Fimmtudagur, 21. ágúst 2008
Innihaldslausar blöðrusleppingar
Sigurjón Vikarsson skrifar hreint ansi krítíska og tímabæra grein í Tíðindin nú í dag hvað varðar innkaup bæjarins á vöru og þjónustu , og eins og hans er von og vísa skefur hann ekki utan af skoðunum sínum hvað mál þetta varðar. Enda enginn ástæða til.
Það eru ekki margar vikur síðan að bókað var um þetta mál í bæjarráði , og þá í tengslum við nýja heimasíðu bæjarins. Árni Sigfússon svarar þessu á þann hátt í 30. tbl Tíðindanna á þann hátt að hér væri í raun ekki um neitt vandamál að ræða og það væri stefna bæjarins að gefa þeim fyrirtækjum er stæðust kröfur um tæki og kunnáttu tækifæri á að bjóða í þau verk. Með grein Sigurjóns er þó greinilega eitthvað allt annað að koma í ljós. Nema bæjaryfirvöld hafi sent út sérstaka ráðgjafa sem gefið hafi út að hvorki tæki né kunnátta sé til staðar í fyrirtæki Sigurjóns til þess að prenta minnisblokkir sem þær er Sigurjón gerir að umtalsefni í grein sinni, og því ekki ástæða til að hann fái möguleika á að bjóða þessi verk. Því á ég bágt með að trúa.
Einhvern tíma í æsku var mér kennt að þar sem væri reykur, væri oftast annað hvort glóð, eða jafnvel eldur. Á skömmum tíma koma tveir aðilar fram og segja sínar farir ekki sléttar hvað þessi samskipti varðar við bæjaryfirvöld. Eitthvað virðist fyrir þann sem sér þetta mál utan frá að vera athugavert hvað varðar þessa hlið máls.
Nú er það því miður svo að þessi tvö dæmi virðast ekki vera þau einu þar sem menn segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við bæjaryfirvöld og fyrirtæki tengd þeim hvað slík mál varðar, og vel skiljanlegt að menn vilji ekki stíga fram, miðað við hvernig slíkar óánægjuraddir eru afgreiddar.
Í raun er það furðulegt að sá meirihluti sem nú er við völd skuli komast upp með stjórnunaraðferðir af þeirri gerð er Sigurjón lýsir í grein sinni. Þetta er sami meirihluti og heldur fjölda námskeiða bæði fyrir unglinganna og foreldrana um skaðsemi eineltis á umhverfi sitt, en virðast þó beita því að fullum krafti sjálf, séu menn ekki sömu skoðunar þeirra er ráða.
Það að hafa aðra sýn á ýmis úrlausnarefni og lífsskoðanir almennt en ríkjandi stjórnvöld , og leyfa sér að tjá þær opinberlega á ekki nú á árinu 2008 að hafa áhrif á rétt manna og fyrirtækja til að bjóða í að vinna verkefni bæjarins. Þar eiga önnur viðmið að gilda. Ekki verður séð ,sé farið yfir málið að Sigurjón eða fyrirtæki hans hafi neitt það til saka unnið að hann ætti ekki að hafa sama rétt og aðrir til að bjóða í þau verk er hann telur sig geta unnið fyrir bæinn. En til þess að hann geti það þarf náttúrulega að bjóða verkin út, eins og eðlilegt er.
Auðvitað eiga bæjaryfirvöld að setjast niður og setja niður á blað, út frá hagsmunum bæjarins og bæjarbúa viðunandi innkaupastefnu sem ekki er innhaldslaust loft í blöðru, heldur reglur um á hvern hátt bærinn hagar innkaupum sínum á þjónustu. Þar gætu menn til að mynda tekið sér til fyrirmyndar þá Norðurálsmenn sem hafa skýra stefnu hvað þetta varðar, og kaupa alla þá þjónustu sem þeim er unnt innan svæðis. Það virðist bærinn því miður ekki gera í dag. Ef svo væri væru engar kvartanir.
Hér gildir ekki sú afsökun að stefna bæjarins sé að versla á heimamarkaði og embættismennirnir hafi gert mistök, þar sem þeir hafa ekki fengið leiðbeiningar um hver stefna bæjarins er í þessum málum. Þá stefnu verður að marka, og gera þeim sem ætlað er að leysa málin hana ljósa.
Það að verslað sé á heimasvæði er einmitt sérstaklega mikilvægt á tímum eins og núna þar sem séð er að samdráttur er mikill á mörgum sviðum atvinnulífsins . Það er tímabært fyrir bæjarstjórnarmenn meirihlutans að átta sig á að hagsmunir fyrirtækjanna á svæðinu fara saman við hagsmuni íbúanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.