Föstudagur, 9. janúar 2009
Skóraunir
Eitt það vandasamasta sem maður gerir er að velja sér skó, skó sem bera mann yfir þær torfærur verða kunna á vegi manns. Þar ber margs að gæta. Þannig velur maður sér ekki sömu skó fyrir fjallgöngu og til að fara á dansleik. Þeir eru hannaðir með sitthvorn tilganginn í huga.
Ég hef einu sinni verið svolítið óheppinn með að velja mér skó, þá var það vegna þess að ég hafði ekki litið nógu vel á leðrið sem í þá er notað, og þeir því ekki staðið undir þeim væntingum sem ég hafði gert til þeirra. Það höfðu komið rifur í saumana hér og þar, þannig að þeir höfðu vikkað og myndast núningsár á fótum mér, en áfram hélt ég aðallega vegna þess að ekki var skóbúð nálægt til að kaupa mér nýja.
Ég hef undanfarna daga verið að hugsa um og tala við vini mína um þá sterku fjallgönguskó sem ég keypti mér á síðastliðnu hausti. Þeir voru fallegir og pössuðu vel við fjallgöngugallan sem ég hafði orðið mér úti um hér og þar í gegnum lífið. Ég var sannfærður um að þeir ættu eftir að bera mig upp á þau fjölll sem ég ætti eftir ógengin. En þeir eru byrjaðir að meiða.
Ég hef verið að hugsa þetta og litið á saumana, sem virðast vera í góðu lagi og hællinn er sem lagaður að löppunum á mér svo ekki er það ástæðan. Ég hef borið vel á þá þannig að þeir eru vatnsheldir. En það er ljóst að einhverstaðar á skónum virðist vera rifa sem hleypir inn ryki sem svo nuddast inn í lappirnar og meiða.
Síðast þegar þetta gerðist fór ég með skóna til skósmiðs sem fór yfir þá og taldi að miðað við efnið og það sem hann hafði gert við þá myndu þeir duga til þess sem ég hafði ætlað þeim og þeir voru að virka ágætlega þar til nú nýlega að þeir virðast vera farnir að láta á sjá og byrjaðir að meiða aftur. Nú fór ég að verða örlítið pirraður því þegar ég keypti skóna taldi ég mig virkilega hafa ígrundað það vel hvort þetta væru þeir skór sem ég vildi. Og ennþá er ég þokkalega ánægður með þá.
Ég ákvað að í næstu ferð yrðu þeir settir í gjörgæslu auk þess sem vinur minn einn lánaði mér nema sem skyldi gera mér aðvart ef eitthvað óeðlilegt ætti sér stað í saumum eða leðri á göngunni. Og það gerðist.
Í einni pásunni þegar ég hafði farið úr skónum og lagt þá á bak við lítinn hól heyrðist í nemanum og ljóst að eitthvað var i gangi. Ég læddist að hólnum og fylgdist með í smástund. Út úr skónum kom hoppandi lítil mús og gott ef ekki var brosti hún allan hringinn ánægð með sig. Hún hafði skitið í skóinn.
Eftir miklar vangaveltur og rannsóknir kom í ljós að leðurfeiti sú sem félagi minn hafði látið mig hafa innihélt einhver þau efni sem löðuðu að sér mýs sem þurftu að ganga örna sinna. Þær litu á skóinn sem klósett.
Mér er sagt að með góðri hreinsun geti ég haldið áfram að nota skóinn, en það sem verra er þá hefur komið í ljós að vinurinn sem lét mig fá leðurfeitina vissi hvað hann var að gera, sá vinur verður ekki fjallgöngufélagi minn í bráð, og ég vona að það reynist rétt að hægt verði að hreinsa skóna svo viðunanadi verði. Annars verður maður sennilega að fá sér nýja skó, nú eða labba bara um skólaus eins frumbyggjarnir gerðu og sætta sig við að annað slagið fá maður flís í fótinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Athugasemdir
En það er nú fallegt að vera góður við litlu dýrin.
Úrsúla Jünemann, 9.1.2009 kl. 10:42
já það verður maður að vera, en þegar þau eru komin í skóna manns, þá verður maður að passa sig á að stilla skónum þannig að mýsnar komist ekki í þá. Því þær séu fallegar litlu greyin geta þær skemmt mikið.
Hannes Friðriksson , 9.1.2009 kl. 15:55
Talandi um dýrin
ÍSLENSKT FYRIRTÆKI
þú átt 2 kýr.
Kemst að þeirri niðurstöðu að sveitin er allt of lítil fyrir stórhuga mann eins
og þig. Þú ferð að selja mjólk erlendis. Kaupir beljur út um allan heim gegn
veði í framtíðarvirði mjólkurnytja. Gengur mjög vel þar til kemur í ljós að
sveitafélagið getur ekki ræktað nógu mikið gras til að standa á bak við þínar
skuldbindingar. Sveitarfélagið kemur og tekur yfir búskapin, selur allar
beljurnar í nautahakk. Þú og sveitarfélagið verða gjaldþrota.
Fjölnir (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 00:37
Góður Fjölnir
En hver var sveitarstjórinn og í hvaða flokki var sveitarstjórinn sem tók ákvörðunina.
Hannes Friðriksson , 11.1.2009 kl. 11:25
Hannes .. það var alveg örugglega hann Geir og innræktuðu kýrnar hans ;)
Fjölnir Freyr (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.