Í krafti meirihluta?

Auðvitað er það ekki gott að kastað sé eggjum og tómötum á Alþingishúsið, en það er skiljanlegt.Það er skiljanlegt á þann hátt að nú er fólk orðið reitt, og sumir  gefist upp á þeim kurteisilegu mótmælum sem við íslendingar erum þekkt fyrir. Fólk er orðið bæði þreytt og hissa á þeim útskýringum sem forsætisráðherrann gefur þjóðinni, hrætt um að maðurinn valdi hreinlega ekki hlutverki sínu lengur . Hann sé ekki sá foringi sem leitt geti þjóðina út úr því ástandi sem ríkir. Ég held að það sé rétt.

Hvað eftir annað hefur hann  gefið þjóðinni rangar og villandi upplýsingar, allt frá fyrstu dögum þessarar krísu hefur hann grafið undan sjálfum sér með ósannsögli,og það er ekki í  hans verkahring að skilgreina hvað eru skrílslæti og hvað eru mótmæli. Það er óljóst hvorum megin hann er sjálfur, þó hann haldi ró sinni ennþá.

Hann telur að í krafti embættis síns geti hann staðið vörð um þá peningastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn og náhirð hans hans hafa leitt yfir þjóðina á undanförnum árum. Það telur hann sig geta gert  meðal annars í krafti óvenju styrks stjórnarmeirihluta. Hann ætlar ekki að reka Seðlabankastjórann sem hann kynntist ungur við eldhúsborð ömmu annars þeirra , og hefur verið í fóstbræðralagi við síðan.  Þrátt fyrir að hinn stjórnarflokkurinn hafi bókað í ríkisstjórn að seðlabankastjóri sitji  ekki í umboði þess flokks. Frekar skal þjóðin blæða.

Þetta telur hann sig geta gert í krafti þingmeirihlutans sem er svo sterkur. En er hann það? Það má vel vera rétt að það séu margir þingmenn sem á bak við þá flokka sem nú mynda stjórn, en jafnljóst að stuðningurinn á bak við þá þingmenn fer stöðugt minnkandi. Þannig virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera orðinn að 15% flokki eða minna  í dag sé eitthvað að marka viðhorf fólks til þess flokks.

Það er ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr  getur ekki leitt þjóðina í gegnum þetta vandamál hversu góður sem viljinn kann að vera. Til þess hefur hún  ekki lengur þann meirihluta á bak við sig sem nauðsynlegur er .

Það er  ekki  nóg sem sumir halda fram að endurskoða þann stjórnarsáttmála sem nú er í gildi, og telji að stjórnin geti haldið áfram á þeim forsendum. Kjósendur ætlast til  að núverandi stjórn sem situr í augnablikinu sökum fornrar frægðar og gamalla atkvæða fari frá, og til komi ný stjórn með nýtt umboð. Þannig virkar lýðræðið. Og á það ber að hlusta

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er algerlega sammála þér. Það versta finnst mér hvað ráðamenn viðrast vera veruleikafyrtir. Þeir gera sér ekki grein fyrir eða viðja ekki skilja það að þeir eiga að fara frá, þeir hafa ekkert traust. Mér finnst að ráðherraliðið ríkisstjórnin eigi að segja strax af sér. Næstu þingmenn geta tekið við fram að kosningum sem yrði að efna til hið fyrsta.

Styttingur (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 22:15

2 Smámynd: Jón Einarsson

Heyr heyr!  Alveg sammála.  Lýðræði er til þess gert að fólk geti ráðið því sem það vill ráða þegar það vill.  Það var kosið fyrir hálfu öðru ári síðan og kjósendur hafa skipt um skoðun.  Skoðanakannanir sýna það!  Og eina lýðræðið sem virkar er ef við kjósum þegar fólki finnst það eigi að fá að kjósa, sérstaklega ef skoðanakannanir sýna það.  Ég blæs á þær kenningar að þeir sem krefjast helst kosninga séu liðsmenn vinstri grænna og framsóknarflokksins ágæta.  Þjóðin hefur talað, t.d. í gegnum Egil Helgason og Jón Baldvin.

Svo er ég líka sammála þér með mótmælin.  Það þarf að gefa í og jafnvel beita ofbeldi ef þörf krefur.  Mundu: nauðsyn brýtur lög!  Oft er eina leiðin til að friðsöm mótmæli virki sem skyldi að beita ofbeldi.  

En auðvitað á að kjósa, það er ótækt að við sem styðjum flokka sem ekki komust til valda í síðustu kosningum fáum ekki að komast til valda núna.  Það er það sem lýðræðið gengur út á, er það ekki, að koma flokknum sínum til valda?  Ég veit vel að mínar skoðanir eru þær bestu sem völ er á og þar af leiðandi þær bestu fyrir þjóðina, því ekki væri ég að hafa vitlausar eða rangar skoðanir (því þá myndi ég að sjálfsögðu skipta um skoðun).  Ergó, ég vil láta kjósa og ég vil láta kjósa Framsókn og þá hlýtur það að vera þjóðinni fyrir bestu.  Kjósa ekki seinna en strax! 

Jón Einarsson, 11.11.2008 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.