Laugardagur, 15. nóvember 2008
Húsmóðirin er komin heim
Húsmóðirinn er komin heim. Það er greinilegt að henni hefur ekki líkað hvað heimilisfólkið hefur verið að gera á meðan hún var í burtu, og skikkað þau til að taka til það drasl sem myndast hefur í fjarveru hennar. Hún veit að til þess að hafa stjórn á hlutunum verða menn að hafa skipulagið í lagi. Það hafði eitthvað raskast í fjarveru hennnar.
Sum mál eru þannig vaxin að þar þýðir ekkert að beita kröftum eða kjöftum, heldur verður skynsemin að ráða, og hefur sent út samningamenn til að lagfæra það sem húsbóndinn hafði klúðrað, sökum vöntunar á samræðunni við frúnna. Hann hafði ekki farið skynsömu leiðina og gleymt hvert hlutverk hans var. Hann átti að sjá um uppeldið og verkstjórnina á meðan frúin var í burtu, en ákvað frekar að fara í kúrekaleik með vinunum. Áttaði sig ekki á að hann var umkringdur.
Einhvern veginn svona kom þetta mér fyrir sjónir er ég las blöðin í morgum. Greinilegt að Ingibjörg hefur lesið pistilinn og sent menn til að greiða úr málum.
Menn komnir til Brussel að greiða úr málum Icesave ,enda er húsmóðurinni ljóst að ekki er hægt að elda hafragraut ef haframjölið vantar, og hún sendi samstarfsflokkinn inn í herbergi til að finna út úr sínum málum, og út skyldu þau ekki koma fyrr en skynsamleg lausn lægi á borðum. Sá flokkur skammast sín og biður um að fá að vera lengur inn í herbergi til að finna lausnina. Það má hann. Hann draslar þá ekki neitt á meðan.
Á meðan meginþorri barnanna hefur verið aðallega að drasla í kringum sig er greinilegt að nokkrir hafa þó reynt að leggja sitt af mörkum og tekið mesta draslið til í kringum sig. Ein er þó sem haldið hefur hreinu í kringum sig, lokað sig inni og unnið að lausnum þeirra vandamála sem fyrir voru sett.
Jóhanna Sigurðardóttir að öllum öðrum ólöstuðum hefur sýnt hvar hennar hjarta slær og nú komið fram með tillögur sem huga að hag heimilanna sem mörg hver eiga við ramman reip að draga. Hún vissi hvert hennar hlutverk var í fjarveru húsmóðurinnar. Bara að húsbondinn og frændinn í Svörtuloftum hefðu vitað það líka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður
Líney, 15.11.2008 kl. 16:37
Gvuð minn góður! Heldurðu virkilega að samfylkingin hafi bara falið sig á bak við hurð á meðan ISG var fjarverandi? Er þetta djúpur sandpyttur sem þú stingur hausnum ofan í?
Soffía (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.