Miðvikudagur, 17. desember 2008
Við hefðum betur hlustað.
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, en mikið rosalega tók langan tíma að fá hlassið til að rúlla datt mér í hug í dag þegar á fjöru mína rataði það sem ég vil kalla tímamótaræðu um Evrópumál sem flutt var af Karli Steinari Guðnasyni þáverandi alþingismanni okkar Suðurnesjamanna fyrir hartnær 16. árum síðan og ég læt tengilinn fylgja með hér fyrir neðan.
http://www.althingi.is/altext/116/01/r08142710.sgml
Tilefni ræðu þessarar var samningurinn um evrópska efnahagssvæðið, samningur sem margir voru á móti á þeim tíma en hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Það sem þó er athyglisvert er að þarna stendur að því er virðist í fyrsta sinn fram maður og talar fyrir inngöngu í ESB og þar með talið upptöku Evru. Eins og fram kemur í ræðu hans stendur hann einn með þessa skoðun sína í Alþýðflokknum sáluga á þessum tíma , þó fleiri ættu efir að setjast í lestina seinna. Þarna fór maður sem þorði.
Hann rekur í ræðu þessari sögu sem við sem yngri erum ættum að staldra við og hugsa um, því sú saga fjallar ekki eingöngu um það sem okkur hefur verið efst í huga undafarinn ár, og ennþá eymir eftir af þegar Evrópumálin eru rædd hvað við látum af hendi og hvað við fáum í staðinn. Þetta er ekki ræða sem flutt er út frá hagsmunum eingöngu, heldur er hér um stefnumarkandi hugsjónaræðu að ræða.
Þarna kemur fram sú grunnhugsun sem að baki liggur stofnun ESB sem er sameinuð Evrópa og sú ósk íbúa Evrópu að losna út þeirri stöðu að furstar, kóngar og spilltir stjórnmálamenn sköruðu stöðugt eld að eigin köku, án tillits til alþýðunnar sem í löndundum búa . Staða sem í dag stendur okkur íslendingum óþægilega nærri, þó titlarnir séu að nokkru leyti aðrir.
Evrópusambandið er nefnilega ekki bara myntbandalag og ófreskja sem svo margir andstæðingar aðildarviðræðna vilja halda fram heldur líka sá vettvangur þar sem smáríki eins og Ísland hafa möguleika á að hafa áhrif á þær ákvarðanir er þau varðar.
Þeir flokkar sem mest og harðast hafa barist á móti aðildarviðræðum hingað til hafa gert það í skjóli þess sem kalla má miskilinnar þjóðrembu og haldið því fram að hér væri verið að afsala sér sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar til frambúðar, en hafa þó ekki fyrr en nú sextán árum eftir að Karl Steinar flutti ræðu sína á Alþingi áttað sig á nauðsynlegt er að hefja sig upp yfir þann útnárahugsunarhátt sem hingað til hefur viðgengist.
Það er svolítið merkilegt að ræða sem flutt var fyrir sextán árum, þar sem rök og útskýringar fyrir aðildarviðræðum eru lögð fram skuli nú standast svo nákvæmlega sem raun ber vitni. Hefðu menn borið gæfu til að hlusta á og íhuga það sem þá var sagt, í stað þess að viðhalda því lénsherrafyrirkomulagi sauðspilltra stjórnmálamanna og útrásarvíkinga sem hér hefur ríkt væri staða okkar íslendinga sennileg talsvert önnur.
Við hefðum orðið að gera það sem eðlilegast hefði verið, að aðlaga okkur að breyttum áherslum og taka þátt í samvinnu þjóða ekki bara á okkar forsendum, heldur með hag heildarinnar að leiðarljósi. Við hefðum fengið það skjól sem aðrir íbúar ESB búa nú við. Við hefðum verið þjóð meðal þjóðanna ekki bara í skamman tíma eins og komið hefur í ljós heldur um alla framtíð.
Við gerðum það sem Jón Hreggviðsson ráðlagði Hólmfast Guðmundssyni að gera þegar hann kvartaði undan hlutskipti sínu í tugthúsinu að Bessastöðum, en hann seldi fjóra fiska í Hafnarfirði fyrir snærisspotta í stað þess að leggja þá inn hjá Keflavíkurkaupmanni. Við hengdum okkur í eigin spotta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábært að Karl Steinar skuli hafa verið fyrstur. Einhvernvegin tengdi maður EES við Jón Baldvin frekar. Gallinn við ESB umræðuna hérlendis er sá að kratar svokallaðir og sá armur þeirra sem fór í Samfylkinguna hafa helst haldið ESB inngönu til streitu í málflutningi. Framsókn er klofin í þessu máli en er að komast á rétta braut en líklega of seint miðað við kjörfylgi. Vinstri Grænir ( gamall bændaflokkur?) hafa málað sig út í horn með ( hræddum og óviisum) Sjálfstæðisflokknum. Frjálslyndi flokkurinn ( stofnaður um eitt stakt málefni) þorir ekki að taka afstöðu. Sammála því að þjóðrembingsumræðan er besta atlagan gegn inngöngu í ESB og verður notuð óspart framvegis. Þegar menn halda fram slíkum fullyrðingum að aðild sé "yfirtaka ESB á Íslandi og auðlindum þess" þá getur maður varla byrjað rökræður við þetta lið sem er svona forpokað. ESB er hinsvegar ekki kratamál þó að kratar á sínum tíma yfir skorti á góðum málefnum fyrir sína hönd hafi hoppað á ESB lestina. Þeir hafa einhvernveginn aldrei verið þjóðrembnir kratar. Gott fyrir þá núna.
Gísli Ingvarsson, 17.12.2008 kl. 13:17
Bara Guð hjálpi þér, er ekki allt í lagi hjá þér. Ertu heilaþveginn af ESB trúboðinu. Heldurðu að andstaðan snúist bara um þjóðrembu, sem annars er mun betri en þjóðleysa. Hefurðu ekkert skoðað hvað Vladimar Bukovski virrtur vísindamaður sem sat lengi i fangabúðum Sovét Gúlaksins hefur að segja um reynslu sína af EVRÓPUSAMBANDINU og reglum þess. Þær minna hann óþyrmilega á lög, reglur og tilskipanir Sovétsins Gamla og því varar hann mjög stranglega við þeim ! Þetta ómannlega og ólýðræðislega miðstýringar apparat minnir um margt hvort á annað.
Þess vegna mun ég aldrei í lífinu ganga þessum ESB fjanda á hönd !
Góðar stundir.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 00:58
Leyfi mér að senda hér inn fyrir neðan sem ég fann á Fullveldi.blog.is Ragnar Arnalds er fyrrum ráðherra og þingmaður og finnst mér gott að fylgjast með honum hann hefur mikla yfirsýn í ESB málunum.
Það sem við kjósendur þurfum á að halda hvort við erum með eða á móti ESB aðild og svo í framhaldinu hvort kjósendur vilji taka upp evru í stað krónu er að það verði upplýst umræða um þessi mál.
Það væri góð byrjun að Íslensk yfirvöld (Ingibjörg Sólrún) drifi sig í því að láta þýða nýju stjórnaskrá ESB á okkar tungumál því þá ætti það að vera tryggt að allir geti tekið afstöðu skammlaust með eða á móti þegar og ef kæmi til kosninga um það hvort við viljum inngöngu eða ei í Evrópubandalagið.
Það er líka nauðsynlegt að Maastrich-sáttmálinn sem er aðgangsmiði að evrunni þegar ESB þjóð hefur samþykkt og uppfyllt öll skilyrðinn hans verði líka þýddur á íslensku. Danir felldu Maastrich-sáttmálann 1992 i þjóðaratkvæðagreiðlu.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
Föstudagur, 26. október 2007
Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB
B.N. (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 01:37
"......fangabúðum Sovét Gúlaksins hefur að segja um reynslu sína af EVRÓPUSAMBANDINU og reglum þess" Maðurinn hefur örugglega haft reynslu og það slæma frá Sovét. Mér finnst hinsvegar fullgróft að setja það í samband við ESB löggjöf. Það er nákvæmlega ekkert samband þarna á milli. Ef menn vilja ímynda sér að einhver valdasjúk glæpaforusta samansett af fyrrverandi nasistum, ofurfrjálshyggjumönnum og kommúnistum að ógleymdum fas og falangistum bræði með sér yfirtöku á Íslandi og þá væntanlega öllum heiminum að lokum þá er það velkomið mín vegna. Ég nenni ekki einusinni að pæla í svona samhengislausu samsæri illra afla. Þegar kemur að magnleysi Íslands í alþjóðasamskiptum þá er það algert: Totalt ekkert nix núll. 1% formlegt vægi innan ESB væri framför hlutlægt séð. En ef það er staðföst trú manna að ESB sé nýtt sovét þá verður bara svo að vera. Að nota Fullveldi og Þjóðrembing og ótta við stóru ljótu útlendingana til að hræða Íslendinga frá alþjóðasamstarfi sem er friðsamlegt og gagnlegt það finnst mér ljótt.
Gísli Ingvarsson, 18.12.2008 kl. 12:03
Blessaður Gunnlaugur Ekki tek ég þessari umræðu nú sem trúboði, heldur eru enn hér að skiptast á skoðunum. Sjálfur tel ég að miðað við þá stöðu sem nú er uppi að regluverk það sem þér er svo illa við hefði bjargað miklu hér, að ég tali nú ekki um hefðum við verið svo lánsöm að móta okkar peningastefnu út frá þeim aðstæðum sem ríkt hafa í okkar aðal viðskiptalöndum, í samvinnu við þau. Sá tími er löngu liðinn að lítið eyland geti ákveðið örlög sín sjálft, þótt gaman væri. Það að vitna til manns sem greinilega hefur ekki góða reynslu frá Svétríkjunum gömlu og líkir regluverkinu þar saman við ESB finnst mér nú vera svolítil skógarferð hjá þér ekki nema ef vera fyrir þær sakir að þeir sem í forystu ESB á hverjum tíma sitja eru þangað kosnir lýðræðislegri kosningu , ekki var því nú fyrir að fara í Sovétinu. Og að mannvonska þeirra og valdagrægi sé svo mikil að þeim sé mikið í mun að níðast á smáþjóðunum þar inni finnst mér nú kannski lýsa hugsanagangi þinum betur en raunveruleikanum. Blessaður Baldvin Tek undir nánast hvert orð þitt um að við þurfum upplýsta umræðu um þetta mál og einnig að það væri þarft verk að þýða þau skjöl sem þu þarna nefnir ef það hefur ekki verið gert nú þegar. En forsenda endanlegrar afstöðu okkar hlýtur þó að vera að fram hafi farið aðildarviðræður svo ljóst sé um hvað verið er að ræða. Fyrr getur maður ekki tekið þá upplýstu afstöðu sem nauðsynleg er. Blessaður Gísli Sammála hverju orði, og sértaklega því síðasta því það er ljótt.
Hannes Friðriksson , 18.12.2008 kl. 13:14
Sæll Hannes
Það eru 27 ríki núna aðilar að Evrópusambandinu. Rómarsáttmálinn er og hefur verið ígildi stjórnarskrá ESB allt frá stofnun sambandsins. Nú er unnið leynt og ljóst í Brussel að koma á nýrri stjórnarskrá þar sem vægi ríkja í atkvæðagreiðlum fer eftir fjölda íbúa í hverju ESB-landi í stað þess eins og það var að hvert ríki hafði neitunarvald eins og frægt var þegar danir höfnuðu Maastrich-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðlu 1992.
Þessi úrslit í Danmörku setti allt ESB samstarfið í uppnám vegna ákvæða í Rómarsáttmálanum þar kemur fram að ESB reglurnar skulli yfir alla ganga á jafnréttisgrundvelli þó með þeirri undantekningu að hægt er að fá undanþágu tímabundið meðan ný þjóð er að ná áttum að hún hafi ekki það vald sem hún hafði. Skotar fengu undanþágu fyrir sjávarútveginn sinn í 15 ár á sínum tíma sá tími er nú úti og þeir eru ekki hressir með stöðu mála í dag. Skotarnir hafa ekki meiri rétt en spánverjar sem dæmi að veiða fisk í fyrrverandi fiskveiðalögsögu Skotlands frekar en spánverjar.
Það að tala um aðilarviðræður er blekking ein því reglurnar eru klárar hjá Evrópusambandinu hvað er í boði fyrir þær þjóðir sem hafa áhuga á að gerast aðilar að ESB. Ísland getur hafið viðræður við ESB um það hvort við afsölum okkur fiskimiðunum eftir 5 ár,10ár eða 15 ár sem dæmi. Það er ekki hægt að semja um aðra reglu fyrir Ísland sem ekki eru í gildi hjá ESB-löndunum til framtíðar það er stóra málið!!!
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.