Byltingin borðar börnin sín.

 

Byltingin borðar börnin sín

Morgnarnir leggjast misjafnt í mann, og í morgun munaði litlu að ég léti smáfrétt  á eyjunni. is hafa áhrif á það í hvernig skapi ég yrði í dag. Mér hugnaðist hreint ekki sú hugmynd Davíðs Oddssonar að hér yrði skipuð þjóðstjórn, og tel  að það samræmdist ekki stöðu hans sem seðlabankastjóra að skipta sér af hinni pólitísku umræðu. Og auðvitað er það svo.

Nú er stjórnandinn í Svörtuloftum náttúrulega umdeildur , en er þó í þeirri stöðu að hann getur fylgst vel með hvað er að gerast í málefnum bankanna, betur en forsætisráðherrann sjálfur. Eitthvað segir mér að það að hann opni umræðuna um þjóðstjórn núna sé ekki eitthvað sem hann segir bara svona út í loftið. Hann treystir ekki lærlingnum til að leysa þau vandamál sem framundan eru án stuðnings allra flokka.

Hann hefur séð í gegnum tölvuskjáina í Svörtuloftum hvað framundan er, og gerir sér nú grein fyrir afleiðingum gjörða sinna frá forsætisráðherratíð sinni. Frjálshyggju og einkavinavæðingarbylting hans er að borða börnin sín. Ekki í smábitum heldur er kokgleypt.

Það má vel vera að á einhverjum tíma þurfi að koma til þjóðstjórn til að leysa þau vandræði sem einkavæðingarstefnan hefur nú leitt til, en ég tel þó að það sé ekki það sé fyrsta atriðið sem leysi málið. Hér er Davíð enn einu sinni að sýna hve snjall hann er í smjörklípuaðferðinni sem hann lærði forðum daga við eldhúsborðið hjá ömmu sinni. Hann veit nefnilega sjálfur að aðalvandamálið er hann sjálfur, og sú stefna sem hann hefur staðið fyrir.

Til þess að geta leyst þennan vanda þurfa stjórnvöld að hafa stuðning allra aðila, og fyrsta verkið til að afla þess stuðnings tel ég að hljóti að vera að efla traust landsmanna á fjármálastefnu Seðlabankans, og þá væri ekki svo galið sem fyrsta verk að losa bankann við þann er stendur fyrir því stefnuleysi er þar ríkir. Sem í þessu tilfelli er títtnefndur Davíð Oddson. Þegar það er gert er möguleiki á að núverandi  forsætisráðherra nái að setjast sjálfur við stýrið og losa bílinn úr snjóskaflinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband