“Obbobbobobb bíðum nú við”

“Obbobbobobb bíðum nú við”sungu Spaðarnir hér um árið og vitnuðu í frægan frasa Guðna frá Brúnastöðum sem hann viðhafði þegar hann vildi að menn hægðu nú aðeins á sér.Nú held ég að tími sé til að menn hægi örlítið á sér og láti ekki kappið við að koma hér öllu í samt lag á innan við viku að því er virðist og falli ekki í sama far og er nýbúið að koma okkur svo rækilega í koll.

 

Þeir hinir framtaksömustu og mest drífandi á meðal okkar eru náttúrulega nú þegar búnir að finna lausnirnar til að koma okkur á réttan kjöl að þeim finnst, og telja að nú eigi að byggja álver sem aldrei fyrr. Sjálfskipaður talsmaður eins álfyrirtækisins segir meira að segja að þegar hafi verið lögð inn beiðni fyrir stækkun einnar framkvæmdarinnar, en forsvarsmenn fyrirtækisins vilja þó ekkert segja um það.

 

Hafi einhvern tíman verið ástæða til að hinkra við og hugsa um hvernig við komum til með að nýta orkulindir okkar til framtíðar er það einmitt núna. Nú þurfum við að marka okkur stefnu sem okkur sem þjóðfélagi kemur best, og öruggt sé að hámarksverð fáist fyrir orkuna á hverjum tíma. Álverð er gott fyrir okkur þessa stundina, en það grundvallast þó fyrst og fremst á gengi krónunar þessa dagana, því álverð á heimsmarkaði hefur því miður farið lækkandi undanfarnar vikur og allt útlit fyrir að það haldist þannig í nokkurn tíma.

 

Það var gott að heyra í Guðrúnu Pétursdóttur á Stöð2 nú í kvöld þar sem hún talaði einmitt um þetta mál og brýndi fyrir mönnum að staldra við í hita leiksins og hverfa ekki 20 ár til baka í ákafa sínum að bjarga málunum sem fyrst. Höldum okkur við það sem þegar hefur verið ákveðið. En gefum okkur tíma til að hugsa málið um áframhaldið hvað annað varðar. Byrjum á byrjuninni og gætum þess að hlaupa ekki fram úr okkur hvað framtíðina varðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mikið er ég ósammála þér þarna. Við ættum að grípa tækifærið og nota orkuna til að koma okkur út úr þessum vandræðum, því annars erum við að horfa fram á algjört hrun hér á landi.

Tugþúsundir íbúa landsins munu missa vinnuna og landflótti blasir við. Ég hef engan áhuga á að fara aftur út eftir að hafa eytt 12 árum erlendis.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.10.2008 kl. 22:58

2 identicon

Ísland er ekki að sökkva og eins og margoft hefur komið fram í umræðunni síðustu daga munum við Íslendingar komast út úr þessu með því að standa saman en ekki flýja land. Við þurfum ekki að æða áfram án þess að hugsa, það hefur þegar verið gert og skilaði engu nema algjöru hruni. Ísland framtíðarinnar mun byggjast upp af hugvitsemi Íslendinga, fjölbreyttu atvinnulífi og fólki sem ber virðingu fyrir landi sínum. Við stöndum frammi fyrir því í dag að vera gagnrýnd harkalega fyrir áhættusamt framferði í efnahagsmálum þar sem við fórum fram úr okkur og eyddum umfram efni peningum sem við áttum ekkert í. Viljum við í alvörunni sýna sömu fljótfærni gagnvart auðlindum okkar og náttúru, reyna að leysa málin með skyndilausnum sem eru ekki sjálfbærar og skila landinu okkar í verra ástandi til komandi kynslóða? Nei, það er kominn tími á aðra aðferðafræði!
Takk fyrir skemmtilegt blogg Hannes, þú kannt að koma orðum að hlutunum. 

Særún Rósa Ástþórsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 23:34

3 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessður Guðbjörn

Ég er alveg sammála þér í því að við eigum m.a að nota orkuna til að koma okkur út úr vandamálunum,en gerum það skynsamlega. Það er ekki okkar sem göngum hér um jörðina í tiltölulega skamman tíma að virkja hér hvern smálæk. til að veislan geti haldið áfram. Við eigum að taka til eftir síðustu veislu,og skila landinu til afkomenda okkar eins góðu ástandi og mögulegt er.

Ég hef verið fylgjandi Álveri í Helguvík. og er það enn en ég er ekki fylgjandi því að þarna komi næstum helmingi stærra álver er talað var um í upphafi.

Við þurfum að tryggja að allar byggðir landsins fái að njóta, og menn geti skapað atvinnutækifæri allastaðar.  Í Grindavík Þorlákshöfn og á þeim stöðum þar sem orkan verður til.  

Stöldrum nú við Guðbjörn og notum það sem Guð gaf okkur og hugsum. Finnum þær leiðir sem tryggja okkur hámarksarðsemi af þeirri orku sem við eigum, Við skulum ekki drepa gullgæsina til að ná fleiri eggjum innan úr henni. Hana þarf næra svo streymi gulleggjanna verði stöðugt til langs tíma

Hannes Friðriksson , 11.10.2008 kl. 08:30

4 Smámynd: Hannes Friðriksson

Datt í hug að láta söguna frá tímbili minnkabúana fylgja með.

Þetta minnkabú það minnkaði, minnkaði og minnkaði og svo var það búið

Hannes Friðriksson , 11.10.2008 kl. 08:43

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, ég held að það er gott að taka aðeins í bremsurnar og hugsa vel og vandlega áður en framkvæmd er. Ég vissi strax að álverið í Helguvík ætti að vera stærra en gefið var fram. Það var bara að læðast svona bakdýramegin inn á okkur með enn eitt risaálver. Og orkan ekki tryggð nema að fara í mjög óvinsælar virkjanir. Þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð. Við munum detta aftur á rassinn þegar eftirspurn eftir ál í heiminum minnkar.

Úrsúla Jünemann, 11.10.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband