lendingin verður. Það er eðli slíkra sáttmála sem stjórnarsáttmála að þeir eru gerðir miðað við þá stöðu sem uppi er þegar þeir eru samdir, en það þýðir þó ekki að ekki megi ræða breytingu breytist aðstæður. Það væri svipað og ætla sér að keyra yfir ófæra á vegna þess að það er sýndur lækur á kortinu.

Ég held að  Sigurði Kára væri nær að fara nú að ræða, eða kynna rök sín fyrir því hversvegna honum hugnast ekki aðildarviðræður í stað þess að vera stöðugt að hamra á að þessi umræða eigi ekki rétt á sér. Það er ekki hægt að ætlast til þess af Landsþingi Sjálfstæðisflokksins að taka afstöðu til málsins á þremur dögum ef enginn umræða fer fram á undan.

Það er hvorki Sigurði Kára, eða Sjálfstæðisflokknum til góðs að reyna að kæfa umræðuna með því að standa í ónauðsynlegum skeytasendingum við viðskiptaráðherrann , því það er ekki lokum fyrir það skotið að margir sjálfstæðismenn sjái sér ekki annað fært en styðja sjónarmið ráðherrans, náum við ekki að ræða þetta mál af viti fyrir næstu kosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ég bara vona að Sjálfstæðisflokknum beri gæfa til þess að standa vörð um hagsmuni landsins og standa við það sem áður hefur verið sagt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti inngöngu í ESB. Í mínum huga, og nú hef ég kynnt mér málið, þá er hagsmunum smáþjóða eins og okkar illa borgið innan ESB.

Mér finnst líka þessi ESB umræða vera á algjörum villigötum. Innganga í ESB leysir á engan hátt þann vanda sem að blasir við íslensku efnahagslífi nú, að þeirri einföldu ástæðu að við fáum ekki inngöngu í myntbandalagið og að Seðlabanka Evrópu við núverandi aðstæður. Fyrst yrði meðal annars verðbólgan að lækka, með þeim verkfærum sem að við höfum nú, svo væri hægt að ræða ESB aðild.

Mér fannst Geir Haarde koma með skemmtilegan vinkil á umræðuna um daginn. Af hverju ekki að taka bara upp dollar? Ekki það að mér finnist upptaka dollar sérstaklega raunhæf, heldur hitt að Samfylkingin hefur talað þannig að eini möguleikinn í stöðunni sé að ganga inn í ESB. Það er aldrei talað um það af fullir alvöru að það sé möguleiki í stöðunni að standa áfram utan Evrópusambandsins. Evrópuþráhyggjan er svo mikil.

Ef þú vilt umræðu þá máttu fá umræðu. Ísland stendur utan við ESB og á meðan að ESB er klúbbur þar sem að sumar þjóðir hafa hátt í helming atkvæða á Evrópuþinginu þá er það meira en næg ástæða til þess að standa áfram fyrir utan ESB. Svo ekki sé talað um landbúnaðarkaflann í Rómarsáttmálanum þar sem að sú meginregla er lögð að nýting allra náttúruauðlinda skuli vera jöfn.

Jóhann Pétur Pétursson, 8.7.2008 kl. 23:11

2 identicon

Jáhann Pétur og aðrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins eiga skilið að borga hæstu vexti í heimi, þeir eiga skilið að borga hæsta matarverð í heimi, þeir eiga skilið að lifa við gengissveiflur sem hvergi þekkjast í heiminum, nema í einhverjum ríkjum eins og Túrkemenistan og öðrum ríkjum þar sem geggjaðir einræðisherrar eru við völd, við hin sem kusum ekki Sjálfstæðisflokkinn báðum ekki um þetta.  Svo er spurningin hvort geggjaði einræðisherran sem hér er við völd, sé í Seðlabankanum? 

Valsól (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 23:45

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Hannes

Ég er algjörlega sammála þér að umræðan verður að fara fram. Það er svo skrýtið að eftir að hafa tekið þátt í góðri ESB umræðu með góðum mönnum á blogginu - Vangaveltur Egils - er ég í augnablikinu ekki eins hrifinn af ESB aðild.

Maður á örugglega eftir að sveiflast nokkrum sinnum fram og til baka áður en maður endanlega gerir upp hug sinn.

Ég hef t.d. ekkert á móti krónunni sem slíkri. Það eru þessar sveiflur, sem maður hata. Ég hef ekkert á móti því að vera utan ESB, en það eru háu vextirnir, háa matarverðið og einokunin, sem allsstaðar blasir við, sem ég hata.

Ef hægt er að koma þessu í lag án ESB aðildar: Be my guests!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.7.2008 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.