Dagur vonar

 

Það er mikilvægt að skipuleggja vel hvað maður ætlar sér að gera hvern dag. Þá kemst maður yfir meira segir konan. Vinna verkefnalistann lið fyrir lið og láta ekkert óvænt raska ró sinni. Þannig var ég búinn að ákveða að hafa það í dag. Pollrólegur einbeita mér að því sem fyrir lá.

Þetta gekk svo sem ágætlega fram eftir degi. Vann niður verkefnalistann og var bara nokkuð kátur og hress með árangurinn vel fram yfir hádegið. Kveikti þá algerlega óvart á Sjónvarpinu og sá að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hafði nú svo sem haft þetta á tilfinningunni í 100.daga, en valið að trúa því að allt væri eins og best væri á kosið. Enda stjórnvöld verið dugleg að segja okkur að vera bjartsýn og að "Kreppan væri móðir allra tækifæra"

Í dag er dagur vonar. Nýr forseti með nýjar sýnir tók við völdum í Bandaríkjunum , og flestir höfðu reiknað með að forsætisráðherrann blessaður myndi nota þingsetningardaginn til að boða þjóðinni tíðindi af vinnuframlegi þingmanna í jólafríinu, sem var að flestra mati í lengra lagi.

En sjónvarpið sýndi þó annað, og hreint ekki góða mynd. Að vísu mynd sem hér hefur verið skrifað handrit af nú í eitt hundrað daga.  Dagskrá þingsins virtist staðfesta það sem margir hafa sagt undanfarið um að forystumenn þjóðarinnar væru svo langt frá því að vera í takt við þjáningar þjóðar sinnar. Nú skyldi tekist á um frumvarp stuttbuxnatrákanna í ungliðadeild Sjálfstæðisflokksins  um hvort leyfa ætti sölu á áfengum drykkjum í matvörubúðum. Og forsætis og menntamálaráðherra kvörtuðu yfir að fá ekki vinnufrið við afgreiðslu þessa mikilvæga máls.

Og til þess að vinnufriður þeirra sköthjúa yrði tryggður þýddi ekkert minna en að kalla út óeirðalögreglu á annars frekar rólega mótmælendur sem fyrir utan stóðu. Með heimild til að sprauta gasi á bæði börn og gamalmenni, og berja með kylfum ef annað dygði ekki til. Vinnufriður varð að vera.

Í sjónvarpsviðtali staðfesti einn þingmaður Samfylkingar það sem flestir vissu nú þegar að ekki er einhugur meðal stjórnarþingmanna um ágæti og vinnuframlag þeirrar ríkistjórnar sem nú situr og tími væri til kominn að hlusta á rödd þjóðarinnar sem vill kosningar sem fyrst. Forsætisráðherra sem virðist ekki einu sinni vita af fundum landsbyggðarfulltrúa sinna sem hyggjast gera tilraun á landsfundi til að steypa honum  og fara ekki leynt með skoðanir sínar á dugleysi hans, telur þó rétt ríkistjórnar þessar til setu út kjörtímabilið óumdeilanlegan. Og breyttar aðstæður breyti því ekki.

Þau mótmæli sem í dag hafa verið á Austurvelli hafa þrátt fyrir allt vakið hjá manni von. Von um að forystumenn ríkistjórnarflokkanna vakni nú af þeim Þyrnirósarsvefni sem þeir hafi sofið undanfarið. Vakni og sjá að þrátt fyrir kjörfylgi úr síðustu kosningum hafi þeir ekki fylgi lengur til að starfa saman í ríkisstjórn. Því er grasrótin í báðum flokkum sammála um þótt forystan skilji það ekki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Djöfull er þetta vel skrifað hjá þér. Það þarf nákvæmlega engu við þetta að bæta, eins og talað frá mínu hjarta!!

Lilja G. Bolladóttir, 21.1.2009 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband