Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Frumkvæði og ábyrgð
Það er nánast flestum ljóst að sú stjórn sem núna situr, er þar ekki lengur í krafti þess meirihluta sem hún hafði þegar hún var kosin. Og jafnframt er okkur Samfylkingarmönnum það vel ljóst að ein meginástæða fyrir því að hún situr enn, er á okkar ábyrgð. Við höfum hingað til talið það skyldu að hlaupa ekki frá borði og taka það súra með því sæta til að snúa málum til betri vegar.
Það hefur verið reynt að gera og menn hafa unnið við að moka bílinn upp úr snjónum sett undir hann keðjur, og kannski má segja að bíllinn sé tekinn að bifast áfram þó ljóst sé að fennt hefur meira og vandséð hvernig það eigi að koma bílnum til byggða. Ljóst hefur verið í gegnum allann þenna snjómokstur frá hendi Samfykingarinnar að ein leiðin í lausninni hefur verið að láta vita fólkið niðri í byggðinni vita hver björgunaráætlunin væri svo þar væri hægt að mynda samstöðu um hvernig að skyldi farið. Að allir legðust á eitt svo bjarga mætti bílnum.
Vandamálin eru orðin ljós, og hluti þeirrar leiðar sem þarf að moka líka. Það er úrvinnsluatriði. Samferðamenn okkar telja að það sé nóg í bili, en hafa fallist á að halda landsfund um hvort nauðsynlega þurfi að láta fólkið niðri í byggðinni vita hvað leið skuli mokuð og vilja ekki sjá að sameinast sé um að fá stórtækar vinnuvélar og GPS tæki til að finna auðveldustu leiðina úr skaflinum. Þeir vilja helst moka í hring. Og hvetja okkur til að moka með sér svo aftur komumst við á þann stað þar sem lagt var á heiðina forðum í von um skemmtilegt ævintýri utan vega.
Þegar við lögðum upp í fjallaferð þessa var malbikaði vegurinn rétt við hliðina á slóðanum sem farin var. Og sá vegur hefur allan tímann verið ruddur þó í ljósi snjóstormsins sé þar þungfært þessa stundina. En þar er þó verið að ryðja.
Við Samfylkingarmenn teljum að rétt sé að moka okkur í átt að þessum vegi, í stað þess að moka áfram í hringi. Það virðist skynsamlegt og öllum til heilla að fara í átt að veginum og sjá hvort sú leið sé ekki fær, og fá jafnvel menn úr byggð til að moka leiðina á móti okkur. Okkur er ljóst að það er nú á okkar ábyrgð að allir komist lifandi til byggða.
Til þess að svo megi vera verðum við að taka frumkvæðið kalla út vinnuvélarnar og láta samferðamenn okkar vita að hver svo sem afstaða þeirra til málsins verði að loknum landsfundi sínum á heiðinni sé þetta sú leið sem við ætlum að fara. Því verði ekki breytt. Við ætlum ekki að verða úti sökum ósættis þeirra í milli. Við verðum að taka frumkvæðið, segja ferðalaginu lokið og halda til byggða. Þeir mega moka í hringi áfram telji þeir að það gleðji ættingja sína er heima sitja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Facebook
Athugasemdir
Svona virkar nú þingræðið. Hversu mikið fylgi kjósenda hafði þetta ríkisstjórnarsamstarf við síðustu kosningar? Kjósendur fengu aldrei að tjá sig um það frekar en venjulega. Þeir fá bara að kjósa flokka og flokkarnir ákveða síðan eftir eigin hentugleika hvaða stjórnarsamstarfi er komið á. Hversu margir hefðu kosið beint stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks við síðustu kosningar? Það er hlutur sem stjórnmálaflokkarnir vilja ekki svar við, beint lýðræði er ógnun við flokkavaldið.
Gulli (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.