Laugardagur, 25. október 2008
Er skipið að sökkva?
Nú er skipið að sökkva hugsaði ég þegar stundin gafst og ég náði að fletta staðarblöðunum sem ég hafði ekki náð að lesa sökum anna sem frúin hafði skapað mér. Sá fyrir mér atriðið úr kvikmyndinni Titanic þegar menn söfnuðu saman skipshljómsveitinni á efsta dekki á meðan konur, börn og gamalmenni fóru í þá alltof fáu björgunarbáta sem í skipinu voru , sökum þess að það átti ekki að geta sokkið. Þeir sem ekki komust í bátana urðu að stökkva í sjóinn, og treysta á að björgin bærist í tæka tíð. Það varð því miður ekki fyrir alltof marga.
Tilefni þessara hugsana minna voru heilsíðu auglýsingar í staðarblöðum Reykjanesbæjar frá Sjálfstæðisflokknum undir yfirskriftinni VIRKJUM MEIRA, ekki þó þannig að Sjálfstæðisflokkurinn væri að fara í virkjunarframkvæmdir í eiginlegum skilningi, heldur skyldi nú loksins fara að virkja þá félaga sem í flokknum eru til góðra verka. Nú dugir ekki þessi eini heili sem greinilega hefur verið ofnotaður, heldur tímabært að hleypa fleirum að. Það fannst mér góð hugmynd.
Verkefni þessu er skipt upp í marga ágæta málaflokka, sem vel eiga við í stöðu dagsins eins og til að mynda fjármálageirinn og málefni verktak, heilbrigðismál , og sérstaklega sá liður er nefnist Trú og lífsgildi. Sá liður er sennilega sá mikilvægasti sem um verður fjallað.
Greinilega ætla menn sér að mynda skýra stefnu í orkumálum og er þeim lið skipt upp í tvo liði. Annarsvegar virðist vera um upplýsandi flokk að ræða þar sem hinn hófsami varaforstjóri hitaveitunnar fer fyrir , og hinsvegar liður sem virðist vera svona í anda nýfrjálshyggjunnar og ber yfirskriftina ORKUFREK TÆKIFÆRI nafngift í anda hugmyndafræðings flokksins, enda stýrir hann sjálfur því verkefni. Það líst mér illa á.
Það er hinsvegar frábært að sjá að hér er lagt upp með að ná saman fjölda fólks sem hugsanlega væri tilbúið til að hafa áhrif á samfélag sitt. Vonandi verður þetta eitthvað meira en liðskönnun , og hlustað verði á hvað þátttakendur hafi að segja. Það væri frábært að sjá slíka breytingu þar innan dyra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.