Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Tími til að hvíla.
Hvað er í gangi eiginlega hugsaði ég með mér í morgun þegar ég sá forsíðufrétt Morgunblaðsins um enn frekari drátt á að fjallað verði um umsókn Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrst þurfi að ganga frá annarri fjármögnun, áður en hægt verði að taka málefni Íslands fyrir og endanleg umsókn verði send inn.
Nú hefur maður beðið pollrólegur í einn og hálfan mánuð eftir að ríkisstjórn Geirs H Haarde kæmi með þær lausnir sem þeir hljóta að hafa séð þegar þeir ákváðu yfir helgi að setja Glitni sáluga í þrot, og forsætisráðherra sagði sunnudagskvöldið fyrir neyðarlög að ekki væri nein sérstök ástæða til aðgerða.
Því miður virðist það vera svo að ráðherrar Samfylkingar láti draga sig áfram, og sýni ekki þann manndóm er þarf til að þoka málum áfram. Þeir bóka í ríkisstjórn að núverandi fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins starfi ekki í þeirra umboði sem seðlabankastjóri, og verndari þeirrar peningastefnu sem seðlabankinn standi fyrir. Forsætisráðherra lætur þá vita opinberlega að þrátt fyrir slíka bókun sé það nú hann sem ráði hver er seðlabankastjóri og hann hafi ekki hugsað sér að breyta neinu þar. Sama hvað samstarfsflokkurinn bóki þar um.
Þeir samþykkja aðgerðir sem eru unnar yfir eina helgi án aðkomu annarra hagfræðinga en forsætisráðherra og aðstoðarmanns hans. Ekki var hagfræðingum til að mynda seðlabankans hleypt þar að.
Þeir ætlast til að við sýnum rósemd og skilning á meðferð málsins, og biðja um samstöðu á meðan það versta gengur yfir. Við höfum sýnt þeim þá samstöðu, skilið að það eru vandamál í sambandi Icesave reikningana, og að allt er í lausu lofti þess vegna. Þjóðin er lausu lofti, og áfram er beðið um þolinmæði.
Nú er kominn sá tími að þolinmæðin fari að þrjóta, tími til kominn til að Samfylkingarmenn viðurkenni vandann og hann verði ekki leystur með þeim er þeir töldu til þess hæfa. Senda þá í hvíld og leyfa þjóðinni að láta í ljós vilja sinn. Öðru vísi eigum við enga möguleika.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.