Sunnudagur, 12. apríl 2009
Að skreyta sig með illa fengnum fjöðrum!
Þessa dagana eru það margir sem falla í þá leiðu gryfju að segja manni að hvítt sé svart og svart sé hvítt í pólitískum tilgangi. Og án þess að hafa kynnt sér mál þau er um er fjallað til fullnustu svipað og Elías Bjarnason gerir í athugasemd sinni hér í bloggi mínu. Þar sem hann þakkar sjálfstæðismönnum umfram öðrum að REI og GGE voru stöðvuð í tilburðum sínum við að ná fótfestu og yfirtaka Hitaveitu Suðurnesja. Hann heldur því fram að þar fjalli ég um mál sem ég hafi lítið vit á eða að skammtímaminni mitt hafi brostið. Læt athugasemd hans fylgja hér með.
Kemur ekki enn einn sleggjudómarinn fram á ritvöllinni! Þú ert einsog margir aðrir búnir að gleyma því að það voru Sjálfstæðismenn í borgarstjórn sem komu í veg fyrir að REY og Geysir yrðu eitt! Er eitthvað að ykkar skammtímaminni? Hvernig er þá langtímaminnið?
Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 01:33
Elíasi til upplýsingar og til að skerpa á skammtímaminni hans vil ég fyrst byrja á að benda honum á þátt Svandísar Svavarsdóttur og þáverandi minnihluta í Reykjavík sem áttu stóran þátt í að REI var stöðvað í Reykjavík. Hann virðist þó hafa gleymt því þó skammt sé um liðið. Nema hann vilji ekki nefna þann þátt í málinu einhverra hluta vegna.
Nú er það þannig varðandi málefni GGE og Hitaveitu Suðurnesja að þau hef ég kynnt mér nokkuð og er nokkuð vel inni í hvernig sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ komu þar að. Ég var einn af þeim. Elíasi til upplýsingar ætla ég nú að segja þá sögu sem ég hélt að ég þyrfti ekki að segja og lýsir vel aðdragandanum að undirskriftasöfnun þeirri er ég stóð fyrir á sínum tíma. Hún lýsir fyrst og fremst afstöðu þáverandi virkra félaga og flokkforystunnar í Reykjanesbæ til málsins.
Þann 27. Október 2007 var haldinn fjölmennur laugardagsfundur sjálfstæðismanna á kaffi Duus hér í Reykjanesbæ, þar sem saman voru komnir meðal annarra flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fjármálaráðherra , Árni Mathiesen . Þar voru einnig fulltrúar flokksins í bæjarstjórn að undanskildum bæjarstjóranum sem þá var erlendis.
Tilefni þessa hátíðarfundar var afhjúpun á bautastein þar sem fagnað var 200 laugardagsfundinum. Á bautastein þessum er meðal annars tilvitnun í Kato sem endaði allar ræður sínar á Svo legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði" Það virðist þeim sjálfstæðismönnum vera að takast hvað varðar fjármálstjórn Reykjanesbæjar, enda ekki til í rökræður um þann hluta umræðunnar.
Fleira var þó rætt á fundi þessum enda málefni Hitaveitu Suðurnesja og tillögur meirihlutans þar um heitasta mál bæjarfélagsins á þessum tíma. Og ekki voru allir sannfærðir um ágætið. Þar vorum við þrír Sjálfstæðismenn sem höfðum að vísu ekki mikil áhrif í stofnunum flokksins, en reyndum þó. Einn þeirra er ennþá flokksbundinn.
