Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Kurteisin kostar ekkert
Kurteisi er eitt af því sem ekkert kostar. Bara það að vera kurteis eykur oft traust manna á meðal. Það lærði ég nú við eldhúsborðið hjá ömmu minni.
Ég veit ekki af hverju ég fór að velta því fyrir mér hvað ég lærði við eldhúsborðið hjá ömmu minni, þegar nú í kvöld bárust af því fréttir að seðlabankastjórar sem einskis trausts njóta telja sig svo vel yfir aðra hafna að þeir þurfi ekki að svara bréfum um aðkallandi mál frá forsætisráðherra þjóðar sinnar. Þess aðila er fer með æðsta vald málefnum stofnunnar sem þeim hefur verið treyst til að stjórna og klúðrað því svo rækilega að hlegið er af þeim í öllum bankaheiminum. Kannski þeir meti sig og sína stöðu ofar þjóðarhagsmunum.
Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það, að þeir svari ekki slíkum bónum eða bréfum, sýni kannski meira en þeir í raun ætluðu sér. Nú hafa þeir sýnt þann hroka sem þeir bera fyrir því stjórnkerfis sem þó valdi þá til starfa. Þeir senda í raun þjóðinni puttann, eins og verstu götustrákar, og reikna með að þjóðin fyrirgefi þeim því þeir þurfi að ræða saman um viðbrögðin.
Nei hefði eitthvað verið spunnið í einhvern af þeim hefði sá hinn sami séð sóma sinn í því að svara því bréfi sem til þeirra var sent, með því annað hvort að biðja um frest, eða hafna bón forætisráðherrans. Nú er sá frestur liðinn sem þeim var gefinn til að eiga viðræður um hugsanleg starfslok, og því enginn ástæða fyrir ríkisvaldið til að ganga til einhverra samninga um stafslokasamninga þeirra. Þar eiga bara að gilda þau ákvæði sem er að finna um starfslok vegna skipulagsbreytinga.
Í þessu tilfelli hefði kurteisin ekki skaðað, það held ég að ömmur þeirra allra hefðu getað verið sammála um.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála þér.
Anna Einarsdóttir, 5.2.2009 kl. 23:44
Já, segðu... það er amk lítil reisn yfir þremenningunum úr Seðlabankanum núna - sorglegt dæmi um menn sem ekki þekkja sinn vitjunartíma.
Imba sæta (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 08:57
Hefði þetta geta skeð annars staðar á norðurlöndunum ? Við búum í landi sem er orðið algjört spillingarbæli. Ég á ekki orð yfir því hvernig þessir menn hegða sér. Vonandi nær íslenskt þjóðfélag að hreinsa út spillinguna eftir sjálfstæðisflokkinn sem fyrst . Furðulegt að fylgjast með alþingi og sjá móðgunarsvipinn og lætin í sjálfstæðismönnum.
Það er eins og þeir haldi að þeir einir eigi að stjórna. Ég hef kosið þennan flokk en það geri ég aldrei aftur. Skyldi það enda með því að lögregluaðstoð þurfi til að bera Davíð og co. út úr bankanum?
Ína (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 09:07
Hrokinn og frekjan þessara manna er alveg dæmalaust. Hvað þarf að gera til að losna við þá? Bera þá út úr Seðlabankanum, setja þá í næsta flugvél og vísa þá úr landi!
Úrsúla Jünemann, 6.2.2009 kl. 11:36
Innilega til hamingju með fyrstu afleiðingar grjótkastsins: þær að ekki mátti lækka vexti síðastliðinn föstudag, þar með fara fleiri fyrirtæki og einstaklingar í þrot.
Og vegna þess að AGS þarf að sjá hverju fram vindur fram yfir kosningar verður ekki almennilega slakað á vöxtum hér fyrr en í fyrsta lagi í maí, og þar með fara nánast öll fyrirtæki í þrot og fleiri þúsund í viðbót af þeim einstaklingum sem með mestar skuldir eru: fyrirtæki altso og einstaklingar sem hefðu lifað af ef mátt hefði lækka vexti strax síðastliðinn föstudag, og AGF þyrfti ekki að bíða fram yfir kosningar með frekari vaxtalækkanir og aðrar aðgerðir.
Eða eins og Finnarnir segja: að þurfa að standa í stjórnarskiptum og kosningum framlengdi kreppuna hjá þeim um tvö ár með tilheyrandi auknum hörmungum fyrir þjóðina.
En á Íslandi eru sem betur fer nógu mörg alvörulaus fífl, sem halda, að þótt bókstaflega ekkert megi fara úrskeiðis svo hér verði ekki TÓTAL KOLLAPS, þá sé kreppan fyrst og fremst tækifæri til að æfa eitthvert últra dásamlegt grjótakastaralýðræði.
