Mánudagur, 18. ágúst 2008
Plómutréð í garðinum
Áhyggjur garðeigandans geta verið margs konar. Um miðjan júlí voru aðaláhyggjur mínar hvað varðaði garðræktina, plómutréð sem frúin plataði mig samviskulaust til að kaupa , með góðri hjálp garðyrkjumeistara í Hveragerði. Ég var ekki sérstaklega bjartsýnn á að tré þetta myndi lifa í garðinum, en eftir að vera búinn að byggja heilmikið skjól, grafa hina fullkomnu holu fyrir slíkt tré kom náttúrulega akkúrat í ljós það sem ég hafði reiknað með. Laufin féllu og og tréð stóð allsnakið í garðinum hvorki mér né konunni til sóma. Hugsaði þó með mér að ég skyldi láta garminn standa frúnni til áminningar.
Nú hefur tréð staðið þarna í rúman mánuð, en í síðustu viku tók ég þó eftir að byrjaðir voru að koma á það agnarlitlir knúppar, sem ég þó reiknaði ekki með að myndu opna sig svo seint liðið á sumarið. Tréð hefur hinsvegar haldið áfram af miklum krafti og virðist svo sem það ætli að standa í fullum blóma nú þegar líður er að sumarlokum. Allt útlit fyrir að maður verði í plómuuppskeru um jólin, sem væri náttúrulega algert stílbrot hvað aðrar plöntur í garðinum varðar.
Eins og það sé ekki nóg að vera með stjórnlaust plómutré í garðinum, sá ég um helgina að teknar voru að myndast það sem garðyrkjusnillingarnir kalla snarrót í grasinu, á nokkrum stöðum. Veit ekki hversvegna hún kemur, en komin er hún og nú verð ég að finna einhver ráð til að útrýma henni áður en hún tekur öll ráð í garðinum, ásamt plómutrénu. Hef verið að spyrja ýmsa snillinga um hvernig best væri að eiga við hana en mönnum ber nú ekki saman um hvað skal gera. Ef einhver sem les þetta hefur einhver ráð önnur en að fletta öllu grasinu í burtu, væri það vel þegið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.