Á fundi þessum ræddi ég um að til mín hefðu borist óskir frá fólki úr öllum flokkum um að standa fyrir undirskriftasöfnun til að koma í veg fyrir að bærinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu. Á þeim tímapunkti var ég ekki viss um hvort það væri rétt af mér að gera slíkt svo ég lagði það undir fundinn. Þá var mér sögð dæmisaga um mann sem hafði ætlað sér að stökkva yfir læk en ekki náð yfir og drukknað í læknum. Það tók ég sem hótun um að ef ég færi út í undirskriftasöfnun þessa myndi ég hafa verra af. Þá tók til máls Árni Johnsen þingmaður og sagði að flokkurinn hefði áður byggt brýr fyrir þá er þyrftu yfir læki að komast og lagði til að slíkt yrði gert fyrir mig í þessu tilfelli. Ég ákvað þá að út í undirskriftasöfnunina færi ég og tæki því sem að höndum bæri og bað fundinn um skilning á því og að þeir gætu haft áhrif á þann texta sem undir yrði skrifað.Sú brú sem um var rætt kom þó ekki og frekar reynt að ýta mér út í hylinn ef eitthvað var.
Ennfremur var um það rætt á þessum fundi þar sem saman voru komnir þeir er vildu telja sig til verndara lýðræðis í landinu að ekki kæmi til greina að kallað yrði til borgarafundar um þetta mál og ef slíkt yrði að gera yrði það undir formerkjum Sjálfstæðisflokksins. Enda fór það svo í endann að Sjálfstæðisflokkurinn kallaði til borgarafundar, þar sem fulltrúum Hitaveitunnar, Geysis Green og Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ fengu að halda framsögu, en þeim sem á móti voru var heimilað að tala að því loknu.
Þarna var ég ennþá helblár og var tilbúinn til að leyfa þeim flokk er undirskriftasöfnunin beindist gegn að hafa áhrif á textann, og var fenginn sérstakur fulltrúi flokksins til að bera endanlegan texta undir. Sá var Böðvar Jónsson þáverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sem ég hafði samband við einu sinni við samningu textans, en fljótlega bættust við fleiri menn úr bæði Sjálfstæðismenn og úr öðrum flokkum sem höfðu meiri áhrif á endanlegan texta sem síðan rúmlega 5000 manns skrifuðu undir. Það voru íbúar úr öllum flokkum sem það gerðu.
Ég tel nauðsynlegt að þessi hluti sögunnar komi nú fram, þegar menn í pólitískum tilgangi reyna að eigna sér verk sem fyrst og fremst náðu fram að ganga sökum samtakamáttar íbúa þeirra sveitafélaga sem byggt höfðu upp Hitaveitu Suðurnesja með afnotagjöldum sínum og vildu ekki sjá hana einkavædda. Það borgar sig ekki að skreyta sig með illa fengnum fjöðrum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Facebook
Athugasemdir
Þakka upplýsandi pistil sem vekur ónot, en er samt gagnlegur.
Hlédís, 13.4.2009 kl. 08:09
Þakka þér fyrir þessa innsýn á bak við tjöldin.
Í þessu þjóðfélagi þar sem sinnuleysi er dyggð, þá er sannleikurinn skilgreindur út frá því hvað höfuðin í sjónvarpinu segja. Eftir hrun bankanna kom örlítið hik á fjöldann og menn blésu í öllum hornum, en seiðmagn litla lúsifers (sjónvarpsins) er mikið og nú sökkva menn sér niður í friends og fótbolta og halda að raunveruleikinn sé í sjónvarpinu. Ný alda sinnuleysis rís, fólkið heldur að það sé að taka til með því að kjósa...
Þetta skýrir hvers vegna þú þarft að rifja upp þessa sögu um hvernig fyrirtæki í rífandi hagnaði er að hluta komið í einkaeigu, eftir að hafa tekið allt of hátt gjald af íbúum áratugum saman undir því yfirskini að byggja framtíðina, kaupa réttindi til orkuvinnslu, byggja virkjanir o.s.frv. Það skal selt og ofsköttun á orku þar með fest til frambúðar, því þó bæjarfyrirtæki megi ekki reka í hagnaði, þá er það eini tilgangur einkafyrirtækja.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 08:49
Takk fyrir þetta. Ég er alltaf að furða mig á því að sumir Sjálfstæðismenn þakka sér að þetta ferli var stöðvað. Langar að komast til botns í málinu.
Margrét Rósa Sigurðardóttir, 13.4.2009 kl. 10:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.