Ég á börn og veit að staðan er að heita má jafn alvarleg og ef þau lægju helsjúk á gjörgæslu, þess vegna er ég ekki með hugann við það dekurvandamál hvort hér sé últra dásamlegt grjótkastaralýðræði, hvort læknateimið sem annast börnin mín hafi 113% skínandi búsáhaldabyltingarumboð til að reyna að bjarga lífi barna minna; ég veit að það er 113% vinna fyrir læknateimið að annast börnin mín og ég heimta því ekki að læknateimið standi á sama tíma í kosningabaráttu (með þeirri miklu freistingu sem henni fylgdi að beita á börnin, kosningabaráttunnar vegna, vel útlítandi sýndarlækningu sem gerði þeim óleik).
Hvaða stjórn sem hér ræður verður að fara eftir stefnu AGS: jafnvel heilagur Þorvaldur segir (sagði meðan Þingvallastjórnin lifði) að ekki megi víkja hársbreidd frá þeirri stefnu.
Fyrir utan ofangreindar hörmungarafleiðingar sem stjórnarskipti/kosningar hafa í för með sér hafa þær altso sama praktíska gildi og fegurðarsamkeppni: fá sætara fólk (eða sama fólk í sætari fötum) til að framfylgja þeirri stefnu sem allir vita að verður að fylgja. Myndi slíkt vera mér mál málanna með börnin mín liggjandi fyrir dauðanum: að beita öllum tiltækum ráðum til að koma læknateiminu í læknafegurðarsamkeppni? Já. Já. Það vær mál málanna fyrir mig. Ég myndi framkalla þann hávaða sem ég gæti til að læknateimið sem væri upp fyrir haus að reyna að bjarga börnum mínum myndi á sama tíma þurfa að standa í margra vikna stífri fegurðarsamkeppni. Já. það væri mér sannarlega meira kappsmál en allt annað. Ef ég væri sama fífl og búsáhaldarbyltingarelskurnar.
Þvílík skinhelgi að halda því fram að íslenska þjóðin sé saklaus fórnarlömb hrunsins. Hér var árum saman einhver mesti kaupmáttur í heimi, við altso hefðum öðrum fremur átt að eiga fyrir því sem við kaupum, en það gerðum við adeilis ekki. Gott og vel bankarnir voru í bullandi áhættu (sem er dauðadómur þegar brestur á megakreppa), en almenningur og nánast hver einasti aðili á Íslandi var ekki hótinu skárri: nánast allir hér, stórir sem smáir, voru í þeirri stöðu með sín fjármál að ekkert mátti koma uppá í heiminum svo ekki myndi allt hér hrynja.
Í grunninn er málið svona: bankar eru einkafyrirtæki. Enginn var neyddur til að eiga viðskipti við bankana okkar þrjá (hér var jú öðrum lánastofnunum til að dreifa), enginn skyldugur að vinna hjá þeim, enginn skyldugur að eiga krónu í hlutabréfum/skuldabréfum þeirra.
Allir þykjast núna hafa vitað allan tímann að bankarnir væru meira og minna rotnir, rétt eins og allir koma nú fram hálfsnöktandi og segja: "ég vildi þetta aldrei, snökt snökt. Þetta var ekki það þjóðfélag sem ég vildi, snökt snökt".
Hvað vildu menn ekki? Hafa svona mikinn kaupmátt og taka svona mikið af lánum til að kaupa allt sem hugurinn girntist? "Já, ég vildi þetta aldrei, snökt snökt, ég bara fylgdi straumnum, af því ég hafði jú frelsi til þess, snökt snökt, ég vildi aldrei þetta frelsi, snökt snökt, til að eyða og sóa eins og hinir vitleysingarnir. Og ég vildi ekki að hinir vitleysingarnir eyddu og sóuðu eins og hin-hinir vitleysingarnir, vildi ekki að þeir væru að kaupa sér jeppa og skjái útí bláinn, snökt snökt. Og ég vildi ekki að eigendur hinna og þessara einkafyrirtækja ákveddu að borga sumum af starfsmönnum sínum mjög há laun, snökt snökt".
Gott og vel, það vildi enginn gera neitt af því sem hann og maðurinn í næsta húsi og þar næsta húsi gerðu.
