Svarið

það er óhætt að segja að bæjarstjóri vor hér í Reykjanesbæ er snöggur til svara, og meira að segja það snöggur að svar hans fór framhjá mér í tölvupóstinum,þar til í dag að mér var bent á úti í bæ aðð svar hefði borist. Ég sá að kannski væri það hreint ekki sniðugt að senda svona spurningar um kostnað bæjarins vegna verkefna, sökum frjóleika meirihlutans sm nú ætlar fyrir utan leikjagarð að byggja líka dýragarð sem byrja á strax næsta vor að því er manni skilst á svarinu. í þessari stöðu spyr ég ekki meira því næsta svar myndi sennilega kalla á Tívoli næsta haust. Leyfi svo lesendum þessarar síðu að sjá svar hans og svar mitt þar fyrir neðan og vona að menn hafi skilning á varla er á það hættandi að spyrja meira í bili.

Svar Árna:

Sæll Hannes, Staða Reykjanesbæjar er skárri en flestra annarra íslenskra sveitarfélaga. Við getum vel tekist á við þann vanda sem framundan er. Við höfum sterk atvinnutækifæri og jákvætt og dugmikið fólk. Við þekkjum vel hvernig er að fást við mikið atvinnuleysi, eftir brotthvarf varnarliðsins og erum því að breðgast við bæði til að styðja þá sem missa vinnuna, en mestu varðar að berjast fyrir fleiri atvinnutækifærum á þessum viðsjárverðu tímum.  

Mér finnst  ósanngjarnt að þú gerir lítið úr þeim hugmyndum og óskum sem fjölmargir foreldrar hafa fært okkur að æskilegt væri að hafa yfirbyggða aðstöðu til leikja fyrir börn. Foreldrar fylgja börnum sínum á staðinn og eru með þeim, rétt eins og gildir á leikvöllum. Þar er ekki gert ráð fyrir starfsmönnum í gæslu. Í þessu stóra rými er einnig gert ráð fyrir  að geta geymt muni sem tengjast víkingaskipinu og verkefnum í Víkingaheimi.

Bærinn hefur í hvert sinn, undanfarin fjögur ár, sem Rammahúsið hefur verið til sölu, og það hefur nokkuð oft borið á góma, skoðað möguleg kaup á því, en ekki talið verðið nógu áhugavert, enda húsið alltaf selt í heilu lagi. Nú opnaðist þessi möguleiki og verðið komið í 70 þús kr. á fermetra. Húsið er í sjónlínu af Reykjanesbraut við Víkingagarðinn og Ölduna, sýningarhús Íslendings. Þarna hugsum við okkur stórt svæði til framtíðar fyrir ferðaþjónustu. M.a. húsdýrasýningu, nærri Stekkjarkoti, sem sefnt hefur verið á að koma upp á næsta ári, í samstarfi við sérfræðinga á því sviði. Þar er kostnaður í lágmarki, en gott verkefni í þágu barna og ferðaþjónustu. Það var því mikilvægt að ná tökum á þessu húsi við Reykjanesbrautina. Þjónusta fyrir börn, möguleg geymsla fyrir Íslending og margt fleira sómir sér vel þar. Í drögum að nýju aðalskipualgi er einmitt reynt að loka á iðnaðarstarfsemi af þyngri endanum á þessum stað, einmitt af því að svæðið er framtíðarsvæði í ferðaþjónustu, en reynt að beina þyngir iðnaði til Helguvíkur. Um þett tel ég vera fullt samkomulag nefndarmanna, óháð stjórnmálaflokkum.  

Svar við spurningu um kaup á öllum eignum sem fara á uppboð og fasteignagjöld standa ógreidd, á því ekki við. Svarið er því nei! Sérhvert mál væri þó skoðað ef erindi um það bærist.  Tankurinn við bygginguna, sem þú segir réttilega að sé öllum þyrnir í augum, hefur ekki fengist fjarlægður, þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar þar um. Eiganda er ekki skylt að fjarlægja slíkan búnað af því að hann sé þyrrnir í augum margra. Nú getum við gert það og munum gera það. Væntanlega vilja einhver járnsöfnunarfyrirtæki gjarnan taka að sér að rífa hann ókeypis, til að fá efnið og við erum strax að kanna það.  

Ég bið þig vinsamlegast að snúa þér til Böðvars Jónssonar með spurningar um hvað hann sjálfur eigi við. Þótt við séum samherjar í pólitík og góðir vinir, er hann mun frjórri í hugsun og greiningu en ég, svo betra er að hann svari um eigin hugleiðingar.  

Ég vona að þú virðir þessi svör, en ég reyni að gera þau það ítarleg að þetta þýði ekki bréfaskipti okkar á milli næstu mánuði. Ég hef því miður ekki tíma til svo persónulegrar þjónustu :)Ég svara þér í fyllstu einlægni í von um að þú reynir ekki að snúa út úr eða hæðast að svörunum, enda þekki ég þig ekki að slíku. Gakktu á Guðs vegum kv. Árni  

Svar mitt:

Sæll  Árni og þakka góð svör.Ekki ætla ég nú að verða til þess að draga úr bjartsýni þinni og baráttuþreki, sem er til fyrirmyndar. Og ég veit að við getum tekist á við þann vanda sem framundan er með jákvæðni og skynsemi. Já og raunsæi. Að átta okkur á stöðunni og vinna út frá því.   Ekki finnst mér það nú merkileg rök að önnur sveitarfélög  séu í vondum málum, þannig að við megum gera hvað sem er. Hvað varðar styrk bæjarins fjárhagslega ætla ég að leyfa mér áfram að vera í vafa um þrátt fyrir orð þin, í ljósi þeirrar staðreyndar að bara fjármagnsliðir bæjarins á þessu ári verða í kringum 2.milljarða svo einhverjar skuldir hljóta að vera þar á bakvið og fregnir hafa borist um að sviðsstjórum bæjarins verið gert að spara um allt að 30% á næsta ári, auk skuldbindinga bæjarins í formi húsalegu, sem nú eru víst á þriðja tug milljarða sé litið til næstu 25 ára og svona gæti maður áfram talið.  Þú skilur það.   Það er rétt hjá þér að hér býr jákvætt og dugmikið fólk, og útlit fyrir góð atvinnutækifæri, þrátt fyrir að þar hafi  hægt hafi  á um stundarsakir. Nú er ekki tíminn til að fara út og leika sér, þó freistandi sé.

Nú var það alls ekki meining mín að gera lítið úr þeim hugmyndum  og óskum sem fram hafa komið, heldur einungis að leita svara við spurningum sem vöknuðu upp þegar í ljós kom að nú skyldi rísa hér leikjagarður . Því miður hafa svör þín við spurningum mínum hvað varðar leikjagarðinn ekki skýrt málið svo neinu nemi, heldur hafa bæst við fleiri spurningar í ljósi þess hve þetta verkefni stækkar ört, án þess þó að um það hafi verið rætt nokkurs staðar í nefndum bæjarins sé að marka fundargerðir þær er birtast á vef bæjarins. Nú er skyndilega kominn húsdýragarður sem hefja skal framkvæmdir við næsta sumar. Fleiri spurningar hafa nú vaknað, en best fyrir fjárhag bæjarins að spyrja þeirra ekki því þá gæti verið komið þarna Tívolí áður en maður veit af.    

Það er nú gott að tankurinn hverfi  og okkur að kostnaðarlausu enn betra. 

 Ef það er það sem þarf til frjóa hugsun og skýran greinanda til að útskýra þau góðu mál sem A-listinn á að hafa stoppað, tel ég ekki þörf fyrir að halda þeirri spurningu til streitu. Hún hefur svarað sér sjálf.  Ljóst er að yfir 95% mála í nefndum og ráðum bæjarins eru samþykkt samhljóða, mál sem hljóta þar af leiðandi að teljast góð mál. Spurning hvað hin varðar?  Ég vil nú enn og aftur þakka þér Árni fyrir snögg svör, þó kannski hefðu þau nú virkað meira traustvekjandi ef ljóst hefði verið að um þau hefði verið hugsað. Ég leiði  hjá mér þau tilmæli þín að ég láti þig í friði með bréfaskriftum næstu mánuði, í ljósi þess að þú hafir ekki tíma til svo persónulegrar þjónustu. Það bauðstu upp á þegar þú bauðst þig fram sem bæjarstjóra , og ekki lít ég nú á að bæjarstjóri sá sem ég kaus þurfi  ekki að svar bæjarbúum þeim spurningum sem til hans er beint. Það væri nú eitthvað skrýtið lýðræði. Með bestu kveðjuHannes Friðriksson 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.