Mánudagur, 16. febrúar 2009
Björgvin í fyrsta sæti
Samþykkt kjördæmisráðs Samfylkingar á Suðurlandi frá í gær eru mikil og góð tíðindi. Þar hefur kjördæmisráðið tekið af skarið og sagt að jafnrétttis kynja skyldi gætt hvað varðar röðun á lista þess í kjördæminu. Fyrir okkur á Suðurnesjum er þetta tækifæri sem ber að nýta. Nú þurfum við að standa sameinuð að því að velja okkur frambjóðendur á þann lista, sem ljóst er að séu tilbúnir og hafi þann gegnumslagskraft til að standa vörð um hagsmuni okkar.
Bæði þurfum við að hugsa um að standa vörð um þá fulltrúa sem reynsluna hafa og jafnframt að velja okkur inn nýja sem ljóst er að staðið geti undir því trausti sem á þá er lagt. Við þurfum þingmenn sem við getum treyst að tilbúnir séu til að standa að baki jafnaðarstefnunni.
Þær kosningar sem framundan er, verða uppgjör við liðna tíma. Uppgjör við stefnur og gildi sem við höfum nú séð afleiðingarnar af. Sú taumlausa frjálshyggju og einkavæðingarstefna sem hér hefur verið fylgt hefur svipað og kommúnisminn hefur nú beðið sitt skipbrot, og ljóst að stefna jafnaðar og félagshyggju verður sú sem treyst verður á við endurbyggingu samfélagsins.
Við val á þeim þingmönnum sem við hyggjumst kjósa okkur í næstu kosningum ber okkur að hafa í huga, að framundan eru margar erfiðar ákvaraðnir sem þarf að taka. Þau okkar sem hyggjast kjósa í því prófkjöri Samfylkingar sem er framundan, þurfum nú að gera upp huga okkar hver það verður sem sem leiðir þann lista. Þar verðum við að velja þann mann eða konu sem í okkar huga er fremstur á meðal jafningja. Enn hafa ekki aðrir en Björgvin G Sigurðsson boðið sig fram á fyrsta sæti þess lista, hvað sem síðar kann að verða.
Björgvin G Sigurðsson hefur sýnt á undanförnum mánuðum að þar fer maður sem ekki er hræddur að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja, og hann hefur í öllum sínum gjörðum og greinum sýnt að þar fer maður sem hægt er að treysta að standi fastur að baki skoðunum sínum og þeim gildum er hann boðar.
Hann hefur sem þingmaður Suðurlands og Suðurnesja sýnt hvar hans hjarta slær, og sýnt það meðal annars í harðfylgni sinni hvað varðar málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Álvers í Helguvík. Þar hefur hann ekki flíkað framgöngu sinni frekar en í öðrum málum sem hann hefur komið að, heldur látið verkin tala. Það vita þeir er fylgst hafa með.
Björgvin G Sigurðsson er í mínum huga sá stjórnmálamaður sem hvað sterkastur hefur komið út úr ölduróti síðustu mánaða. Hann stóð á meðan stætt var með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, en tók líka ábyrgðina þegar honum var ljóst að einhver þyrfti að taka af skarið. Hann hefur ákveðið að leggja gjarðir sínar í hendur kjósenda og sækja sér umboð að nýju til áframhaldandi góðra verka. Sú reynsla sem hann nú hefur öðlast og aðkoma hans að þeim verkefnum sem að Suðurnesjum snúa eru í mínum huga þess eðlis að óhætt er að segja að þar fari sá maður sem best er til þess fallinn að fara fyrir lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hann hefur hagi heildarinnar að leiðarljósi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
það er skelfilegt ef samfylkingarfólk á suðurlandi býður þennan mann fram til þings. Björgvin hafði tækifæri til að axla pólitíska og faglega ábyrgð en gerði hvorugt.
Það að hann kom sér í burtu þegar ljóst var að ríkisstjórnin var ónýt telst hreinlega ekki með.
Það er í raun ótrúlegt að hann vogi sér að bjóða sig fram aftur - en vonandi fær hann þá kosningu sem hann á skilið.
Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 09:33
Nú vissi ég svo sem vel að þegar ég setti inn þessa færslu væri líklegt að athugasemdir sem þessar myndu koma hér inn. Og í mínum huga er það gott að þær berist. Þetta eru skiljanleg viðbrögð miðað við það sem á undan er gengið. Björgvin hefur einn ráðherra axlað sína pólitísku ábyrgð og bauðst raunar til þess strax í nóvember. Þegar mesti hamagangurinn var yfirstaðinn og hann gaf út opinberlega að hann teldi rétt að gengið yrði til kosninga, undir það tók einungis Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Hvað varðar athugasemd Gylfa er erfitt að eiga við hana þar sem hún er alhæfing og fá rök duga þar á móti.
En Þráinn kemur þó með einmitt þessi atriði sem ég hef tæpt á hér á undan, og hann veit það alveg jafnvel og ég að Björgvin vildi slíta þessu stjórnarsamstarfi mun fyrr. Hann hefur einn manna axlað þá ábyrgð bæði pólitíkst og faglega sem þráinn lýsir eftir, en þráinn velur einhverra hluta vegna að líta svo á að þar hafi aðrir hagsmunir ráðið ferðinni. Við því er lítið að segja.Hvað það varðar að hann vogi sér.. finnst mér svolítið undirbelti staðhæfing í ljósi þess að Björgvin fer hér fram og veit að hann eins og allir aðrir stjórnmálamenn verður að sækja umboð sitt að nýju í ljósi atburða þar sem hann hefur beðist afsökunar á einn manna.
Hann óskar eftir umboði kjósenda sinna til að starfa áfram, og áttar sig á að svarið getur fallið báðum megin. Hann veit að það eru kjósendur Samfylkingarinnar sem ákveða hvort hann verður áfram þeirra frambjóðandi eða ekki. Þannig virkar lýðræðið.Nú er það þannig Þráinn að Samfylkiingarfólk á Suðurlandi ákveður sinn lista einnig út frá þeim verkum er menn hafa unnið fyrir kjördæmi sitt, og hve öflugir þeir hafa verið að standa vörð um þau mál er af því hafa snúið. Hvað þau mál hefur Björgvin staðið sig vel á stuttum tíma. Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 17.2.2009 kl. 10:16
Blessaður Gylfi
Mér finnst þessi rök góð, til að ræða. og kannski kemur þú þarna beint að kjarna vandans sem við var að eiga. Eftirlitsstofnanir og þeir sem þar unnu brugðust því trausti sem til þeirra var borið. Svo virðist ver sem við höfum hér embættismannakerfi sem telur sig geta leyst öll vandamál, og telja ekki rétt að gera mönnum aðvart þegar að kreppir. Þeir sem stjórna stofnunum telja það hlutverk ráðherra að hafa samband við þá, verði þeir varir við hvað er í gangi en ekki öfugt eins og þó væri eðlilegra teldi ég.
Sitjandi ráðherra á hverjum tíma er stefnumarkandi aðili, og forstöðumenn þeir sem yfir stofnanir eru settar eiga að framfylgja þeim stefnumörkunum og láta vita ef eitthvað amar að, og ráðuneytisstjórar þar meðtaldir.
Seðlabankinn heyrir til að mynda undir forsætisráðuneytið, og að manni skilst voru þeir kumpánar Geir og Davíð í góðu sambandi, og geir hefði þá átt að hafa frumkvæði að þeim málum sem hann taldi að viðskiptaráðuneytið hefði átt að hafa aðkomu að. Ekki er hægt að sjá að svo hafi verið.
Hvað varðar siðgæði Björgvins tel ég að hann hafi hvergi farið út af sporinu, og hann beygði sig hvergi að því er séð verður undir vald auðsins eins og þú segir. Get ekki betur séð en hann hafi gert allt sem mögulegt var fyrir mann í hans stöðu til að leysa þau mál sem uppkomu hverju sinni. Hann er framkvæmdamaður sem gengur í verkin um leið og þau birtast, en það verður líka að gera þá kröfu að þau birtist en sé ekki stungið undir stól hjá einhverjum embættis eða bankastjórum. því það hefur nú komið í ljós að svo var gert í alltof mörgum tilvikum .
Vil að endingu taka undir með þér að Ísland á einungis það besta skilið, og það er þessvegna sem ég styð Björgvin G Sigurðsson því ég þekki verk hans.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 18.2.2009 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.