Það var hverjum manni í sjálfsvald sett að sleppa því alfarið að eiga nokkuð saman við bankana þrjá að sælda, rétt eins og margir td vildu ekki koma nálægt fyrirtækjum sem Hannes Smára átti í. Ef hver og einn hefði tekið ábyrgð á sér, og ekki ákveðið, af fúsum og frjálsum vilja, að binda trúss sitt, að einhverju leyti, við þessi þrjú fyrirtæki, þá hefðu gjaldþrot þeirra snert okkur álíka mikið og ef einhverjar illa reknar "óreiðu"mannabúllur hefðu oltið um (Icesave-skuldin er dálítið sérstakt mál, í raun er verið að troða þeirri skuld uppá á okkur án þess að fyrir því sé lagabókstafur).
ásdís (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 13:45
blessuð Ásdís.
Þú notar mikið orðið grjótkastaralýðræði, og fárast yfir að fólk hafi bundið trúss sitt við bankanna. Því hafi hver ráðið fyrir sjálfan sig. Er það svo? Höfðu þeir sem til að mynda voru að kaupa sitt húsnæði í fyrsta skipti eitthvað val hvað það varðar? Það eru því miður ekki allir fæddir með silfurskeið í munni. Þú setur málið upp upp eins og allt það sem á undan er gengið sé fyrst og fremst íbúum þessa lands að kenna og þeir útrásarvíkingar hafi eingöngu verið að gera það sem þeim var heimilt skv. reglum. Má vera en það sem þeir skildu þó eftir þegar þeir tóku sínar ákvarðanir var siðferðið, og ábyrgð á gjörðum sínum. Það fólk sem nú vill sjá breytingar eru ekki vitleysingar og grjótkastarar , heldur ósköp venjulegt fólk sem nú er búið að fá nóg af hrokagikkjum og eiginhagsmunaseggjum. Þetta er fólkið sem treysti þeim stjórnvöldum sem það kaus til að sjá til þess að hér væri unnnið innan ramma laga og velsæmis. Því trausti brugðust stjórnvöld og því vill fólk breytingar. Ég verð að segja að þessi pistill þinn kemur mér á óvart, og ég skil ekki alveg þessa reiði þína út í breytingar, ekki gat það gengið eins og það var
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 6.2.2009 kl. 16:15
Mikið rétt hjá þér Hannes þetta með hrokan sem sumir sýna það er greinilega nóg til af honum þar. Varðandi þessa bankaumræðu hjá Ásdísi og þér þá vil ég benda á það að húsnæðismarkaðurinn var í þokkalegu jafnvægi fram til ársins 2004 þegar bankarnir komu inn á hann á fullkomlega ábyrgðarlausan hátt. Afleiðingin af þeirri innkomu var mesta fasteignabóla sem sést hefur á íslandi og verðið á íbúðum rauk svo hratt upp að fólk var nauðbeygt til að taka lán hjá bönkum til að kljúfa dæmið. Og nota bene það var ekkert mál að fá lán alveg upp í 100% á tímabili. Auðvitað var þetta erlent fjármagn sem bankarnir voru þarna að dæla inn í landið verðhækkun húsnæðis hélt meðal annars uppi verðbólgustiginu alveg fram að þar síðustu áramótum. Og raunar vaxtastiginu líka því alltaf var ræfils Seðlabankinn að rembast við að verðleggja lánsfjármagnið út af markaðnum með okur stýrivöxtum. Niðurstaðan verður að lokum sú að það var ekki haldið í skottið á bönkunum og þeim leift að vaða uppi allt of lengi, hefðu stjórnvöld haft vit á því að stoppa þá 2004 þá værum við í fínum málum.
Haraldur (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 21:31
Ég man ekki betur en Seðlabankinn hafi varað við því 2006, er einkabankarnir ruddust inná fasteignalánamarkaðinn, og ýmsir leigupennar auðmanna brugðust hart við "kvaki" Seðlabankans. Það fer eftir pólitík, hvað menn vilja muna í þessum efnum ?
Með góðri kveðju, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 6.2.2009 kl. 21:49
Bara smá innlegg: Gaman að sjá að virðing er borin fyrir ömmum, DO dregur ömmu sína oft inn í umræðurnar, sem mér finnst nú hvorki hæfa forsætisráðherra eða Seðlabankastjóra (með fullri virðingu fyrir ömmu hans), en það gerir hann nú líka bara til að drepa umræðunum á dreif og til að vera fyndinn. Prívat og persónulega hef ég aldrei þolað þetta, vegna þess að hann gerir þetta af yfirlæti og hroka. Þú talar um ömmu þína og hennar ráðleggingar, sem er í lagi þar sem þú ert hvorki kosinn forsætisráðherra né ráðinn Seðlabankastjóri (þ.e. hefur stöðu þína frá fólkinu í landinu).
Jónína (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.