Föstudagur, 13. mars 2009
Yfirstéttin og alþýðan
Styrmir Gunnarsson kastar fram nýju sjónarmiði í ESB umræðuna og telur að sú umræða sem fram fer um aðildarviðræður að ESB sé í raun átök á milli yfirstéttarinnar og alþýðunnar og kynnir til sögunnar nýja yfirstétt á Íslandi sem eru þeir er aðhyllast aðildarviðræður að ESB svo sem Samtök iðnaðarins, Alþýðusambandið, og Samfylkinguna. Sjálfur er hann alþýðan í þessu tilfelli. Í þeim hóp er hann vill ekki fyrir sitt litla líf leyfa að kjósa um hvort Ísland skuli verða aðili að ESB.
Hann telur að þeir sem hér hafa með miklu erfiði undanfarin ár byggt upp fyrirtæki og launþegar þeirra hafi nú misst öll tengsl við raunveruleikann og að sú ósk sem menn hafa uppi um aðildarviðræður við ESB markist fyrst og fremst af því að atvinnurekendur og launþegar hafi nú of lengi skemmt sér við við glasaglaum á bónuðum gólfum yfirstéttarinnar. Og boðar að bylting eða vakning geti verið yfirvofandi hjá grasrót Sjálfstæðisflokksins verði ekki þau sjónarmið hann aðhyllist ekki ofan á Landsfundi þeirra Sjálfstæðismanna. Þar er víst alþýðan.
Þær kosningar sem fram munu fara nú í apríl munu hvort sem mönnum líkar það betur að verr snúast um meðal annars framtíðarstefnu okkar í gjaldeyrismálum og þar með hugsanlegar aðildarviðræður Íslendinga um inngöngu í ESB.
Andstæðingar ESB flagga mikið þeirri furðulegu staðhæfingu að um leið og gengið sé til aðildarviðræðna við ESB að þar með sé verið að afhenda fullveldi okkar til yfirþjóðlegs valds sem ESB er í þeirra huga. Samt finnst manni skrýtið að um þetta heyrist ekki orð hjá til að mynda Dönum,Svíum og öðrum þeim þjóðum sem innan ESB eru að þeir telji að þeir hafi misst hluta af fullveldi sínu, heldur þykir mönnum það hafa styrkst með því að þeir hafi áhrif á örlög sín.
Ein af rökunum eru að á okkur muni ekki verða hlustað, að rödd okkar muni ekki heyrast. Heyrist hún mjög hátt nú? Framundan er uppbygging íslensks samfélags á nýjan leik. Sú uppbygging þarf að vera byggð á traustum grunni, og sá gjaldmiðill sem stuðst verður við verður að hafa þann styrk sem nauðsynlegur er. Almennt er viðurkennt að ein helsta ástæða fyrir gjaldeyrisvandanum þeim sem nú er við að glíma sé yfirspennt króna sem drifin er áfram af vaxtamun á milli gjaldmiðla. Að áframhaldandi notkun hennar til framtíðar sé ekki til þess fallinn að búa landsmönnum ásættanleg skilyrði hér frambúðar. Til þess að áframhaldandi notkun hennar sé möguleg er nauðsynlegt að verja hana með haftastefnu eins og þeirri sem nú er í gangi. Er það það sem andstæðingar ESB vilja?
Almenningur á Íslandi hefur á undanförnum áratugum þurft að taka á sig herkostnaðinn af notkun krónunnar. Það hefur þurft að greiða af lánum sínum verðbætur og háa vexti.
Er nú ekki kominn tími til að almenningur fái sjálfur að taka afstöðu til þess hvað hann vill frekar en að stjórnmálamenn og pólitíkusar, sem nú skyndilega hafa skipt um stétt, segi þeim fyrir verkum hvað gera skal.
Grein Styrmis: http://evropunefnd.is/almennt/article/2009/03/13/yfirstettin-og-althydan/
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Facebook
Athugasemdir
Hér eru ýmsar rangfærslurnar, t.d. í 4. klausu.
Jón Valur Jensson, 14.3.2009 kl. 03:09
Þjóðin skiptist í 2 fylkingar í afstöðunni til ESB. Ég er nú lítt hrifin af aðildarumsókn. Mér finnst samt eðlilegt að þjóðinni verði gefinn kostur á að kjósa um þetta mál. Hörðustu ESB sinnar vilja sækja um án þess að spyrja þjóðina. Og hörðustu andstæðingar aðildarumsóknar vilja ekki lofa þjóðinni að kjósa. T.d. Bjarni Harðarson og aðrir lýðræðisvinir. Þetta mál er aukaatriði í komandi kosningum. Þar verður kosið um hvort þeir sem settu okkur á hausinn fái tækifæri áfram eða hvort nýju fólki verði falið að byggja landið upp á ný. Velferð almennings verði sett á oddinn og dekrið við græðgisöflin verði upprætt. Fyrir mér er þetta auðvelt val og hlakka til að ganga að kjörborðinu. Óskastjórn mín eftir kosningar er stjórn SF og VG. Ágreiningur þessara flokka um ESB aðild er auðleystur með því að lofa þjóðinni að kjósa um málið.
