Mánudagur, 19. janúar 2009
Æðruleysi strútsins
Þegar hætturnar steðja að strútum halda þeir að sín eina vörn sé að stinga hausnum í sandinn og beita því æðruleysi sem þeim er gefið, í von um að ekkert gerist. Ég hef náttúrulega alltaf undrast hvernig strútnum dettur í hug að hættunum verði afstýrt á þennan hátt , en jafnframt dáðst að því æðruleysi sem hann sýnir á meðan hausinn er ofan í sandinum og hann bíður örlaga sinna.
Eitthvað svipað hefur maður hugsað um blessaða stjórnmálamenninna undanfarna mánuði. Dáðst af æðruleysi þeirra á ögurstundu en velt fyrir mér hvort sinnu og heyrnarleysi væri nú einnig farið að hrjá þá.Því ekki virðast þeir vera í takti við þá er kusu þá til starfa, og neita að hlýða á þær sterku raddir kjósenda sem öskra upp í eyrun á þeim að nú sé timi breytinganna upprunninn.
Eitt af þjóðareinkennum íslendinga er langlundargeðið og umburðalyndið, kostir sem geta verið góðir þegar við á, en hættulegir sé mönnum ekki ljóst hvar mörk þessara kosta liggja. Þær raddir sem núna heyrast eru afsprengi þessa. Stór hluti almennings hefur ekki lengur traust á því að þau stjórnvöld sem núna sitja hafi skilið skilboðin um að breytinga sé þörf á lýðræðislegum skilningi þeirra sem með völdin fara. Enda ekkert sem sýnir að svo sé.
Öllum almenningi er ljóst að aðgerða er þörf til að leysa þann vanda er við blasir, og átta sig líka á að það er stjórnvalda landsins að taka á þeim vanda, sem þau hafa skapað með sinnuleysi sínu á liðnum árum. Almenningur hefur meira að segja verið tilbúinn til að leggja talsvert mikið á sig til að taka þátt í þeim lausnum sem til greina kæmu. En almenningur hefur bara ekki fengið að vita til hvers er ætlast af honum sökum sinnuleysis stjórnvaldanna að koma þeim skilboðum til skila.
Skilaboð stjórnvaldanna hafa meira gengið út á að tryggja stöðu sinna manna innan stjórnkerfisins og senda út yfirlýsingar um að nú sé ekki tími til að ræða breytingar á stjórnkerfi landsins, hvað þá að kjósa. Það gæti stefnt þjóðarhag í hættu. Menn verði að sýna þeim traust og taka því sem að höndum ber af æðruleysi. Og sjá það sem þau sjá að "kreppan sé móðir allra tækifæra", eins og frjálshyggjuguttunum þykir svo flott að segja þessa dagana.
Þar á bæ keppast menn um að veita hver öðrum syndaaflausn og vísa stöðugt til að sú kreppa sem við göngum nú í gegnum sé fyrst og fremst afleiðing efnahagsástandsins erlendis, þó þeir sjái á hverjum einasta degi sannanir þess að engum er þar um að kenna nema okkur sjálfum. Slíkum sönnunargögnum hefur umsvifalaust verið stungið undir stól litla leynifélagsins í Svörtuloftum.
Almenningur kallar eftir leiðbeiningum og stefnumörkun til framtíðar, og hefur fengið þau svör að þau felist í að engum sé betur treystandi en sitjandi stjórnvöldum til að koma landinu út úr þeim ógöngum sem við nú erum í. Slíkur sé þingmeirihlutinn. Það gæti þurft að skipta út einum eða tveimur ráðherrum til að gera það starf trúverðugra. Er ekki kominn tími til að rífa hausinn upp úr sandinum og sjá ástandið eins og það er. Áður en það er of seint.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Facebook
Athugasemdir
Strútar eru kannski eitt fárra dýra með stærri augu en heila en þau eru nú samt ekki svo vitlaus að stinga hausnum í sandinn þegar hættu steðjar að. Það er víst bara ríkisstjórninni sem dettur slíkt í hug :-)
http://en.wikipedia.org/wiki/Ostrich#Behavior
Héðinn Björnsson, 19.1.2009 kl. 17:28
Ég er þér sammála hvað viðkemur stjórnvöldunum.
En mig langar til að leiðrétta mikinn misskilning í sambandi við strútinn, - hann er hreint ekki eins vitlaus og menn halda, - hann raunar veit sínu viti.
Það er mikill misskilningur að strúturinn stingi hausnum í sandinn, - sannleikurinn er sá, að hann stingur "aldrei" hausnum í sandinn.
En í eyðimörkunum, eins og Sahara, þar sem strúturinn heldur sig (og ljónið, erkióvinurinn), er algengt fyrirbæri dags, daglega sem kallast "tíbrá". Ef horft er til fjalls langt í burtu, þá er eins og fjallið sé á lofti. Þetta fyrirbæri þekkir strúturinn og hefur sitt vit til þess að nota sér það.
Þótt þú værir tiltölulega stutt frá strútum á ferð þá gætir þú ekki séð þá, meðan þeir halda höfðinu niður undir jörðinni. Ef strútrurinn reisir upp hálsinn og hausinn, þá getur þú séð hann, en um leið og hann beygir sig aftur niður, þá er hann horfinn og þú getur ekki séð hann, - og það geta ljónin ekki heldur.
En hvað varðar stjórnmálamennina þá er ég þér alveg sammála, að þeir eiga, vafalaust, auðvelt með að "stinga hausnum í sandinn". Bátasjómennirnir sem hafa tapað öllu, - með setningu kvótalaganna, - þeir þekkja þetta, fyrirbæri stjórnmálamannanna, mjög vel.
Tryggvi Helgason
Tryggvi Helgason (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 20:06
Kærar þakkir fyrir þetta.
Þetta vissi ég nú ekki, og hafði alltaf haldið að hann stingi hausnum í sandinn og hélt að þaðan væri þetta orðatiltæki komið. Strúturinn beitir sjónhverfingum til að verja sig og hverfur á braut þyki honum það skynsamlegt að láta sig hverfa, kannski stjórnmálamenninir gætu lært eitthvað það. Ég verð greinilega að lesa mína strútafræði betur.
Hannes Friðriksson , 19.1.2009 kl. 20:33
Af því að mér þykir svo gaman að lesa bloggin þín vil ég benda þér á eitt, að hægra megin á síðunni þinni hylur auglýsing hluta af því sem þú hefur skrifað og hverfur ekki fyrr en eftir þónokkra stund. Hálf hvimleitt.
Björk Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 09:12
Blessuð Björk
Gaman að heyra í þér hér á síðunni. En vandamálið sem þú talar um get ég ekki leyst þetta er eitthvað tæknilegt hjá þeim moggamönnum, sem þeir virðast ekki ráða við nema ég borgi fyrir að taka auglýsinguna út.
Bestu kveðjur
Hannes Friðriksson , 20.1.2009 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.