Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Hin hamingjusama vændiskona og atvinnustefna sjálfstæðismanna
Svo lærir sem lifir hugsaði ég í gærkvöldi, þegar ég hafði tekið þátt í í borgarafundi í beinni útsendingu RÚV frá Selfossi. Það er greinilega heilmikið tilstand og fyrirhöfn sem sjónvarpið leggst í við svona útsendingar. Það virðist FLokkurinn einnig gera enda voru áheyrendur frá þeim í miklum meirihluta á fundinum og höfðu plantað sér eins fyrir miðjum salnum og létu mikið í sér heyra.
Það vakti athygli og raunar aðdáun mina hve vel æft þetta lið var í hrópum, klöppum og köllum, sem fór í gang í hvert sinn sem yfirgrúppían starfsmaður Reykjanesbæjar hreyfði sig ýmist í hneykslun yfir svörum þeirra sem þeir kalla andstæðinga sína eða yfirdrifinni hrifningu á ESB útskýringum síns frambjóðanda sem ennþá telur þrátt fyrir útskýringar um hið gagnstæða að Alþjóðagjaldeyrissjóðsaðferð þeirra sé fær leið. Og ungliðadeildin gerði eins.
Í mínum huga koma komandi kosningar fyrst og fremst með að snúast um ný gildi og breytta sýn á flest þau mál er snúa að samfélagi okkar. Ekki bara vandamál heimilanna heldur einnig um þau siðfræðilegu gildi sem við búum við. Og leyfði mér að spyrja frambjóðanda þeirra sjálfstæðismanna út í hennar afstöðu hvað varðaði ný afgreidd lög frá alþingi um vændi. Þar sem sjálfstæðismenn voru ýmist á móti frumvarpinu eða sátu hjá. Endaði spurninguna með því að spyrja hana hvort hún væri einn þeirra aðila sem ennþá trúðu á goðsögnina um hina hamingjusömu vændiskonu. Hún útskýrði sín rök í málinu, rök sem ég að vísu skildi ekki en virti þó það svar er hún gaf. Hélt þar með að málið væri útrætt og skoðanir þar að lútandi allar komnar fram er það varðar.
Varð þess vegna svolítið hissa og raunar brugðið efir fundinn þegar þriðji maður á lista þeirra Sjálfstæðismanna Unnur Brá Konráðsdóttir valdi að nefna það sérstaklega við mig eftir fundinn að þessi spurning hefði verið léleg. Velti aðeins fyrir mér siðferði þessa frambjóðanda sem finnst þetta ekki vera mál sem vert er að ræða. Hún virðist vera ein þeirra sem aðhyllist goðsögnina um hina hamingjusömu vændiskonu og telji þetta hluta af atvinnuuppbyggingu þeirra sjálfstæðismanna til framtíðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Facebook
Athugasemdir
Þú komst afar illa út, í raun fíflalegur. Virkilega léleg spurning, í raun hefði oddviti ekki átt að eyða tíma í að svara henni. Beiskjan er mikil hjá þér í garð íhalds, það vita margir. Var þér hafnað??
íbúi (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 16:18
Ég kann engin deili á þér og er sjálfur bara peð á leiksviðinu, eins og við flest. Ég horfði á fundinn og fannst spurningin þín frábær. Hún sagðist hafa setið hjá meðal annars vegna þess að frumvarpið náði ekki til drengja sem eru misnotaðir. Ég skil vel að sjálfstæðismönnum þyki spurningin óþægileg. Við henni er ekkert rökrétt svar.
Baldur G. (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 16:28
íbúi
já þetta er erfitt en maður veður víst að standa með sjálfum sér í þessu eins og öðru, en kannski hef ég það umfram þig íbúi að ég kem þó fram undir nafni , og jafnvel fíflalegu útliti. Það er meira en sumir aðrir geta sagt.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 21.4.2009 kl. 16:38
Hún virðist vera ein þeirra sem aðhyllist goðsögnina um hina hamingjusömu vændiskonu og telji þetta hluta af atvinnuuppbyggingu
Getur verið að það sé ekki verið að aðhyllast goðsögnina um hina hamingjusömu vændismanneskju (ótrúlegt en satt þá stunda bæði kynin þessa iðju) heldur hafi verið að aðhyllast réttindum þeirra persóna sem vilja stunda þetta, Hér eru nokkrar spurningar sem vert er að hugsa út í :
Er þetta eitthvað verra en hvert annað starf þar sem fólk er að stunda vinnu sem því líkar ekki?
Ef svo er, eru það þá ekki fordómar?
