Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Hvað á að kæra?
Jón Ásgeir Jóhannesson hótar að kæra verði spurt, og finnst að sér vegið verði látið uppi hver lánaði til kaupa hans á hlutafé, sem virðist ætla að skapa honum einokunarstöðu á fjölmiðlamarkaði. Því miður fyrir Jón Ásgeir þá stjórnar hann því ekki að hverju menn spyrja, en greinilegt að hann er hræddur við svörin
Hvers vegna má ekki spyrja og hvernig Jóni Ásgeiri dettur í hug að hann geti kært menn fyrir að spyrja spurninga skil ég ekki. Hafi það verið banki sem kominn var í eigu íslensku þjóðarinnar sem lánaði honum fé , eftir það sem á undan var gengið, og Jón Ásgeir ber töluverða ábyrgð á ,er sjálfsagt að fá svör við því . Jón Ásgeir á ekkert inni hjá þjóðinni, og þjóðin hefur engan áhuga eða vilja til að lána honum pening svo hann geti stýrt hér umræðunni í framtíðinni.
Nú er kominn sá tími að allt komi upp á borðið, hvort sem Jóni Ásgeiri líkar það betur eða verr. Nú þarf að hreinsa til á brotastað, og fjarlægja þá brotamenn sem enn eru á vettvangi svo gögnum málsins verði ekki spillt.Það á ekki að afhenda þeim lykil að svæðinu til þess að þeir komist þar að aftur síðar, til að fullfremja glæpinn.
Dómsmálaráðherra hefur boðað að skipuð verði rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til að finna út úr falli bankanna. Og að sú nefnd fái víðtækar heimildir til að taka á móti gögnum frá þeim er hugsanlega hafa þar komið að gegn því að viðkomandi fái sakaruppgjöf sé uppljóstrunin meira virði en hugsanlegt brot viðkomandi.
Nú er ljóst að Jón Ásgeir hefur hlotið dóm og honum er óheimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Er það þá eðlilegt að banki í ríkiseigu láni honum til að eignast fleiri fyrirtæki ? Er hugsanleg kæra Jóns ekki bara staðfesting á að einhver hinna nýju bankastjóra hafi brugðist því trausti sem til viðkomandi var borið, og lánað honum það fé sem vantaði.
Ennþá sitji í raun sömu aðilar við kjötkatlana og feli sig á bak við bankaleynd. Með slíka menn innanborðs verður ekki skapaður grunnur að nýjum tímum, og því mikilvægt að þetta mál komist á hreint. Þetta er þrátt fyrir allt ekki bananalýðveldi, eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.