Fimmtudagur, 23. október 2008
Hvor er betri leikari Geir eða Örn?
Svei mér þá ef að Geir H Haarde hafi nánast tekist hið ómögulega í gær, og það var að ná algerlega að líkja eftir Erni Árnasyni úr Spaugstofunni. Örn nær sennilega aldrei að líkja jafnvel eftir Geir og Geir tekst að líkja eftir Erni.
Forsætisráðherranum tókst algerlega að ná þessum aulasvip sem Örn sýnir svo vel, og hvað varðar svörin við spurningunum, voru þau sennilega aumkunarverðari en þeim spaugstofumönnum hefði tekist að semja.
Þeim hefði sennilega aldrei dottið í hug að koma persónunni undan allri ábyrgð í nánast öllum málum , nema því sem framundan væri, og mér er til efs að þeim hefði dottið í hug að leiðin út úr vandræðunum væri að Geir myndi vera sá er leiddi þá vinnu.
Geir hans Arnar hefur alltaf verið svona maður sem manni þykir örlítið vænt um, en svona landsfaðir sem inn á milli hlustaði á þjóðina. Nýi Geirinn er hættur því, nú er það hann sem ræður og hlustar ekki á neinn þann sem í kringum hann er, hvorki þjóð né samstarfsaðila í ríkisstjórn. Það þykir engum vænt um svoleiðis Geir. Nema kannski Davíð.
Annars var maður dagsins náttúrulega Sigmar, sem spurði þeirra spurninga sem brenna þjóðinni án þess nokkurn tíma að missa sig yfir tilburðum Geirs hinum megin við borðið, sem seig hægt ofan í sætið um leið og hann missti enn einu sinn hluta af því mikla fylgi sem hann hafði haft. Fylgi sem hann átti ekki skilið.
Leyfi þessu hnoði að fylgja með:
Ó Þjóð mín, þjóð mín
Minnumst góðra daga
Á þotum þustu heim til sín
Það er gömul saga
Ó Þjóð mín, þjóð mín
Þrautpínd , í augum glýja
Björgólfsættin furðu fín
Fyrst af öllum flýja
Ó Þjóð mín ,þjóð mín
Þrautgóð býst til varnar
Baugur brýtur undir fót
Brátt mannorð okkar kvarnar
Ó Þjóð mín ,þjóð mín
Þrautpínd á raunastundum
Sjálfstæðismenn nú skammast sín
saman á ríkistjórnarfundum
Óttalega við ópum nú
Óð til vorrar þjóðar
Einu vopnin, von og trú
og vísur góðar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður
Líney, 23.10.2008 kl. 16:42
Geir stendur í ströngu og er réttur maður í brúnni. Sigmar spyr réttra spurninga en hefur það ekki í sér að bíða eftir svari áður en hann umorðar spurninguna. Hver annar en Geir gæti staðið í brúnni í þessu fárviðri? Steingrímur??
Karl A (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 23:18
Þú hefur alveg rétt fyrir þér varðandi hnoðið og ég mæli bara með því að þú látir þar við sitja. Um Kastljósþáttinn er ekki hægt að dæma um frammistöðu viðmælenda, þegar þeir fá ekki tækifæri til að ljúka einni einustu setningu, án frammígrips. Og þar er meira að segja frammígrip frá aðilum sem hafa vart meira en skóstærðarnúmer í gáfnavísitölu.
Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 08:26
Blessaður Karl
Það vita allir að Geir stendur í ströngu,en hann kom sér að miklu leyti sjálfur í það.
Hvað varðar spurningar Sigmars voru margar þeirra samviskuspurningar sem hægt hefði verið að svara með jái eða neii. óþarfi fyrir Geir að draga athyglina til að mynda að tíma sínum sem fjármálaráðherra, sú stað er hreint ekki uppi lengur, hversu vel sem hann stóð sig.
Ég held að það sé nú nánast samdómaálit flestra að nánast allir aðrir væru betur til þess fallnir að leiða okkur út úr þeim vandræðum sem Geir og einkavæðingarstefna sjálfstæðisflokksins hafa komið okkur í, eða eins og bandaríski prófessorinn nefndi miðað við frammmistöðu hans væri jafngott að handvelja úr símaskránni.
Blessaður Halldór
Einhverstaðar verða menn að byrja og sumir vilja meina að þetta hafi verið ágætis byrjun, en ljóst að þetta verður að slípa aðeins. En það tekst náttúrulega bara með æfingunni.
Hvað varðar mælingu þina á gáfnavísitölu, hef ég heyrt að hún sé mæld í stigum en ekki skóstærðum. Skóstærð notar maður þegar athugað er hvort skór passi á fætur.
Hannes Friðriksson , 24.10.2008 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.