Afhverju var ekki bannað að selja vændi líka?
Býður þetta ekki bara upp á misnotkun á formi fjárkúgunar þar sem kaup eru bönnuð en ekki sala?
Er betra að þetta fólk sem þetta stundar fái enga innkomu?
Er betra að þessi iðja færist lengra niður í undirheimana þar sem er án efa hættulegra fyrir það fólk sem þetta stundar að vera?
Persónulega er ég lítill áhugamaður um vændi, en ég trúi því að breiða yfir vandann leysir hann ekki, og það er það eina sem þessi lög hafa gert!
Ef þessum þingmönnum er svo hugsandi til fólksins sem gerir þetta í neyð sinni þá væri líklegra betra að draga þetta upp í dagsins ljós, gera þetta löglegt, draga skatta ásamt því að hafa eftirlit og umsjón með þessu er hægt að útrýma 3 aðila í þessu sem er oftast hættulegasti einstaklingurinn. Hvort það væri betra fyrir samfélagið veit ég þó ekki og efast í raun um það, það eru bara því miður engir góðir kostir í svona málum en ég tel að þessi kostur sem var valinn hafi bara gert illt verra.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 21.4.2009 kl. 17:05
Bendi mönnum á að kíkja á umfjöllun Dodda á heimasíðu hans þar sem hann fer dýpara í útskýringar á þessu máli.
Hannes Friðriksson , 21.4.2009 kl. 17:11
Þetta var málefnaleg og hugrökk spurning eins og sést á viðbrögðum, bæði Sjálfstæðiskonunnar og hinna sem fylgja vændi. Þetta er tabú mál og nauðsynlegt að þora að tala um það. Morð er ólöglegt, það er bannað að drepa en samt eru morð framin. Dettur einhverjum í hug að slá af morðlögin bara af því það virkar ekki í að uppræta vandann?
Thelma Björk Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 17:51
Þú varst flottur og með flotta spurningu. Þessari sjálfstæðiskonu varð oft orða vant í þættinum. Hún talaði beint upp úr landsfundarsamþykktum, það var greinilegt. En sjálfstæðisfólk notar þessa aðferð í dag: að segja fólk hafa sagt asnalega hluti, vera á lágu plani. Þeir eru rökþrota. Þeir eiga ekkert eftir. Greyin (eins og skaftfellska vinkona mín sagði um aumingja).
Margrét Sigurðardóttir, 21.4.2009 kl. 18:10
Sæll Hannes
Það sem finnst dapurlegast við þessa kosningabaráttu er að stóru málin eru skilin eftir.
1. Hverjar eru skuldir þjóðarbúsins og hverning eigum við að tækla þær?
2. Hvað er nauðsynlegt að skera niður, í ár, næsta ár og það þarnæsta og hvað verður skorið niður?
3. Hverning tökumst við á við atvinnuleysið?
4. Hverning tökum við á skuldum heimila og fyrirtækja?
5. Ætlum við að auka skatta og ef svo hvaða og á hverja?
6. Með hvaða tækjum ætlum við að koma efnahagslífinu í gang aftur?
7. Viljum við sækja um aðild að ESB og ef svo með hvaða stefnumið ætlum við þá að fara í farartaskinu í viðræðurnar?
8. Ef við förum í viðræður um ESB, og aðild verður ekki samþykkt af þjóðinni. Hvaða varaleiðir höfum við þá tilbúnar, t.d. í gjaldeyrismálum.
Þú spurðir um kaup á vændi. Þetta er mál sem sérfræðingar eru alls ekki sammála um leiðir í. Það er mjög erfitt að svara spurningu um slíkt mál á svona fundi, og spurningin um hamingjusömu gleðikonuna er auðvitað sett fram til þess að gera lítið úr frambjóðandanum. Ég veit ekki hvort þú færð mörg prik fyrir það. Hefði verið ánægðari með þig ef þú hefðir spurt út í stóru málin. Við þurfum málefnalegri pólitík.
Sigurður Þorsteinsson, 21.4.2009 kl. 18:27
Morð er ólöglegt, það er bannað að drepa en samt eru morð framin. Dettur einhverjum í hug að slá af morðlögin bara af því það virkar ekki í að uppræta vandann?
Að bera morð saman við vændi er ekki góð samlíking, þegar verið er að fremja morð þá er einn viljugur einstaklingur og einn óviljugur einstaklingur sem fær engu ráðið um sín afdrif, hvort sem þú trúir því eða ekki þá hefur fólk sem er í vændi þann möguleika á að segja nei og ef það virkar ekki þá er það nauðgun. Vændi og nauðgun er ekki sami hluturinn sama hvað þér finnst um þetta mál. Nauðgun er ekki nauðgun nema annar aðilinn sé neyddur með valdi og þannig er það bara ekki með allt vændi, vissulega eru sumir settir út í þetta nauðugir með hótunum og valdi og þá kallast það mannsal sem er ekki það sama og vændi.
