Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Ísland best í heimi
Skilaboð geta verið mismunandi , og sé maður ekki nógu vel að sér hvað málin varðar er auðvelt að miskilja þau. Datt þetta í hug í morgun um leið og ég var að fletta blöðunum , og sá að Mbl. var að kynna nýja rannsókn erlends háskóla þar sem fram kom að Ísland væri best í heimi enn eina ferðina.
Ekki dettur mér nú í hug að neita því, en sú afstaða mín byggir þó kannski meira á huglægu mati og þeirrar staðreyndar að hér er allt mitt fjölskylda og vinir. Einhvern veginn dettur mér ekki í hug að það séu fjárfestingatækifæri , eða annað slíkt sem ráða þessari afstöðu minni. Enda ekki einn af þeim heppnu sem ræð yfir fé til fjárfestinga.
Ég fór að velta fyrir mér hve mikilvægt væri fyrir þá er standa að slíkum rannsóknum að þekkja allar aðstæður og jafnvel að kunna tungumál þeirrar þjóðar er menn rannsaka hverju sinni, og spyrja réttra spurninga til að fá sem réttasta mynd af stöðu mála.
Fór að hugsa um þegar ég fór til Danmerkur í fyrsta sinn og hreint ekki með tungumálið á hreinu, og það var margt sem ég skildi ekki alveg strax vegna tungumálaörðugleika. Á þessum árum gengu rútur frá Kastrup til Járnbrautarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn, og þangað lá leið mín. Fyrir mig ungan manninn var þetta náttúrlega mikil upplifun, og mjög spennandi.
Frá Kaupmannahöfn þurfti ég að fara áfram með lest og því komið að því að láta reyna á málakunnáttuna og kaupa miða. Fann fljótlega miðasöluklefa við aðalinnganginn sem var sem betur fer merktur Ticket salg og það skyldi ég svo þangað fór ég og keypti miða. Ekkert mál. Ákvað á meðan ég beið eftir lestinni að gaman væri nú að kíkja í kringum mig á lestarstöðinni og fá mér eina pylsu, en tók fljótlega eftir þegar ég kom inn hlut sem kom mér mjög á óvart , og það var hve tengsl dana við Indland voru sterk. Þarna var alveg röð af básum sem seldu miða til Indlands. Þetta yrði ég að spyrja gestgjafann um þegar á áfangastað yrði komið um kvöldið.
Þóttist heldur mikill maður þegar á áfangastað var komið og vel inn í þjóðarsál Dana og byrjaði náttúrulega á að reyna að ræða þessi sterku tengsl Indlands og Dana. Tók þó eftir að eitthvað kom undarlegur svipur á gestgjafann. Hélt þó áfram að ræða þessi tengsl af miklum ákafa , þar til gestgjafinn var búinn að fá nóg af bullinu í mér og leiðrétti mig. Gerði mér sumsé ljóst að Indland á dönsku þýddi innanlands og hefði ekkert með Indland að gera.
Eftir þetta hef ég ekki tjáð mig um málefni þjóða , ef ég kann ekki tungumál þeirra. Það hefur bara reynst mér ágætlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.