Sigurður Sveinsson, 14.3.2009 kl. 08:25
Blessaður Sigurður
Eins og talað út úr mínum munni
kv Hannes
Hannes Friðriksson , 14.3.2009 kl. 09:36
Mjög alvarlegt fullveldisafsal er fólgið í inngöngu/innlimun í Evrópubandalagið. Þið getið, ef þið viljið, kallað það "að deila fullveldinu með öðrum þjóðum" og jafnvel bætt við: "að eignast um leið hlut í fullveldi annarra ríkja," en óumdeilt á það að vera, að í þessu felst, að erlent vald hefur úrslitaáhrif um lagasetningu hér á landi, sem og dómsmál og einnig um stjórn fiskveiða okkar, a.m.k. milli 12 og 200 mílnanna.
Er einhver hér, sem mótmælir þessum forsendum?
Þá, í 2. þrepi stuttrar athugunar, getum við borið slíka mjög svo alvarlega breytingu á þjóðréttarstöðu Íslands saman við ákvæði 18. greinar Sambandslagasáttmálans 1918 um það, hvernig haga beri uppsögn þess samnings. Einnig þar var mikið í húfi fyrir réttarstöðu þjóðarinnar.
Skv. 18. grein mátti hvort heldur Ríkisþingið danska eða Alþingi krefjast þess eftir árslok 1940, að byrjað yrði á endurskoðun sambandslaganna. Framhaldið er mjög athyglisvert:
"Nú er nýr samningur ekki gjörður innan þriggja ára frá því að krafan kom fram, og getur þá Ríkisþingið og Alþingi hvort fyrir sig samþykkt, að samningur sá, sem felst í þessum lögum, sé úr gildi felldur."
Og nú halda kannski sumir, að þetta hafi gefið mjög ákveðinn, eindreginn, einhliða og róttækan rétt til að þetta væri ákveðið í einni atkvæðagreiðslu, þar sem meirihluti Alþingis fengi að ráða. Svo var þó alls ekki. Hér er framhaldið allt í sömu 18. grein, en með minni feitletrun:
"Til þess að ályktun þessi sé gild, verða að minnsta kosti 2/3 þingmanna annaðhvort í hvorri deild Ríkisþingsins eða í sameinuðu Alþingi að hafa greitt atkvæði með henni, og hún síðan vera samþykkt við atkvæðagreiðslu kjósenda þeirra, sem atkvæðisrétt hafa við almennar kosningar til löggjafarþings landsins. Ef það kemur í ljós við slíka atkvæðagreiðslu að 3/4 atkvæðisbærra kjósenda að minnsta kosti hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og að minnsta kosti 3/4 greiddra atkvæða hafi verið með sambandsslitum, þá er samningurinn fallinn úr gildi."
Þetta eru ströng og góð skilyrði, sem tryggja, að enginn flýtir eða skammtímasjónarmið né heldur þrýstingur lítils, en afar virks minnihluta (eins og EBé-sinnar eru) geti ráðið úrslitum um framtíðarstjórnskipun og þjóðréttarstöðu lands okkar (og notið til þess víðtæks áróðursbatterís, sem jafnvel er stutt af hinu 1670 sinnum stærra ríkjabandalagi).
Fyrst þarf a.m.k. 2/3 þingmanna, síðan almennar kosningar um hina stórfelldu breytingu; þar þurfa a.m.k. 75% allra með kosningarétt að mæta á kjörstað til að kjósa, og a.m.k. 75% greiddra atkvæða verða að samþykk með breytingunni afdrifaríku.
Þetta fyrirkomulag og ekkert minna er að mínu áliti virðingarvert af lýðveldi okkar að setja sem reglu fyrir því, að til greina komi að ganga inn í þetta Evrópubandalag með öllum þeim afar róttæku breytingum, sem það krefðist af okkur. Sjálfur er ég raunar algerlega andvígur slíkri inngöngu/innlimun bæði í bráð og lengd.
En nú spyr ég ykkur, herrar mínir: Eruð þið ekki sammála því, að setja verði svona skilmála um atkvæðagreiðslur fyrir inngöngu í Evrópubandalagið með öllu þess yfirþjóðlega valdi og öllu fullveldi þess til að breyta sér enn frekar á næstu árum og áratugum?
Ef ekki, þætti mér fróðlegt að sjá ástæðurnar.
Það er á hreinu að minni hyggju, að það er ekki útbreidd hrifning fyrir þessu bandalagi, þ.e.a.s. ekki svo sterk og mikil, að víst sé til dæmis, að meirihluti kjósenda myndi mæta á kjörstað, ef boðað væri til kosninga um þetta "aðildar"-mál og það eitt. Þá gæti þannig farið, að t.d. 45 eða 55% kjósenda myndu mæta og að 51% greiddra atkvæða gætu fallið á Evrópubandalagið, en það væru þá aðeins (skv. þessum tölum) = ýmist 22,96% eða 27,55% allra kosningabærra Íslendinga – lítill minnihluti hefði þannig afsalað okkur landsréttindinum í von um eitthvað betra í staðinn, en án tillits til hins mikla meirihluta í raun. Þetta myndi skipta þjóðinni upp í mjög andstæðar fylkingar, þegar hitt er aftur á móti það eina vitlega, að reynt sé að ná sem mestri og breiðastri samstöðu um þjóðréttarstöðu landsins. Sé það ekki unnt á næstu misserum, þá ber að bíða með það mál.
Ég verð að ljúka þessu hér í flýti, en vænti svara ykkar, og ég mun einnig kynna þessi sjónarmið mín víðar. En samningsmenn okkar 1918 vissu lengra nefi sínu, svo mikið er víst.
Jón Valur Jensson, 14.3.2009 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.