Einnig gæti ég bent á það að þó það hafi verið sett lög sem gera morð ólögleg þá hefur það ekki stoppað morð sem segir bara eitt, að banna eitthvað með lögum lætur hlutinn ekki hverfa.
Þetta er einfalt.
Vændi er ekki alltaf mannsal.
Vændi er ekki alltaf nauðgun.
Mannsal er ekki alltaf vændi.
Mannsal er ekki alltaf nauðgun.
Nauðgun er ekki alltaf vændi.
Nauðgun er ekki alltaf mannsal.
Ef þú horfir á þessar mjög einföldu röksemdarfærslur þá er auðvelt að sjá það að þú getur ekki sett beint samasem merki á milli þessara hluta, þannig að (Nauðgun = Mannsal = Vændi) er ekki rétt.
Hvort sem þú trúir því eða ekki Thelma þá er til fólk sem gerir þetta án þess að vera neytt út í það og þó að þú sjálf lítir á þetta sem Nauðgun, Mannsal, ofbeldi og viðbjóð þá eru ekkert allir sammála þér og á það líka við um fólk sem vinnur í þessum geira.
Bendi mönnum á að kíkja á umfjöllun Dodda á heimasíðu hans þar sem hann fer dýpara í útskýringar á þessu máli.
Ef þú varst að benda á heimasíðuna mína þá á ég enga slíka og þú ert væntanlega að rugla mér saman við einhvern annann 8)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 21.4.2009 kl. 18:32
Doddi minn einhverra hluta vegna kemur nú samt hlekkur með athugasemd þinni, ef þú átt hana ekki hver þá? Sjálfstæðisflokkurinn?
Hannes Friðriksson , 21.4.2009 kl. 18:57
Sæll Hannes
'Eg horfði með öðru auganu á fundinn í gær. Ég sá einmitt spurningu þína.
Frábær spurning hjá þér.
Hef aldrei getað skilið þessa "röksemd" að ef vændi sé bannað þá fari það undir yfirborðið. Nú, nú er vændi einmitt svona "atvinnustarfsemi" sem er upp á borðinu?
Haldið þið í alvörunni að það að vera t.d. vændiskona sé starf eins og vinna á skrifstofunni í Valhöll?
T.d. haldið þið í alvörunni að fólk sem væri t.d. að skrá börn sín í skóla að það myndi setja á umsóknina þar sem beðið er um starf t.d. móður... Hóra? Hvers vegna ekki?
Ef fólki finnst þetta eðlilegt afhverju kemur það þá ekki fram í hópum og segir frá reynslu sinni af því að "kaupa" þjónustu vændiskvenna og ber saman verð og gæði ?
Væri þá ekki ráð að koma á fót námskeiði í "fræðunum" svo dætur og synir þessa liðs eins og þessarar Ragheiðar gætu fullnumið sig í "fræðunum" og verðlagt sig dýrt?
Eða vill hún kannski ekki þessa "atvinnu" fyrir sín börn? Eða er þetta bara eitt af "störfunum" sem eru góð fyrir annarra börn?
(Að allt öðru, ég legg til að Ragnheiður þessi fari á framburðarnámskeið. Það er ekki hlustandi á hana. Kannski að Þorgerður Katrín geti reddað henni ódýru námskeiði hjá Gunnari gamla. Best að Ásta Möller fari með henni. )
Ásta B (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:18
Það er von að það fari í taugarnar á ykkur að á einum fundi var salurinn ekki yfir fullur af vinstra liði.Fannst fundurinn merkilegastur fyrir algjöra andstæður í EBS.málum hjá VG og SF.þó eru þeir ákveðnir að fara í stjórn saman,þó þeir séu samála um að vera ósamála. Atli þyrfti ekki síður að fara á framburðarnámskeið mér fannst hann frekar óáheyrilegur tafsaði á orðunum.
Ragnar Gunnlaugsson, 21.4.2009 kl. 21:39
Ég er hræddur við lög um boð og bönn.
Það er jafnræðisregla til í okkar réttaríki og ég er hræddur við að þessi lög verði notuð í málaferlum lögbrjóta í framtíðinni.
Einungis það að það skuli vera löglögt að selja sinn fyrir peninga(mannsal á sjálfum sér), og kaupandinn verður ákærður ef upp um hann kemst.
Við getum tekið dæmi um eiturlyfjasala og neytandann sem kaupir af honum. Hver er sekur í þessu samhengi? Ef jafnræðisreglunni væri beitt, þá gæti komið upp ágreiningur um sekt og möguleiki á að hann verði sýknaður á grundvelli þessara laga.
Ef það gerðist þá myndi verða til hamingjusamur sölumaður.
ps. Ég er sammála ritara hér að ofan að hafa þetta allt upp á yfirborðinu þannig að fylgst gæti verið með "atvinnunni¨" Þessar konur / menn gætu stofnað stéttarfélag og verið með samræmda verðskrá. Þannig gæti samfélagið viðurkennt þessa elstu "starfsgrein" í heiminum og notið hennar, þeir sem vilja líkamlega, og með þeim sköttum sem af henni hlýst. Með því að hafa þetta upp á yfirborðin, þá kæmi í ljós þörf landans fyrir þessari þjónustu. Ef eftirsóknin er mikil þá efast ég ekki um að til verði hamingjusamar vændiskonur.
Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:58
Ásta : Hef aldrei getað skilið þessa "röksemd" að ef vændi sé bannað þá fari það undir yfirborðið. Nú, nú er vændi einmitt svona "atvinnustarfsemi" sem er upp á borðinu?
Þetta er ekki röksemd, þetta er staðreynd, hugsaðu til bjór bannsins sem var hér í gamla daga þá spruttu upp landasalara út um allt og "allir" voru að brugga sjálfir, semsagt þetta færðist niður í undirheimana, þannig virka bönn.
Ef eitthvað er bannað þá sér glæpaheimurinn sér tækifæri til að græða pening, þannig virkar það glæpaheimurinn reddar fólki vörur sem eru ólöglegar.
Ásta : Haldið þið í alvörunni að það að vera t.d. vændiskona sé starf eins og vinna á skrifstofunni í Valhöll?
Þó að okkur finnist það ekki þá kannski finnst þeim sem þetta hafa fyrir iðju það, er það ekki möguleiki? erum við ekki bara með fordóma með því að halda þessu fram?
Ásta : T.d. haldið þið í alvörunni að fólk sem væri t.d. að skrá börn sín í skóla að það myndi setja á umsóknina þar sem beðið er um starf t.d. móður... Hóra? Hvers vegna ekki?
Eða kannski bara skemmtikraftur?
Ásta : Ef fólki finnst þetta eðlilegt afhverju kemur það þá ekki fram í hópum og segir frá reynslu sinni af því að "kaupa" þjónustu vændiskvenna og ber saman verð og gæði ?
Tók það hvergi fram að fólki ætti að þykja þetta eðlilegt, eina sem ég er að halda fram er að þetta leysir engann vanda með því að banna þetta, þetta gerir bara illt verra í flestum tilvikum fyrir fólkið sem þetta á að vernda.
Ásta : Væri þá ekki ráð að koma á fót námskeiði í "fræðunum" svo dætur og synir þessa liðs eins og þessarar Ragheiðar gætu fullnumið sig í "fræðunum" og verðlagt sig dýrt?
Var einhver hér að halda því fram að við ættum að ýta undir þessa atvinnugrein?
Ásta : Eða vill hún kannski ekki þessa "atvinnu" fyrir sín börn? Eða er þetta bara eitt af "störfunum" sem eru góð fyrir annarra börn?
Efast um að hún vilji þetta fyrir nokkura persónu en væri það ekki betra að ef börnin hennar (eftir að þau eru orðin sjálfráða að sjálfsögðu) færu út í þessa atvinnugrein að það væri séð um þau af ríkinu með reglum um eftirlit heldur en einhverjum dólgi sem fyllir þau af dópi til að notfæra sér þau fyrir sjálfan sig og í sölu?
Ég veit ekki alveg í hvaða draumaheimi þú lifir ef þú heldur að það sé betra að hafa þessa atvinnugrein í höndum glæpamanna heldur en eftirliti hjá ríkinu.
Hannes : Doddi minn einhverra hluta vegna kemur nú samt hlekkur með athugasemd þinni, ef þú átt hana ekki hver þá? Sjálfstæðisflokkurinn?
Ef þú ert að tala um hlekkinn sem nafnið mitt leiðir á þá er ekkert þar, þar sem ég fer dýpra í útskýringar á þessu máli, ef ekki þá er ég ennþá ekki með hugmynd um hvað þú ert að tala 8)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 23.4.2009 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.