Mánudagur, 29. desember 2008
Frábær Páll Skúlason
Mikið ósköp var gott að heyra viðtalið við Pál Skúlason hjá Evu Mariu í gærkvöldi.
Hann fór yfir sviðið og ræddi málin út frá sjónarmiðum sem ekki hafa átt mikið upp á pallborðið hér á landi undanfarin ár. Benti okkur á að þó viðskipti og markaðsvæðing væri ágæt til síns brúks væri það ekki allt. Lífið ætti ekki að snúast um að skara stöðugt eld að eigin köku, heldur væri það samvinnan og jöfnuðurinn sem skiptu meira máli svo fólk gæti átt innihaldsríkt líf.
Hann benti okkur á að nú ættum við að hafa lært nóg til þess að slíkir hlutir sem yfir land okkar hafa gengið undanfarið endurtækju sig ekki. Nú þyrftum við að enduskoða alla hluti í okkar tilveru og halda í þá sem sannanlega eru samfélaginu til góðs, en jafnframt hafna þeirri markaðs og einkavæðingarhyggju sem hér hefur riðið húsum undanfarin ár. Sú stefna hefði ekki skilað okkur áfram sem þjóðfélagi jöfnuðar, heldur þvert á móti.
Nú væri tíminn til að nýta tækifærið, og ýta undir frjóa og gagnrýna hugsun, að virkja borgarann til að hugsa og taka meðvitaðar ákvarðanir hverju sinni. Ekki láta sjálfskipaða foringja segja okkur hvað væri rétt eða rangt, heldur fylgja hjarta okkar og og berjast fyrir hugsjónum okkar hverjar sem þær kunna að vera. Þá fyrst færi lýðræðið að virka í sinni tærustu mynd.
Það sem mér fannst þó athygliverðast var sú hugsun hans að nú væri kannski góður tími til að endurvekja samvinnuhugsjónina sem áður hefur skilað okkur svo miklu. Það fannst mér góð hugmynd.
Nú er það svo að þegar gamlar og góðar hugmyndir eða hugsjónir eru endurvaktar þá er það oftast gert vegna atburða sem gerst hafa á milli þess sem þær sofnuðu og þar til þær eru vaktar á ný. Það þýðir þó ekki að það séu sömu aðilar og svæfðu eða misfóru með góða hugsjón að þeir séu þeir bestu til að færa hana áfram á nýjum tíma.
Kannski eru það ekki þeir framsóknarmenn með þeirri hugmyndafræði og forystu sem þeir hafa sýnt undanfarin ár ekki þeir bestu til að færa þá hugsjón áfram. Þar eru kannski allir aðrir betur til fallnir. Nema um algera hugarfasrsbreytingu á þeim bæ verði um að ræða.
Sú samvinnuhugsjón sem mér fannst Páll vera að boða að vert væri að endurvekja byggist nefnilega á jöfnuði og samvinnu allra, en ekki bara sumra eins og til að mynda dæmið með Gift hefur sýnt okkur. Sú hugsun jafnaðar og samvinnu sem okkur er svo nauðsynleg núna byggir nefnilega á að hún nái yfir allt sviðið, í umræðuna, í stjórnmálin og inn á heimilin. Að menn nái að höndla málefnin á hverjum tíma með skynsemi út frá hag allra og þar sé ekki verið að hygla einum umfram aðra. Ef það næðist yrði aftur gott að búa á Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér Hannes að Páll hafði margt fram að færa í þessu viðtali. Sumum fannst hann fara of mjúkum höndum um íslenska stjórnmálamenn þegar hann talaði um litla spillingu í þeim herbúðum. Mér fannst það frekar vera akademísk varfærni og komment á pólitík almennt, ekki bara nokkra ráðherra.
Setti sjálfur saman smá bloggum viðtalið. Mér fannst einna athyglisverðast sú aðvörun sem hann kom með; að bíða ekki eftir að hingað komi "frelsarar" sem vísa okkur veginn til framtíðarlandsins.
Haraldur Hansson, 30.12.2008 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.