Laugardagur, 11. apríl 2009
Komdu til dyranna eins og þú ert klæddur!
"Komdu til dyranna eins og þú ert klæddur" sagði móðir mín oft við okkur bræður þegar við vorum ungir, og áttum erfitt með að þola að hún ein kvenna í hverfinu valdi að ganga í síðbuxum og hafa að atvinnu af því að vera múrari í þokkabót. Einhverra hluta datt mér þetta í hug nú í miðri umræðu um fjármál stjórnmálaflokkanna, þar sem menn virðast þurfa að leyta leyfis hjá þeim er styrktu flokkana með fjárframlögum, og virðast ekki vilja gangast við þeim stjórnmálaskoðunum er þeir hafa.
Nú er þetta svo sem ekki í fyrsta sinn að stjórnmálaskoðanir eru eitthvað viðkvæmnismál hjá þeim er reka fyrirtæki. Í sumum bæjarfélögum sem ég þekki til hafa menn komið að máli við mig og sagt mér að til þess að koma til greina hjá þeim er úthluta verkum, hafi menn talið best að segja sig úr þeim stjórnmálaflokkum er þeir áður tilheyrðu til að eiga möguleika. Og geta þar af leiðandi ekki komið til dyranna eins og þeir eru klæddir vegna þess að það hefur áhrif á lífsafkomu þeirra.
Nú eru öll teikn á lofti um að framundan séu nýir tímar, að fólk líði ekki lengur að hver svo sem stjórnmálaskoðun þeirra er komi það ekki til með að hafa áhrif á lífsakomu þess, og það geti í framtíðinni stutt þá stjórnmálaflokka sem því sýnist án þess að það þurfi hafa einhver áhrif. Að tími þeirra sem meti ágæti fólks eftir stjórnmálaskoðunum sé að líða undir lok og þau gildi og hæfileikar sem allir búa yfir verði sá mælikvarði sem menn verði í framtíðinni metnir af.
Kannski er það einmitt þetta sem komandi kosningar snúast um. Að hér komist til valda flokkar félagshyggju og jafnaðarmennsku sem virði þau gildi er hver einstaklingur stendur fyrir. Að menn geti komið til dyranna eins og þeir eru klæddir og þurfa ekkert að skammast sín fyrir það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.