Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Það skal ekki fordæma.
Undanfarnar vikur höfum við íslendingar verið í hálfgerðu losti yfir stöðu okkar mála og eflaust hafa margir átt andvökunætur yfir þeirri stöðu sem nú er kominn upp. Flestir eru sammála um að nú skuli renna upp nýíir tímar, tímar þar sem manneskjan og velferð hennar er sett í fyrsta sæti, pólitískar áherslur endurskoðaðar og horfið frá þeim gildum sem leitt hafa yfir þjóðir heimsins kreppur og stríð.
Í nótt átti ég eina slíka andvökunótt, ekki vegna eigin erfiðleika, heldur vegna mynda sem sýndar voru á flestum sjónvarpsstöðum í gær. Það voru sjokkerandi myndir þar sem faðir bar barnið sitt látið í gegnum stæti Gasaborgar. Ég skildi ekki hvernig slíkir hlutir gætu gerst og væru látnir viðgangast í því siðmenntaða samfélagi sem við teljum okkur vera.
Maður horfir til viðbragða okkar eigin stjórnmálamanna sem maður skilur ekki. Ég skil ekki ummæli varaformanns Sjálfstæðisflokksins sem um helgina taldi ekki rétt að fordæma árásir sem þessar, þrátt fyrir að fyrst og fremst séu það óbreyttir borgar og börn sem verða fórnarlömb þeirra átaka sem þarna fara fram. Bíða frekar og sjá hver viðbrögð Obama sem enn ekki er kominn í embætti verða.
Ég skil vel að Ingibjörg Sólrún skuli fordæma þessar árásir, án þess að kalla ríkisstjórnina saman til að staðfesta þá yfirlýsingu. Hún valdi að fylgja eigin sannfæringu og sennilega einnig meirihluta jarðarbúa þegar hún fordæmdi þessa árás. Árás á þjóð sem ekki hefur minnsta möguleika á að verja sig. Þjóð sem er króuð út horn og getur ekki einu sinni flúið Við lentum sjálf í því nýlega þó með öðrum hætti væri.
Kannski er það einmitt þessi mismunandi skilningur varaformanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Samfylkingarinnar um hvað beri að fordæma og hvað ekki sem er okkar vandamál. Skilningurinn á því siðferði sem nú er uppi í heiminum. Sá skilningur hefur sýnt sig áður og þá var það innrásin í Írak, þar sem sami skilningur var uppi. Það er óhætt að myrða börn og gamalmenni séu réttir hagsmunir í húfi. Það þarf að sýna styrkinn og valdið.Það skal ekki fordæma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
En hvað ég er sammála þér. þarf Íslenska Þjóðin eiginlega alltaf að bíða eftir því hvað Bandaríkjunum finnst? Hver er ekki sammála um að það verður að stoppa þessari skelfilega slátrun saklaus fólks? Og slita samband við þjóð sem stendur fyrir þessu!
Úrsúla Jünemann, 6.1.2009 kl. 14:54
Sammála. Og eins og er skiptir ekki máli hver forsagan er. Hver byrjaði og hver gerði svo hvað. Það er hægt að deila endalaust um. Það sem skiptir máli hér og nú er að þessi morð verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum og svo koma friðarferli í gang. Þar með talið að leita leiða til að stöðva flugskeytasendingar Hamas. Nú fer fram þjóðarmorð á íbúum Gaza. Fjöldaaftökur á saklausu fólki. Og þetta verður að stöðva ekki seinna en núna.
Mig hryllir við orðum Bjarna Benediktssonar um að eigi að taka tillit til þarfa Ísraela og bíða í tvær vikur með að "álykta" um ástandið. Hvað deyja og limlestast mörg börn, konur og saklausir karlmenn á þeim tíma?
Karl Pálsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:56
Sammála en er ekki hættulegt að taka afstöðu með öðrum á sama tíma og hann heldur áfram árásum, þetta er nú bara smá pæling því ég skal fúslega viðurkenna að ekki er vitneskjan um uppruna átakana upp á marga fiska hjá mér. En ég sá einu sinni þátt um svæðið og það sló mig þegar börn um fimm ára aldurinn sögðust hata Ísraela án þess að vita afhverju eða hvernig þeir væru einungis af því að pabbi segir svo. Það ætti svo sem ekki að vera spurning að friður er það sem við viljum.
Jóhann S Kristbergsson, 6.1.2009 kl. 20:32
Jú auðvitað getur það verið hættulegt, en í þessu máli tel ég þó ekki svo vera. Ljóst er að Ísrelsmenn hafa haldið íbúum Gasa í langan tíma í herkví læst þá inni á litlu svæði, erfitt hefur verið um aðföng og þeir verið eins og fangar í búri. Ég ætla mér ekki á nokkurn hátt að réttlæta árásir Hamas, en eins og við heyrðum í fréttum nú í kvöld er ekki hikað af hálfu ísrealsmanna á skjóta á jafnvel spítala og skóla sé einhver möguleiki á að Hamas menn leynist þar, þó ljóst sé að það eru borgarar sem verði fyrir árásinni. það finnst mér óforsvaranlegt og full ástæða til að fordæma verknað sem þennan.
Hannes Friðriksson , 6.1.2009 kl. 21:14
Auðvitað mótmælum við stríði og þetta stríð ef svo má kalla svo ójafnan leik er sjálfsagt. Mér fannst ISG gera rétt í því að láta það verða eitt sitt síðasta verk fyrir geislameðferðina að segja sinn hug. Pólitísk umræða er hinsvega svo lagskipt að það fer alveg eftir því í hvaða samhengi menn tala hvort úr því verður mótmæli eða bara áhyggjur yfir þróun mála. Við megum ekki gleyma því að við erum herlaust land og styðjum ALDREI stríð. Hvernig væri að hafa það fyrir prinsípp og sjá svo til hvort það yrði ekki borin virðing fyrir því. Ég held það.
Gísli Ingvarsson, 6.1.2009 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.