Ja,nú er það svart!

Ja, nú er ástandið svart. Fjöldauppsagnir blasa við í byggingariðnaðinum og 2/3 arkitekta og innanhúsarkitekta verða atvinnulausir innan tíðar. Ég er einn af þeim  Auðvitað gæti maður valið að verða fúll og leiðinlegur, og valið að líta svo á að nú væri komið að endimörkum. Auðvitað á þetta eftir að verða eitthvað erfiðara um tíma, en öll él stytta upp um síðir. Eða svo verður maður að vona.

Atvinnuleysi er eitt það versta sem fyrir hvern mann kemur, sjálfsvirðingin hrapar og maður getur fengið á tilfinninguna að starfskrafta manns sé ekki óskað. Auðvitað er það ekki svo. Hér er um það að ræða að verkefnin vantar. Þá er að finna sér einhver verkefni, helst þannig verkefni að þau geti gefið eitthvað af sér, eða verkefni sem styrkja mann þegar kallið kemur á nýjan leik, og þörfin verður fyrir starfskrafta manns.

Auðvitað verður maður að reyna að skilja þau sjónarmið manna sem nú vilja í að farið verði í að virkja og byggja upp stóriðju, í þeirri von að það verði til að þjóðin komist út úr vandamálunum fljótt og örugglega.  Slíkar framkvæmdir taka þó langan tíma, og skapa störf á takmörkuðum vettvangi . Eftir situr þó fjöldi fólks sem ekki er menntað til að vinna slík störf, og varla er það meiningin að hér eftir verði eingöngu  um störf tengd stóriðju að ræða og allir flytji til þess svæðis þar sem slík uppbygging er í gangi.

Hluti þeirrar uppbyggingar sem framundan er hlýtur að felast í því að skjóta sem víðtækustum stuðningi undir atvinnulífið í landinu, horfa á hvert svæði , og styrkja þær lausnir sem þar eru í boði. Þar hljóta ríkisvald og sveitarstjórnir að sameinast og finna leiðir til að efla atvinnuþróttinn á meðal þeirra sem atvinnulausir verða. Ekki bara styrkja þau fyrirtæki sem áfram verða rekin, heldur líka líta til þess mannauðs sem atvinnulaus verður.

Nú verður það að nokkru leyti aukin ábyrgð sem við hin brottreknu verðum að axla á næstu mánuðum. Við þurfum að finna leiðir til að komast aftur sem skjótast inn á vinnumarkaðinn á ný, í samstarfi við ríki og sveitarfélög. Til þess þarf að skapa vettvang.

Sá vettvangur má þó ekki vera sá að nú sá ástandið það að hér sé atvinnuleysi og ekkert annað við því að gera en bíða og sjá hvort ástandið batni ekki.  Sá vettvangur þarf að vera bundinn bjartsýni og uppbyggingu. Nýta þann mannauð sem atvinnulaus verður og gera þeim kleift sem góðar hugmyndir hafa að láta þær rætast. Bjóða fólki að safnast saman þverfaglega og þróa hugmyndir sem hugsanlegar eru til að nýtast við framtíðaruppbygginguna.  Og reyna að ýta þeim sem vænlegar virðast úr vör og sjá hvort þær blómgist ekki.

Hér þarf að virkja grasrótina, þá er atvinnulausir verða, þar liggur viljinn til að leysa verkefnið og þann vilja ber að styðja á hvern þann hátt sem mögulegt er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Gangi þér allt í haginn. Þetta eru erfiðir tímar fyrir okkur öll. Allir eru á einhvern hátt að missa eitthvað eða tapa einhverju. Því miður.

Vilborg Traustadóttir, 27.10.2008 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband